08.03.1944
Neðri deild: 28. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 136 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Pálmason:

Mér virðist, að þær rökræður, sem hér fara fram, séu aðallega um atriði, sem eru ekki deiluatriði. En ég skal nú ekki fara nánar út í það.

Varðandi brtt. okkar hv. þm. Vestm. og út af ummælum hv. frsm., hv. 2. þm. S.-M., vildi ég segja þetta: Hv. frsm. sagði, að allir ræðumenn á undan honum hefðu verið fylgjandi raunverulegu stöðvunarvaldi hjá forsetanum, hefðu viljað gera hann að gæzlumanni yfir Alþ. Þetta á ekki við um ummæli mín eða brtt. okkar. Okkar till. rýrir einmitt vald forseta í sambandi við þingið, bæði miðað við 26. gr. stjskrfrv. og brtt. hæstv. forsrh., því að hún krefst meira fylgis við málstað forseta, ef árekstur verður milli hans og þingsins.

Einkennilegt var, að hv. frsm. taldi óheimilt að samþ. brtt. okkar út frá stjskrbreyt. frá 16. des. 1942. Hv. 3. þm. Reykv. vék að þessu á eðlilegan hátt, að þessi skoðun rækist á annað hjá hv. frsm., því að væri óheimilt samkv. stjskr.samþ. brtt. okkar, þá gilti það sama um till. hæstv. forsrh. og 26. gr. þessa frv. eins og það kemur frá hv. stjskrn. og þar með hv. frsm. hennar. Á þessu er enginn eðlismunur. Öll þessi ákvæði gera ráð fyrir breyt. frá því, sem nú er, sem ég álít þó, að heimilt sé að samþ.

Varðandi það, að brtt. okkar rýri vald þingsins, þá er það fjarri sanni, því'að hún kemur einmitt í veg fyrir, að forseti geti heimtað þjóðaratkvæði um hvaða lagafyrirmæli, sem þingið neitar að samþ., og frestað gildistöku þeirra eða hindrað. Það er ekki út í bláinn, að eitt stærsta lýðveldi heimsins, Bandaríkin, hefur sama fyrirkomulag á þessu og við leggjum til, og öllum er kunnugt um, að þessi regla hefur nýlega komið þar til framkvæmda.

Þá er öllum kunnugt um, hve léttara þetta fyrirkomulag yrði í vöfum. Það er ekki lítið hægara að kalla saman þing, ef þyrfti, en láta fara fram þjóðaratkvgr. Væri Alþ. rofið, áður en það væri búið að ganga frá slíku ágreiningsmáli, þá yrði málið sýnilega kosningamál og fengi ekki fullnaðarafgreiðslu fyrr en á þingi eftir kosningar, sem yrði þá í samræmi við vilja þjóðarinnar.

Að öllu þessu athuguðu tel ég sannað, að rétt sé að fara þá miðlunarleið, sem við leggjum til með till. okkar.