13.12.1944
Efri deild: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (1922)

101. mál, lendingarbætur í Djúpavogi

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Herra forseti. — Ég hef fátt eitt að segja um þetta frv. fyrir hönd sjútvn. N. hefur borið það saman við gildandi l. um sama efni. Frv. er að öllu leyti samhljóða öðrum frv. um þetta efni, og leggur n. eindregið til, að það verði samþ. óbreytt.

Ég tel rétt að skýra að nokkru fyrir dm. aðstæðurnar á þessum stað.

Eins og öllum er kunnugt, sem kunnugir eru eða fást við sjávarútveg, gengur vetrarvertíðarfiskur ekki lengra austur en að Austurhorni. Ef Austfirðingar vilja nota vetrarvertíðina, verða þeir því að flytja sig burt, og síðan bátaflotinn stækkaði, er óhjákvæmileg nauðsyn að geta notað vetrarvertíðina. Hornafjörður hefur hjálpað mikið, en þar er nú svo komið, að ekki er hægt að taka á móti fleiri bátum þar. Leita því margir bátar að austan til Faxaflóa, því að Vestmannaeyjahöfn er fullnotuð.

Djúpivogur er syðsta höfnin á Austfjörðum, sem bátar róa frá, en til þess að höfnin verði nothæf stærri bátum, þarf að gera þar verulegar hafnarbætur.

Djúpivogur er lítið fiskiþorp sem stendur. Ef nothæf höfn væri gerð þar, er mikið álitamál, hvort bátar af Austfjörðum hafa ekki enn betri aðstöðu til að ná á vetrarfiskimiðin þaðan en frá Hornafirði. Tilraun hefur verið gerð í þessu efni, og sýndi hún, að bátar frá Djúpavogi hafa stundum náð eins góðum afla og stundum betri en bátar frá Hornafirði. Seinni hluta vertíðarinnar er reynslan sú, að bátar, sem eru nógu stórir til að sækja frá Djúpavogi á Hornmið, fá svo til eins góðan afla og Hornafjarðarbátar.

Ég var sjálfur um tíma á Djúpavogi og er sannfærður um, að ef aðstaðan þar er tryggð og bátar þar eru eins vel útbúnir, má fá þar eins góðan árangur og frá Hornafirði eða betri, ef hann liggur í sunnanátt.

Ég vil láta þetta koma fram, úr því að verið er að byrja á lendingarbótum á Djúpavogi. Ég tel, að rétt sé, að sem allra fyrst sé hafizt handa um lendingarbætur á Djúpavogi, því að þar er þá fengin höfn, sem getur samsvarað að ýmsu leyti þeirri höfn, sem við höfum á Hornafirði.

Tel ég rétt, að þetta komi fram um leið, til þess að þm. álíti ekki, að það sé einungis tildursháttur að ráðast í þessar framkvæmdir.

N. leggur til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir.