08.03.1944
Neðri deild: 28. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (193)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. (Eysteinn Jónsson):

Ég skal ekki verða langorður, enda hefur ekkert tilefni gefizt til þess, og hefur hv. þm. G.-K. raunar sumpart svarað því, er fram hefur komið, síðan ég tók til máls.

Það er fyrst varðandi hv. 3. þm. Reykv. Hann heldur fast við það, að óheimilt sé að breyta ákvæðum stjskr. um synjunarvaldið, og vitnar í því efni til stjskrbreyt. frá 16. des. 1942. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Þó er óheimilt að gera með þessum hætti nokkrar aðrar breytingar á stjórnarskránni en þær, sem beinlínis leiðir af sambandsslitum við Danmörku og því, að Íslendingar taka með stofnun lýðveldis til fullnustu í sínar hendur æðsta vald í málefnum ríkisins.“

Þegar lýðveldi er stofnað í stað konungdæmis, þarf að ráðstafa synjunarvaldi konungs. Hins vegar er ekkert, sem heimtar. það, að synjunarvaldið gangi til forseta eins. Þess vegna er sú breyt. á fyrirkomulagi synjunarvaldsins, sem n. fylgir, alveg heimil samkv. stjórnskipul. frá 16. des. 1942.

Bæði hæstv. forsrh. og hv. 3. þm. Reykv. bentu á, að þótt brtt. þeirra yrðu samþ., væri engin ástæða til að ætla, að forsetinn drægist meira inn í stjórnmáladeilur, því að svo sterkar venjur giltu um beitingu málskots- og synjunarvaldsins. En ég hef bent á og get ekki annað en endurtekið það, að með þjóðkjörnum forseta og okkar lundarfari liggur beint við að álykta, að mjög yrði skorað á forseta af umbjóðendum hans að beita þessu valdi í mörgum dæmum, og þætti mörgum hann illa bregðast, ef hann yrði ekki við því, en öðrum hann misnota vald sitt herfilega, ef hann notaði réttinn. Ég óttast, að synjunarvald í höndum forseta eða málskotsvald með þeim hætti, sem hæstv. forsrh. leggur til, yrði til þess, að hann drægist inn í þras og erjur. En að því yrði ekkert gagn. Verður svo hver að hafa sína skoðun.

Það kom fram hjá hæstv. forsrh., að honum þykir kastað nokkurri rýrð á þjóðhöfðingjann, ef honum er ekki ætlað meira málskotsvald en n. fylgir. Forsetanum eru ætluð ærin önnur störf, þótt þetta gangi á undan, og það mætti segja mér, að forsetanum tækist betur að halda virðingu sinni og starfsemi og koma fram fyrir hönd allrar þjóðarinnar með því að hafa ekki meiri áhrif á lagasetningu en honum er ætlað í frv., eins og það liggur nú fyrir.

Þá vil ég víkja að brtt. hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. Vestm. Ef við athugum það fyrirkomulag, sem við höfum búið við í reyndinni í þessum efnum, þá sjáum við, að Alþ. eitt hefur í raun réttri haft löggjafarvaldið. En eftir bókstaf l. hefur konungur þó haft algert neitunarvald, sem hann hefur aldrei beitt. Nú finnst mér ófært annað en breyta þessu, þegar lýðveldið er stofnað. Með því erum við aðeins að staðfesta það, sem verið hefur í reyndinni, og er það í fullu samræmi við stjskrbreyt. frá 1942. Aftur á móti erum við bundnir við að breyta engu í aðra stefnu en gildandi stjskr. ákveður, en það kalla ég, að við gerðum, ef við samþ. brtt. hv. þm. A.-Húnv. og hv. þm. Vestm. og seldum synjunarvaldið í hendur forseta í samráði við 1/3 hluta þm. — Það væri gerbreyting á valdi Alþ., ef rúmlega 1/3 hluti þess gæti með forseta stöðvað lagasetningu. Þessi till. er því með öllu óaðgengileg.

Ég álít málið bezt leyst með því að breyta ákvæðunum um synjunarvaldið og gera það að málskotsvaldi, eins og nú er í frv., sem fyrir liggur. Vænti því, að allar brtt. verði felldar.