22.11.1944
Efri deild: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1057 í B-deild Alþingistíðinda. (1950)

190. mál, hafnarlög fyrir Ólafsfjörð

Flm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. muna, voru samþ. á þessu þ. l. um bæjarstjórn í Ólafsfirði. Með þeim var Ólafsfjörður skilinn frá Eyjafjarðarsýslu, og er þetta frv. bein afleiðing þeirra l.

Hér er að mestu leyti um orðabreytingu að ræða, þannig að þar, sem stóð áður: „hreppsnefnd“, kemur nú: bæjarstjórn, o.s.frv. Er þetta sjálfsögð afleiðing af því, sem orðið er, að Ólafsfjörður á að verða kaupstaður. Meginbreytingin er í 2. gr., þar sem fellt er niður ákvæði um að krefjast ábyrgðar Eyjafjarðarsýslu fyrir láni, sem hafnarsjóður Ólafsfjarðar kann að taka til hafnargerðar.

Ég verð að skilja þessa hv. deild svo, að þegar l. um bæjarréttindi Ólafsfjarðar voru sett, hafi þessi grein verið fyrir fram samþ. Því var þá lýst yfir af mér, að aðaltilefni þessa var það, að sýslunefnd Eyjafjarðarsýslu hafði neitað um þessa ábyrgð.

Ég hygg, að ekki þurfi að fjölyrða um þetta atriði, samþykki sé þegar fengið.

Önnur nýmæli eru ekki í frv., og í rauninni eru þetta ekki nýmæli, heldur formsatriði. Ég hef ekki farið út í að hækka tillag það, sem þar um ræðir. Ég vil ekki blanda því inn í þetta mál, enda þótt fjárupphæðin sé ekki nægileg.

Ég hafði til fyrirmyndar, þegar Akranes var gert að bæjarfélagi og sett voru ný hafnarl. fyrir þann bæ. Ég er algerlega sammála þeim hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Barð., sem í umr. áðan um 2. dagskrármálið létu orð falla um nauðsyn þess að setja heildarhafnarlög hér á landi. Það er orðið svo víða, sem ríkið styrkir hafnarmannvirki, að hin mesta nauðsyn ber til, að l., sem að slíkum mannvirkjum lúta, séu samræmd. En það breytir engu um þetta frv. Það á að ganga fram nú, samræmis vegna.