13.12.1944
Efri deild: 87. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (1986)

171. mál, ríkisborgararéttur

Frsm. (Lárus Jóhannesson):

Herra forseti. Mál þetta, eins og það liggur fyrir á þskj. 437, er komið frá hv. Nd. og var vísað til allshn. þessarar d.

N. hefur athugað frv. og leggur til, að það verði samþ., þar sem þeir menn, sem þar eru upp teknir, uppfylla þau skilyrði, sem lög og venjur gera kröfur til, til þess að geta fengið íslenzkan ríkisborgararétt. N. hefur gefið út nál. á þskj. 592, en áður en málið kom til umr., bárust n. umsóknir frá þrem mönnum til viðbótar, þar sem farið er fram á veiting íslenzks ríkisborgararéttar, og eftir að hafa athugað hagi þessara manna, komst n. að þeirri niðurstöðu, að tveir af mönnunum uppfylltu skilyrðin, en sá þriðji ekki. Ber n. því fram brtt. á þskj. 667, og vil ég í því sambandi geta þess, að 2. íslenzk brtt. er til þess að koma á réttri stafrófsröð, sem ekki þótti taka, meðan ekki var gert ráð fyrir fleiri breyt., en þótti nú sjálfsagt, þegar þessir tveir menn hafa bætzt við, sem — eins og ég hef tekið fram — uppfylla öll sett skilyrði, að öðru leyti en því, eins og tekið er fram í grg. á þskj. 437, að þeir hafa ekki vegna ríkjandi ófriðarástands getað aflað sér hegningarvottorðs frá útlöndum. En af sögu þessara manna er ekki ástæða til að ætla, að neitt sé til fyrirstöðu til þess að veita þeim ríkisborgararétt.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta, en leyfi mér að leggja til f.h. allshn., að frv. verði samþ. með þeim breyt., sem eru á þskj. 667.