22.11.1944
Efri deild: 73. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1078 í B-deild Alþingistíðinda. (2023)

134. mál, bændaskóli

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti., Ég treysti mér ekki til að fylgja till. hv. 2. þm. Árn. á þskj. 329 og mun því greiða atkvæði með dagskrártill. Hv. frsm. minni hluta n. hefur tekið fram flest þau atriði, er máli skipta, og get ég því að miklu leyti vísað til ræðu hans. Með fáum orðum vil ég þó gera grein fyrir viðhorfi mínu til málsins og skal þá fyrst minnast á þau atriði, er ég tel litlu máli skipta. Nokkur sanngirni virðist mæla með því, að Rangárvallasýsla fái þennan skóla, þar sem enginn skóli er fyrir í sýslunni. Það er þó algert aukaatriði í mínum augum.

Hitt atriðið er um rækt við forna minningu Skálholts. Ég er því fullkomlega samþykkur, að það eigi að vera okkur metnaðarmál að gera nokkuð fyrir Skálholtsstað, en ég tel vafasamt, að þeim kröfum yrði fullnægt með setningu þessa skóla, með því að upplýst hefur verið, að skólann verði að reisa allfjarri hinum gamla bæ. Virðist mér ljóst, að á þann hátt sé ekki fengin lausn þessa atriðis.

Þá vil ég benda á formshlíð þessa máls, þar sem Alþ. hefur ákveðið, að landbrh. skuli ákveða skólastaðinn. Þegar þessi ákvæði eru sett í lögin, er það gert með það fyrir augum, að meiri trygging sé fyrir því, að skólasetrið sé ákveðið með sem mestu hlutleysi, ef aðrir aðilar en Alþ. ákveða það, og ég get ekki betur séð en að þau sjónarmið séu óbreytt enn í dag. Hitt er óviðkunnanlegt, að setja svona ákvæði inn í lög og hlaupa síðan til og ákveða með nýjum lögum, að skólasetrið skuli vera annað en tiltekið hefur verið. Það má e.t.v. segja, að þetta skipti ekki miklu máli, en er leiðinleg aðferð.

Það hefur verið gerður mikill samanburður á hinum tveimur stöðum, Skálholti og Sámsstöðum, í þeim tilgangi að komast að niðurstöðu um, hvor jörðin muni heppilegri til skólaseturs. Ég skal fúslega játa, að það er eðlilegt, að skoðanamunur sé um þetta og það er ekki hægt að neita því, að það er margt, sem mælir frekar með Skálholti en með hinum staðnum. Ég legg ekki svo mikið upp úr því, að Skálholt er miklu stærri jörð og að sumu leyti e.t.v. betri, en ég þori þó ekki að leggja dóm á það, því að ég er því ekki vel kunnugur, þótt ég hafi komið á báða staðina, því að svo framarlega sem þessi tilraun lánast, er ekki svo mikil hætta á, að ekki fáist til umráða það land, sem skólanum er nauðsynlegt. Það má e.t.v. segja, að það sé að sumu leyti eins gott að fara ekki mjög stórt á stað, heldur láta hina eðlilegu þróun ráða, hvaða landrými slík stofnun fær til umráða. Hitt skiptir meira máli, að Skálholti fylgir hverahiti, sem er mjög mikill kostur fyrir skólasetur, hvar sem skólinn er, því að upphitun þurfa þeir allir, og víst er um það, að hverahiti á skólasetri fylgja margir kostir, eins og raunar alls staðar. Að því leyti verður því að játa, að Skálholt er betur sett. — Þá eru áveitumöguleikar miklir í Skálholti, og verð ég að játa, að það er einnig nokkur kostur, ekki sízt fyrir skóla hér á Suðurlandi, þar sem áveitan hefur jafnmikla þýðingu.

Hins vegar eru aðrir kostir, sem ég tel Sámsstaði hafa fram yfir Skálholt. Vil ég þar fyrst telja legu jarðarinnar. Það er ekki hægt að neita því, að Sámsstaðir liggja að öllu leyti betur en Skálholt, því að samgöngur eru enn þá allslæmar við Skálholt. Það er raunar rétt, sem haldið hefur verið fram, að þegar brú er komin yfir Hvítá hjá Iðu, batna þær samgöngur mikið. En ég veit ekki, hvort nokkur hér inni getur fullyrt, að sú brú komi á næstunni, þótt vitanlega sé mikil þörf fyrir hana. En það er ekki þýðingarlítið atriði, að menn eigi sem beztan kost á að komast að skólasetrinu.

Frjósemi og ræktunarmöguleikar ætla ég, að séu sízt verri á Sámsstöðum en í Skálholti, þó að þar sé einnig viðáttumikið land og gott. En það, sem mestu máli skiptir, að mínu viti, er það, að á Sámsstöðum er tilraunastöð Klemenzar Kristjánssonar, og ætla ég, að það eitt út af fyrir sig að hafa þá tilraunastöð og hafa fyrir augum sér þann lærdóm, sem þar má fá daglega, sé meira en lítils virði fyrir skólasetrið og að nemendur geti mikið af því lært að vera í námunda við mann eins og Klemenz.

En þótt þetta sé veigamikið atriði í mínum augum, er þó ótalið það, sem ég tel einna þýðingarmest í þessum efnum, og það er það, að ég álít, að það séu möguleikar til þess að fara á stað hægt og rólega á Sámsstöðum, án þess að leggja mjög mikla peninga í skólann, hvort heldur er í byggingar eða jarðræktarframkvæmdir. Það sé hægt að gera það hægt og rólega og það komi þó að fullum notum fyrir nemendurna. Á Sámsstöðum er í sambandi við tilraunastöð Búnaðarfélagsins búið að koma upp allmiklum byggingum, og má fullyrða, að Klemenz mundi taka að sér verklega kennslu þar, sem mundi gera það að verkum, að miklar fjárhæðir spöruðust. Mundi þetta spara miklu meiri byggingar en í Skálholti. Í Skálholti mundi þurfa að byggja mjög mikið strax, auk þess sem ýmsar aðrar framkvæmdir yrði að taka þar miklu geistara en á hinum staðnum.

Ég held því, að þeir, sem hafa mikinn áhuga fyrir biskupsstólnum á Suðurlandi, eigi að hugsa sig tvisvar um, áður en þeir hvetja til breyt. á þeim ákvörðunum, sem teknar hafa verið um þetta nú. Ef breytt verður til aftur, er ég mjög hræddur um, að svo geti farið, að dráttur verði á því að hraða þessu frv. Vænti ég því, að hv. flm. þessa frv. taki það til rækilegrar athugunar, áður en hann knýr þetta mál í gegnum þingið. Ég þykist vita, að það skipti ekki miklu máli, a.m.k. í þessari hv. d., hvernig atkv. mitt fellur. En ég þykist þó til neyddur að benda á þessi atriði.