13.12.1944
Neðri deild: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1082 í B-deild Alþingistíðinda. (2034)

134. mál, bændaskóli

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Mál þetta er komið frá hv. Ed., og í grg. og fylgiskjali með þessu frv. er gerð allýtarleg grein fyrir því, og get ég þess vegna verið mjög stuttorður. Ég get þó ekki komizt hjá því að rekja örlítið sögu þessa máls í örfáum dráttum.

Með l. frá 1942 var landbrh. falið að velja skólastað fyrir bændaskóla. En landbúnaðarráðuneytið ákvað þá að óska eftir till. frá Búnaðarfélagi Íslands í þessu máli. Búnaðarfélagið fól 3 manna nefnd að athuga vel málið og gera um það tillögur. Þessi n. aflaði sér þeirra gagna fyrst og fremst, sem fyrir hendi voru, bæði af þeim skjölum, sem til taks voru, og enn fremur kynnti hún sér álit manna á þessu svæði. Þá ferðaðist nefndin um þetta svæði og athugaði alla þá staði, sem talið var, að helzt gætu komið til greina. Allir nm. voru sammála um það, hvaða kröfur bæri að gera til staðar fyrir slíkan skóla, og samkvæmt þeim grundvelli nefndarinnar voru tveir staðir, sem kostur var á, sem uppfylltu þau skilyrði, sem nefndin hafði sett sér í upphafi. Það var Kálfholt í Rangárvallasýslu og Skálholt í Árnessýslu. Þegar svo endanlega átti að ákveða, hvaða stað n. tilnefndi, þá klofnaði hún, og lagði meiri hlutinn til, að Skálholt yrði valið, en minni hl. lagði til, að Kálfholt yrði valið.

Nú líður og bíður, og þessi álitsgerð fer til landbúnaðarráðuneytisins. Það gerist ekkert í málinu, en svo kemst nokkurt kvis á, að landbrh. muni hugsa sér allt annan stað fyrir skólasetur, og eftir að þingið kemur saman, er borið fram þetta frv. í hv. Ed., sem lögfestir, að skólanum verði valinn staður í Skálholti.

Þrátt fyrir það að þetta frv. er fram komið og að ýmsu leyti eðlilegt að bíða og sjá, hvað hv. Alþ. gerði í málinu, ákvað nú ráðh. að úrskurða, að skólinn skyldi settur á allt öðrum stað, á Sámsstöðum í Fljótshlíð, og gerði það rétt um leið og hann var að fara frá. Þetta þótti mörgum einkennileg aðferð. Um staðarvalið skal ég aðeins geta þess, að n. athugaði nú Sámsstaði og taldi þann stað ekki koma til greina, a.m.k. alls ekki víð hliðina á Skálholti og Kálfholti. Og ég verð að segja það, að það er einkennilegt að geta ekki fundið búnaðarskóla annan stað en þennan í okkar strjálbýla landi og jafnstrjálbýlli sýslu og Rangárvallasýsla er. Og það er merkilegt að velja stað í einhverri mestu landkreppusveit, sem til er, og þar, sem bersýnilegt er, að þyrfti að reka allmarga bændur af jörðum sínum, ef bændaskóli og tilraunastöðin á Sámsstöðum eiga að þrífast fullkomlega. Ef hæstv. ráðh. hefði valið Kálfholt í staðinn fyrir Sámsstaði, mundi ég ekki hafa skipt mér af þessu máli. Ég taldi, að Kálfholt hefði ýmsa kosti til að bera, og ég hika ekki við að fullyrða, að sá staður stendur Sámsstöðum miklu framar sem skólasetur. Um Skálholt er það að segja, að ég hef ekki komið á annan stað hér á landi, sem hefur jafnmarga kosti til að bera, sem æskilegir eru fyrir búnaðarskóla. Það má segja, að þar séu þau skilyrði fyrir hendi, að þar sé hægt að kenna allar þær greinar jarðræktar, sem menn kjósa helzt að læra. Þar eru mikil túnræktarskilyrði, mjög víðáttumikið áveituland, þar er hægt að gera áveitutilraunir í stórum stíl, og loks er mjög mikill jarðhiti þar, og mætti því hafa þar gróðurhúsarækt. Og ég verð að lýsa því yfir, að ég vildi mjög gjarnan, að minn kæri Hólaskóli hefði slík skilyrði sem þarna eru fyrir hendi í Skálholti.

Ég skal líka geta þess, að þegar mér með öðrum var falinn sá mikli vandi að gera till. um. skólastað, þá gerði ég það með þeim ásetningi að gera það eitt, sem ég teldi réttast, án allrar hreppapólitíkur, og ég mundi sízt hafa hallað á Rangárvallasýslu, ef því hefði verið að skipta. En þar sem landbn. Nd. hefur ekki séð, að það væri neitt það fram komið, sem haggaði niðurstöðu meiri hl. n., hefur n. orðið ásátt um að leggja til, að frv. verði samþ. óbreytt eins og það kemur frá n.

Ég vil geta þess, að þótt ég sé nokkuð riðinn við þetta mál, þá er mér það hvorki kapps- né hitamál. Ég mun þess vegna láta mér nægja að skýra málið eins og ég hef gert, og læt ég svo hv. d. að öðru leyti um það að mynda sér skoðanir eftir þeim gögnum, sem fyrir liggja í málinu.