13.12.1944
Neðri deild: 91. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (2035)

134. mál, bændaskóli

Helgi Jónasson:

Ég get ekki látið hjá líða að segja nokkur orð, enda þótt það sé við 2. umr. Ég vil geta þess, að hæstv. forseti setti fund hér í deildinni fyrir hálfum mánuði, þann 21., á laugardegi, til þess m.a. að koma þessu máli til 2. umr.

Það er ekki venja að hafa fund á laugardegi, og ég vissi ekki um þennan fund og var ekki í bænum. En ég býst við, að hæstv. forseti hafi litið svo á þetta mál, að hann vildi gjarnan hafa laugardagslukkuna með sér, og þess vegna hefur það verið hespað af á laugardegi, en ekki látið bíða til mánudags. Hæstv. forseti hefur haft trú á gamla orðtækinu, laugardagur til lukku og mánudagur til mæðu. Þess vegna verð ég að biðja hann velvirðingar á því, þó að ég tali almennt um málið, enda þótt það sé við þessa umræðu.

Það var 1942, að borið var fram af 6 þm. Sunnlendinga frv. til l. um breyt. á bændaskólum, sem fór fram á, að í staðinn fyrir tvo skóla, sem áður voru fyrir, skyldu skólarnir vera þrír og einn skólinn bundinn við Suðurland. Þetta var ekki flutt ófyrirsynju, því að eins og kunnugt er, þá var aðsóknin að þeim búnaðarskólum, sem fyrir voru, svo mikil, að árlega hefur orðið að neita upptöku fjölda nemenda. Við þessir 6 þm. litum svo á, að það væri nauðsyn og skylda þjóðfélagsins að sjá svo um, að sem flest bændaefni, sem ætluðu sér að stunda landbúnað, ættu kost á slíkri fræðslu. Okkur fannst ekki ósanngjarnt að gera ráð fyrir, að þessi þriðji búnaðarskóli væri á Suðurlandi, þar sem enginn slíkur skóli er þar fyrir, en þar langstærsta og að sumu leyti bezta búnaðárhérað landsins.

En við þessir 6 þm. vorum þess fullvissir, og byggðum þar á gamalli reynslu í okkar skólamálum, að það mundi vera erfiðleikum bundið að byggja einn skóla fyrir þessi 3 til 4 sýslufélög, Skaftafellssýslu, Rangárvallasýslu, Árnessýslu, og auðvitað mundu Vestmannaeyjar vera taldar með. Við vissum, að það mundu verða talsverð vandræði að velja skólastað. Við höfum því miður þá sögu að segja í okkar skólamálum, Sunnlendingar, að það hefur reynzt mjög örðugt fyrir okkur að sameina okkur um slíka hluti. Þetta fer nokkuð að vonum. Það er ákaflega skiljanlegt, að hvert sýslufélag leggur kapp á að fá skólann sem næst sér, ef það verður, sem við vonum, að hann hafi þau áhrif í kringum sig, að þess sé kostur að hafa hann í námunda við sig heldur en ekki. Og vitanlega er okkur kunnugt um, að allar þessar sýslur hafa fullt af jörðum, sem geta fullnægt þeim skilyrðum, sem þarf til skólaseturs. Þess vegna settum við það sérákvæði fyrir þessum væntanlega búnaðarskóla Suðurlands, að ekki skyldu héraðsbúar sjálfir eða þm. þeirra ákveða skólastaðinn, heldur landbúnaðarrh. að fengnum till. búnaðarfélagsstjórnarinnar. Þetta sérákvæði var sett beinlínis með það fyrir augum að losna við þá leiðu togstreitu, sem við vissum, að annars mundi verða um skólastaðinn. Þetta hefur verið gert. Þessum sérákvæðum hefur verið fylgt fram, og það er búið að stofna skólann á Sámsstöðum í Rangárvallasýslu. Það hefur verið fylgt því bráðabirgðaákvæði, sem í l. var, alveg út í æsar, og skólinn hefur verið stofnaður samkvæmt lögum.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, var að vísu komið fram, áður en landbrh. var búinn að ákveða skólastaðinn, það skal viðurkennt, en vitanlega var þá ekki annað að gera en að draga frv. til baka. Ég veit ekki, hvar hæstv. Alþ. er statt, ef það ætlar sér í svona viðkvæmu máli að fara að breyta því eftir geðþótta og hreppapólitík einstakra manna. Ég skil ekki, að það geti í raun og veru verið samboðið virðingu Alþingis. Skólinn hefur verið stofnaður af landbrh., og ég vil enn fremur bæta því við, að núverandi landbrh. hefur lýst því yfir, að ég hygg fyrir fáum dögum, að hann teldi það sjálfur óverjanlegt af Alþ. að breyta þessu máli. Hann taldi það alveg sjálfsagt að standa við það, sem búið var að ákveða, það væri samkvæmt l., og væri mjög varhugavert fyrir Alþ. að fara nú að ganga frá samþykkt, sem það áður hefur gert. Allur undirbúningur þessa máls hefur verið formlegur, eins og tilskilið er. Landbúnaðarráðuneytið sendi stjórn Búnaðarfélags Íslands bréf í okt. 1943 og óskaði, að það benti á, hvar skólastaðurinn skyldi valinn. Stjórn Búnaðarfélags Íslands skipaði 2 menn í n. til þess að gera till. um stað. Og fyrir valinu urðu, skipaðir af allri stjórn Búnaðarfélagsins, þeir Jón á Reynistað og búnaðarmálastjóri, Steingrímur Steinþórsson. Og svo skyldi þriðji maður valinn af stj. Búnaðarsambands Suðurlands, og fyrir því vali varð Guðmundur Þorbjarnarson á Stóra-Hofi, form. sambandsins.

Ég skal fúslega viðurkenna, að þessi n. lagði mikla rækt og alúð við þetta starf, hélt marga fundi og athugaði gögn um fjölda jarða á þessu svæði, ferðaðist um héruðin og leit þar á ýmsar jarðir og möguleika þar fyrir skólasetri. Nefndin kom meðal annars að Skálholti, Kálfholti og Sámsstöðum og víðar. — Eftir alllangan tíma kom svo rækilegt nál., þar sem n. er sammála um ýmsa þá eiginleika, sem þessir staðir eiga að hafa, sem telja má nothæfa sem skólasetur. Nefndin tekur fram í álitsgerð sinni um ýmsa þá kosti, sem jörð verði að hafa til að bera. Til dæmis verði jörðin að vera nokkuð stór, enda eiga tveir af nm. stórar jarðir, þar sem rekinn er stórbúskapur, og þeir geta ekki hugsað sér annað en að hafa stórbúskap. Þó getur Guðmundur á Stóra-Hofi þess í álitsgerð sinni, að það sé ekki endilega nauðsynlegt, að landið sé svo óskaplega stórt, ef það hafi önnur skilyrði landgæða og skólinn sé vel í sveit settur, liggi vel við samgöngum og sem bezt í alfaraleið, svo að sem flestir geti notið þess að koma þar, er þeir eiga leið þar um. Og n. áleit, að einnig væri það athugandi, að staðurinn yrði valinn þar, sem ekki væri mjög mikil frosthætta. Og margt er það fleira, sem n. er sammála um, að þyrfti að athuga. Og eftir alla þessa athugun eru það orðnir tveir staðir eða jarðir, sinn í hvorri sýslu, Árnes- og Rangárvallasýslu, sem n. vill mæla með. Og ég skal fúslega játa, að ég tel, að báðar þær jarðir séu mjög vel fallnar til slíkra hluta, bæði vegna landstærðar og landgæða og margra annarra gæða. Kálfholt liggur sérstaklega vel við öllum samgöngum. Sama má og segja um Skálholt, nema það er nokkuð úr alfaraleið, að minnsta kosti þangað til brúin á Iðu, sem oft er búið að tala um, er komin. Enda töldu nm. Skálholt sérstaklega illa í sveit sett, fyrr en brúin er komin á Iðu. Og nú er svo með brúna á Iðu, að hún er bráðnauðsynleg, en nú var verið í fjvn. fyrir fáum dögum að athuga brtt. frá vegamálastjóra um 56 brýr, sem nauðsynlegt væri að byggja á næstunni, en þar var ekki Iða með, svo að ég get búizt við, að ef hún á að vera hin 57. eða 58. í röðinni, þá dragist það eitthvað, að hún komi.

Ég efast ekki um, að hv. 2. þm. Skagf., Jón á Reynistað, sem hefur verið frsm. í þessu máli, hafi viljað vinna verk sitt af fullri samvizkusemi og án allrar hreppapólitíkur. Ég býst ekki heldur við, að hægt sé að bera atvmrh. og núverandi landbrh. það á brýn, að þeir hafi neina hreppapólitík fyrir augum, því að þeir hafa báðir lýst því yfir, að þeir telji, að aðstaðan sé hin ákjósanlegasta. En ég skil vel sjónarmið hv. 2. þm. Skagf., ég ætla ekki að kalla það hreppapólitík, heldur skagfirzkt sjónarmið. Ég er þess fullviss, að hv. 2. þm. Skagf. og búnaðarmálastjóri hafa skagfirzkt sjónarmið. Þeir voru ekki búnir að gleyma Hólum, þar sem Hólar er staður svipaður og Skálholt, gamalt biskupssetur. Þeim finnst, að endurreisa þurfi Skálholt og hafa þar menntasetur svipað og á Hólum. Og það hefur líka komið fram í þeirra álitsgerð.

Ég hlustaði í hv. Ed. á flm. þessa frv. og heyrði, að hann hélt því mjög eindregið fram, að það ætti að byggja skólann í Skálholti á allt öðrum stað en nm., hv. 2. þm. Skagf. og búnaðarmálastjóri, lögðu til. Þeir lögðu til, að skólinn skyldi reistur á hinum forna skólastað, til þess að endurreisa hann, en nú telja þessir flm. það ekki lengur fært, heldur flytja þeir hann og vilja byggja hann 3 km neðar, í Skálholtstungu við Þorlákshver. Ég skal fúslega játa, að það er mjög fallegt og gott land til ræktunar, eins og flm. tóku fram. En að þar sé fegurra en í Fljótshlíðinni, því ætla ég að mótmæla. Það er rétt, að ef skólinn er byggður niðri við Þorlákshver, þá er hægt að hafa heitt vatn, og ég tel það líka aðalkostinn. sem Skálholt hefur fram yfir hina staðina. En n., sem með þetta mál fór, lagði ekki mikið upp úr hvernum, þótt hún segði að vísu, að það væri gott að hafa heitt vatn og gróðurhús.

Þá, ætla ég að minnast á það, sem þessi þriðji nm., Guðmundur Þorbjarnarson á Stóra-Hofi, taldi mjög æskilegt, að hinn væntanlegi bændaskóli starfaði mjög í samvinnu og námunda við tilraunastöð fyrir austan fjall, t.d. tilraunastöðina á Sámsstöðum, sandgræðsluna í Gunnarsholti og trjáræktarstöðina á Tumastöðum í Fljótshlíð, og ég býst við, að þessar þrjár stöðvar hafi vakað fyrir landbrh., þegar hann valdi Sámsstaði. Ég býst við því, að það hafi ráðið miklu um valið, hvað Sámsstaðir eru vel í sveit settir, og ég held, að það sé ekki hægt að bendla ráðh. við neina hreppapólitík í þessu máli. Enn fremur má geta þess, að Árnesingar hafa ekki allir verið á eitt sáttir í þessu skólamáli, og sést það bezt á því, að sá félagsskapur í sýslunni, sem mjög stór hluti íbúanna stendur á bak við, gaf heila stóra jörð með þeim skilyrðum, að þar yrði reistur bændaskóli. Það var ekki Skálholt, sem þeir óskuðu fyrir skólastað, heldur Laugardælir. Ég veit það ekki, en ég hef heyrt það, að hæstv. forseti hafi verið með í því. Þessir menn, sem með þessum mikla áhuga stóðu þarna saman um Laugardæli, munu hafa talið Skálholt svo illa í sveit sett, að það væri mjög hæpið að velja slíkan stað fyrir bændaskóla.

Hv. 2. þm. Árn. hefur mjög deilt á Sámsstaði fyrir það, hve ljótt þar væri og vont til ræktunar, og auk þess þyrfti að reka þar upp bónda einn eða svo. Hann virðist vera búinn að gleyma, að hæstv. forseti þessara d. býr nú stóru búi í Skálholti, og hann vill reka hann burt með allt sitt. Það er aukaatriði í hans augum. Ég ætla ekki að deila við hv. 2. þm. Árn. um það, hve ljótt sé á Sámsstöðum. Hann er að vísu nokkuð hagmæltur og telur sig því sjálfsagt hafa vit á náttúrufegurð, en ég ætla þó, að þrjú stórskáld séu kannske eins þung á metunum og hann, þó að hann geti sett saman vísu. Allir kunna kvæði Jónasar um Fljótshlíðina, einn fegursta óð íslenzkrar tungu, og allir kannast; við kvæði Bjarna Thorarensens og Þorsteins Erlingssonar. Ég held það nægi að nefna nöfn þessara þriggja stórskálda, sem allir hafa ort um Fljótshlíðina og náttúrufegurðina þar, til að jafnast á við hv. 2. þm. Árn.

Hv. 2. þm. Árn. talaði um jörð, sem héti Kotmúli og ætti að leggjast undir Sámsstaðina, og þótti það lítilfjörlegt nafn og ljótt. Jörðin heitir ekki Kotmúli, heldur Kornmúli. En á þessari jörð bjó eitt sinn einn merkasti maður þessa lands, Sveinn Pálsson læknir, í fjöldamörg ár, og ef hv. þm. þykir það punta upp á staðinn, þá er gott, að hann viti þetta.

Ég vil benda hv. þm. og hv. 2. þm. Skagf. á, af því að þeir virðast telja, að nafn eins og Skálholt hafi svo mikið að segja, að Hólar í Hjaltadal voru hjáleiga frá Hofi í Hjaltadal. Hof er landnámsjörð, en Hólar voru hjáleiga, þangað til Illugi prestur gaf hana fyrir biskupssetur og gerði hana þar með að mesta höfuðbóli Norðurlands. Eins getur farið með fleiri jarðir, þó að þær heiti ýmsum nöfnum, það má gera þær að höfuðbólum, ef þannig er að þeim búið.

Því hefur mjög verið haldið á loft í sambandi við þessa staði, hvað Sámsstaðir væru landlítil jörð. Ég skal fyllilega játa, að hún hefur ekki landstærð á við Skálholt eða Kálfholt, en ég vil leyfa mér að benda á, að hún hefur marga tugi hektara af mýrlendi og móum o.s.frv., sem allir eru mjög góðir til ræktunar. Enn fremur vil ég benda á, að í Rangárvallasýslu er nú fyrirhugað eitthvert mesta landnám, sem nú þekkist hér á landi, með fyrirhleðslu Markarfljóts, og það er von allra, sem til þekkja, að nú eftir lítinn tíma verði unnt með þeim verkfærum og áhöldum, sem í ráði er að fá, hægt að ljúka því verki á mjög skömmum tíma. Þá kemur upp eitthvert stærsta og ég vil segja bezta land, sem völ er á á Íslandi, eftir örfá ár. Þá má hafa þar í Markarfljótsdalnum áveitu og jarðrækt eftir vild á geysistóru landflæmi. Ég held því, að sú mótbára, að Sámsstaðir séu of landlitlir, hafi við engin rök að styðjast, enda er það svo, að mjög er álitamál meðal manna hér á landi, sem bezt þekkja til búskapar, að allt sé undir því komið, að jörðin, sem búið er á, sé sem stærst. Ég held, að nú séu flestir komnir á þá skoðun, að það sé öllu heppilegra, að landið sé vel ræktað en að það sé sem stærst. Nm., sem völdu Skálholt og Kálfholt, lögðu mikið upp úr að hafa mörg hundruð eða þúsund fjár, mikið hrossastóð og fjölda kúa. Ég held, að sá búskapur, sem þannig er rekinn, eigi litla framtíð hér á landi, a.m.k. á Suðurlandi. Ég býst við, að þar muni búskapurinn mjög færast í þá átt, að bændur hafi frekar nautgriparækt á vel ræktuðu landi, en ekki sauðahjarðir eða hrossahópa til að leika sér um hagana, og þó að gaman sé að því, þá held ég, að sá búskapur detti brátt úr, sögunni. Ég skil vel, að þessum tveimur stórbændum, Guðmundi á Stóra-Hofi og Jóni á Reynistað, sem hafa báðir mjög stór bú, hafi fundizt glæsilegt að hafa svona stórbú, en ég efast um, að það sé það framtíðarmarkmið, sem keppa beri að í þessu landi.

Þá er enn eitt ótalið, sem ég tel höfuðkost við Sámsstaði, sem hinir staðirnir hafa ekki, en hann er sá, að þarna er nú tilraunastöð landbúnaðarins undir forustu Klemenzar Kristjánssonar, sem er brautryðjandi að ýmsu leyti í tilraunastarfsemi við landbúnað, svo sem í kornrækt, grasfrærækt og öðru slíku, og ég tel það mjög mikils vert fyrir þá, sem verða nemendur þessa skóla, að þeir kynnist slíkri tilraunastarfsemi.

Ég sé, að d. er orðin fáskipuð og fundaxtími mun vera á enda, en ég á nokkuð eftir af máli mínu enn. (Forseti: Ef hv. þm. vill skipta ræðu sinni, þá er það velkomið:) Ég vil það gjarnan. [Fundarhlé.]

Ég skal ekki lengja umr. mikið frá því, sem orðið er.

Áðan, þegar ég hætti, var ég búinn að skýra frá starfi n., sem kosin var til að ákvarða um val skólastaðarins. Ég var búinn að skýra frá því, hvernig n. klofnaði. Skagfirzka sjónarmiðið hugsaði heim til Hóla, vildi fara eins að með skólastaðinn á Suðurlandi og gera hann að slíku höfuðbóli sem Hólar eru nú. Að vísu hefur það orðið nokkuð öðruvísi en meiri hl. n. hugsaði sér, því að nú hafa umr. snúizt, að ég hygg, aðallega um, að nú eigi ekki að reisa skólann heima í Skálholti, heldur 3 km neðar, við Þorlákshver, það langt frá Skálholti, að ekki sést frá bænum. Um endurreisn staðarins er því ekki að ræða í því sambandi, sem n. hugsaði sér með vali Skálholts.

Sömu sögu er að segja, þegar n. skilaði áliti sínu til stj. búnaðarfélagsins, því að hún gat ekki heldur orðið sammála um staðarvalið. Einn var þar með Skálholti, annar með Kálfholti og þriðji mitt á milli. Þannig stóð þá málið, þegar þáverandi landbrh. tók það í sínar hendur á löglegan hátt, eins og tilskilið er í l. frá 1942. Þá stóðu sakir þannig, að Árnessýsla klofnaði um Skálholt og Laugardæli, Rangæingar flestir með Kálfholti. Landbrh. ferðaðist austur um sýslur og athugaði báða staðina, sem nefndir höfðu verið, og enn fremur fleiri staði. Ég skal ekki um það dæma, hvað fyrir hæstv. ráðh. vakti, þegar hann valdi Sámsstaði, en álít þó, að ég geti fært fram nokkrar líkur fyrir því, hvers vegna hann valdi hann, úr því sem komið var. Þegar sýnt var, að hvorki n., sem átti að benda á staðinn, né stjórn Búnaðarfélags Íslands, sem átti að hafa úrslitavald um ábendingu staðarins, gat orðið sammála, Árnesingar klofnir um tvo staði, Laugardæli og Skálholt, en Rangæingar flestir með Kálfholti, þá skeði það, að hæstv. ráðh. tekur hvorugan þessara staða, heldur velur Sámsstaði í Fljótshlíð. Ég skal ekki segja, hvað fyrir hæstv. ráðh. hefur vakað, þegar hann valdi þennan stað, en ég get gert mér hugmynd um ýmsar ástæður, sem hafi valdið því, að þessi staður varð fyrir valinu.

Eins og ég gat um í ræðu minni áðan, lagði n. ríka áherzlu á, að staðurinn væri vel í sveit settur. Ég held, að Sámsstaðir uppfylli vel það skilyrði, um það er ekki að deila, þar sem hann liggur 4 km frá aðalþjóðveginum austur um sýslur og í miðri Rangárvallasýslu.

Annað skilyrðið, sem n. setti og gaf um það sameiginlegt álit, var það, að skólastaðurinn hefði nægilega fjölbreytilegt land til ræktunar. Þetta uppfylla Sámsstaðir mjög vel, eftir að búið er að tryggja þær jarðir, sem verða lagðar undir staðinn. Og eins og ég gat um áður, þá má vænta þess á næstu árum, þegar lokið er þeim fyrirhleðslum, sem nú er unnið að, að þá komi þar geysimikið landflæmi, sem má nota hvort sem vill til áveitu eða túnræktar.

Ég hygg þó, að það, sem kannske hefur ráðið mestu um, að hæstv, ráðh. valdi Sámsstaði, sé sú starfsemi, sem þar er, og sá maður, sem veitir henni forstöðu. Ég býst við, að allir, sem kunnugir eru tilraunastöðinni á Sámsstöðum og þekkja til þess starfs, sem þar er unnið, telji ekki lítils virði fyrir hin ungu tilvonandi bændaefni, sem þennan skóla vilja sækja, að þeir kynnist til hlítar því starfi, sem þar er unnið í kornyrkju, grasrækt, kartöflurækt o.fl., og að það sé ekki einskis virði að njóta þar kennslu jafnágæts manns og Klemenzar Kristjánssonar á Sámsstöðum. Að vísu dró hv. flm. frv. í Ed. það í efa, að tilraunastjórinn á Sámsstöðum væri fær um að kenna mönnum búskap. Ég fullyrði, að þegar litið er á hans bóklegu menntun og miklu reynslu, þá muni hann fyllilega standa á sporði ýmsum, sem nýbúnir eru að ljúka námi erlendis. Ég er í engum vafa um, að ef ég ætlaði að læra landbúnað í skóla hjá Klemenz Kristjánssyni, þá mundi ég vænta mér meiri árangurs af því en að stunda nám hjá einhverjum nýútskrifuðum búfræðikandídat, þó að hann hefði góða bóklega menntun.

Ég býst líka við, að það hafi ráðið nokkru um val hæstv. ráðh., að í námunda við Sámsstaði er bæði hin nýstofnaða skógræktarstöð á Tumastöðum í Fljótshlíð og sandgræðslustöðin í Gunnarsholti, og eitt af því, sem öll n. sameiginlega lagði ríka áherzlu á, var það, að nemendur bændaskólans ættu greiðan aðgang að námi í skógrækt og sandgræðslu, og tel ég það sjálfsagt og eðlilegt, því að eins og kunnugt er, þá er mikill áhugi meðal allra landsmanna fyrir aukinni skógrækt og sandgræðslu. Er því mjög mikils virði að hafa höfuðstöðvar þessara tveggja þátta okkar nýja landnáms í grennd við bændaskólann.

Þá býst ég við, að það hafi einnig ráðið nokkru um val hæstv. ráðh. á skólastaðnum, að á Sámsstöðum var miklu ódýrara að reisa bændaskóla. Það kann nú að þykja óþarfi að minnast á slíka smámuni á þessum tímum, en ég býst þó við, að það sé ekki einskis virði, að það er miklum mun ódýrara að byrja að koma upp skóla á Sámsstöðum en í Skálholti, ég tala nú ekki um þann stað, þar sem nú er gert ráð fyrir að reisa hann, niðri við Þorlákshver, því að til þess að hægt sé að hefja undirbúning að skólabyggingu á þeim stað, þarf að leggja þangað dýran veg, áður en hægt er að koma nokkrum sementspoka eða spýtu á þann stað. Ég hef farið þar um að sumri til í norðanþurrki og var vel skóaður, og þess vegna komst ég þurrt,- en það verður að leggja þangað dýran veg, áður en hægt er að koma þangað nokkru byggingarefni, eins og ég gat um áðan. Þar að auki er þessi staður, Skálholt, út úr, hann er afskekktur frá aðalundirlendi Suðurlands, meðan brúin er ekki komin á Iðu, eins og n. tók fram, en hún bjóst við, að brúin mundi koma, og vonandi kemur hún, en vafalaust dregst það nokkuð enn, þar sem vegamálastjóri telur, að 56 brýr eigi að koma á undan brúnni á Iðu, og því má búast við, að það dragist enn í nokkur ár, að brúin komi, þó að það sé mikil nauðsyn.

Það hefur verið minnzt á það af hv. flm. þessa frv. í Ed., að það hafi verið notaður mikill áróður í þessu máli. Hver hefur notað áróður? Það er fyrst og fremst hann og í öðru lagi sýslunefnd Árnessýslu. Hún gerði þá kröfu s.l. vor, að skólinn yrði reistur í Árnessýslu. Hún gerði um það fundarsamþykkt, þar sem hún krafðist þess af hæstv. ráðh., að í Árnessýslu yrði skólinn að vera, hvergi annars staðar. Þetta kalla ég leiðinlegan og óvenjulegan áróður í máli, sem búið var að vísa frá og leggja í hendur óhlutdrægs aðila. En þetta er ekkert nýtt hjá Árnesingum. Ég skal ekki fara að rekja þá sögu hér, hvernig framkoma þeirra hefur verið í skólamálum Sunnlendinga, við getum sagt í skóla- og vegamálum, svo að hv. 2. þm. Árn. heyri það líka. Ég skal ekki fara inn á það mál nú, en það getur verið, að ástæða verði til þess síðar. Ég vil spyrja hv. þm., hvernig þeir haldi, að það verki á samvinnu heima í héraði, sem er nauðsynlegt, að sé góð, og hún hefur verið góð austanfjalls, þar sem menn eiga svo margt sameiginlegt og þurfa að vinna sameiginlega að svo mörgum málum, — ég vil spyrja þá, hvernig þeir haldi, að það verki, þegar svona er unnið eins og hér hefur verið gert. Ég vil biðja menn að setja sig í spor Rangæinga. Það er búið að ákveða skólann á löglegan hátt og í öllu farið eftir fyrirmælum Alþingis. En strax um leið og þetta er gert, er risið upp hér á Alþingi af þm. Árn. til þess að reyna að eyðileggja þetta fyrir Rangæingum. Þetta er viðkvæmt mál og ekki óeðlilegt, að Rangæingar taki það illa upp, þegar svo er líka ástatt í skólamálum héraðsins, að Rangæingar hafa engan skóla, en Árnesingar fimm eða sex, því að þar eru nú starfandi a.m.k. fimm skólar fyrir utan barnaskólana, en enginn í Rangárvallasýslu. Þar er hinn stóri héraðsskóli á Laugarvatni, tveir húsmæðraskólar, garðyrkjuskóli og íþróttaskóli, en samt finnst þeim þeir ekki hafa fengið nóg. Þeir vilja á óþinglegan og óvenjulegan hátt svipta Rangæinga þeim eina skóla, sem þeir eru nú að fá með löglegu móti. Ég veit, að Árnesingar eru fjölmennari og vilja ef til vill kalla sig þess vegna rétthærri, en þó efast ég um, að þannig sé rétt að líta á hlutina, nema þá hjá þeim, sem alltaf álíta, að hnefarétturinn eigi að gilda.

En þrátt fyrir allt gæti ég að vissu leyti fellt mig víð það, sem hér er verið að gera, ef raunverulega væri verið að vinna að því, að bændaskóli komi í Skálholti. En hér er ekki því til að dreifa, heldur er verið að vinna að því, að enginn skóli verði reistur. Það er markmið ýmissa þeirra manna, sem fylgja þessu máli. Þeir sjá fram á það, að með þessum glundroða, með þessum lögleysum og ofbeldi, sem hér er haft í frammi, þá muni verða bið á, að skólinn komist upp í Skálholti eða nokkurs staðar á Suðurlandi, og það sárnar mér einna mest, þó að ég játi,það, að mér finnst heldur langt gengið af þm. Árnesinga að hamra það í gegn þvert ofan í það, sem búið er að gera. Ég er sannfærður um, að það tekur allmörg ár, þó að farið verði að vinna að því að undirbúa skólastað í Skálholti, eins og allt er í pottinn búið, þar sem verður að byrja á að leggja veg að skólastaðnum alllanga leið, áður en hægt er að flytja þangað nokkurn skapaðan hlut, og helzt að brúa stórvatn, ef skólastaðurinn á að vera tiltækilegur. Ég gæti trúað, að horfa þyrfti á það í nokkur ár af hæstv. ríkisstj. og öðrum, sem um þetta mál eiga að fjalla, og þó að nú sé að vissu leyti ekki horft í skildinginn, þá getur það samt verið álitamál, þegar búið er að ákveða skólann á öðrum stað, þar sem kostar miklu minna að koma honum upp og hann getur starfað með eins góðum árangri og í Skálholti. Ég býst við, að þetta allt komi til álita, þegar á að hefja framkvæmdir í þessu máli.

Mér er kunnugt um, að ýmsir, sem fylgja þessu frv., gera það af því, að þeir vilja ekki fleiri skóla og þeir vita, að framgangur þessa máls er sama og frestun á því, og það er það, sem nú er verið að gera. Ég get í sjálfu sér unnað 2. þm. Árn. þess að vera til að vinna bændaskólamálinu ógagn, en mér sárnar það vegna íbúa þessa héraðs, sem lengi hafa vonazt eftir þessum skóla og hafa fyrir hann mikla þörf, að þetta mál skuli nú koma til að eyðileggja þetta mál um ófyrirsjáanlegan tíma.