16.12.1944
Neðri deild: 94. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1103 í B-deild Alþingistíðinda. (2041)

134. mál, bændaskóli

Ingólfur Jónsson:

Herra forseti. Ég skal ekki halda langa ræðu við þessa 3. og síðustu umr.

Ég hafði búizt við, að 2. umr. yrði lengri, en ástæðan til þess, að hún varð svo stutt, var sú, að þá fékkst enginn hv. þm. í þessari d. til að tala með frv., sem átti þó yfirgnæfandi fylgi í deildinni. Hvers vegna það var, skal ég ekki segja um, en ég hygg þó, að flestir hv. þm. hafi, þó að þeir fylgdu frv., fundið, að hér var mál á ferðinni, sem bezt væri að ræða sem minnst, og þeir óskuðu eftir, að sem minnst bæri á, að þeir fylgdu því. Það er líka kunnugt, að þetta mál er alveg sérstakt. Með því að samþ. þetta frv. hefur verið stigið nýtt spor, skapað nýtt og áður óþekkt fordæmi á Alþingi. Þeir, sem fylgja fastast þessu frv. og hafa fylgt því fastast frá því fyrsta, vissu fyrir fram, að málið átti öruggt meirihlutafylgi í báðum d., en kærðu sig ekki um að færa fram rök fyrir því, hvers vegna málið væri flutt, vegna þess að rökin hefðu orðið dálítið skrýtin fyrir frv., og álitu því fara bezt á því, að þau sæjust ekki í Alþt.

Þetta er 3. og síðasta umr. þessa máls, sem nú fer hér fram. Eftir atkvgr. við fyrri umr. verður frv. sennilega afgr. sem l. frá þessu þingi. Það er mín skoðun, að þessi lagasetning verði í minnum höfð í þingsögunni, og ég er sannfærður um, að margir af þeim hv. þm., sem nú fylgja frv. og koma til með að eiga lengi enn sæti á Alþingi, eiga eftir að bæta fyrir þau afglöp, sem þeir eru nú að drýgja með því að fylgja þessu frv. Enginn í þessari d. fékkst til að mæla með frv. nema hv. frsm., 2. þm. Skagf. Af því að ég veit, að þessi hv. þm. var sannfærður um, að hann væri að gera rétt, þegar hann talaði fyrir frv., ætla ég ekki að áfellast hann. En sannfæring hans byggist á því, að hann leit á þetta mál frá sjónarmiði manns, sem leit meira aftur í tímann en fram á við, frá sjónarmiði stórbóndans, sem rekur stórbú norður í Skagafirði, en gerir sér ekki grein fyrir því, að í nútíð og framtíð verður búskapur, a.m.k. á Suðurlandi, ekki rekinn í þeim stíl. Þó er beinlínis svo ákveðið í l. um bændaskóla á Suðurlandi, að hann skuli rekinn í því formi að kenna bændaefnum sem bezt þá búskaparháttu, sem eiga við á Suðurlandsundirlendinu.

Það var slæmt, að þeir menn, sem valdir voru til þess að velja bændaskóla Suðurlands stað, skyldu ekki hafa þá víðsýni, sem nauðsynleg var til að skapa skólanum þau skilyrði, að staðurinn, sem væri valinn, fullnægði fljótt og vel þeim skilyrðum, sem sett voru í löggjöfinni um bændaskólann.

Ég býst við, að við þessa umr. verði sami háttur viðhafður og áður af hálfu þeirra, sem fylgja frv., að þegja, segja ekki eitt einasta orð um þetta mál. Það er dálítið einkennilegt, að það skuli enginn hv. þm. í d. fást til þess að færa fram varnir eða ástæður fyrir því, hvers vegna þykir sjálfsagt að samþ. þetta frv., þó að það skapi nýtt og kannske hættulegt fordæmi. Hv. frsm. n. hélt stutta ræðu, og vegna þess að hann hefur alveg sérstöðu í málinu og vegna þess að hann horfir aftur fyrir sig og lítur á málið í því ljósi, þá býst ég ekki við, að hann taki til máls hér aftur frekar en aðrir, sem fylgja þessu máli. Framtíðin mun sanna það, að við, sem erum á móti þessari lagasetningu, við, sem viljum hafa skólann þar, sem hann hefur verið ákveðinn réttilega af fyrrv. ráðh., við höfum á réttu að standa.

Ég ætla ekki að fullyrða mikið hér í dag, allra sízt meira en það, sem ég get staðið við, en ég vil þó láta þess getið, að við, sem teljum Sámsstaði í Fljótshlíð gott skólasetur, munum ekki láta hér staðar numið, heldur munum við berjast fyrir, að þar verði samt sem áður byggður bændaskóli, sem geti orðið til gagns og hagsbóta fyrir bændastétt landsins. Það er óhætt að slá því föstu, að það verða tiltölulega mörg ár, þar til bændaskóli tekur til starfa í Skálholti. Það má vera, að einhverjir hv. þm. fylgi frv. þess vegna, vegna þess að þeir sjá, að með því að lögleiða skólann í Skálholti, munu líða nokkuð mörg ár, þar til farið verður að veita fé úr ríkissjóði til þessarar starfsemi. Ef slík sjónarmið eru ráðandi á Alþingi, þá eru þau hættuleg og skaðleg. Það er þess vegna, sem það er nauðsynlegt, að við, sem viljum, að bændaskóli rísi upp á Suðurlandi til hagsbóta fyrir bændastéttina, höldum baráttunni áfram og reynum að koma því í framkvæmd, að bændaskóli rísi upp samt sem áður á Sámsstöðum, bændaskóli, sem starfar með það fyrir augum, sem ákveðið er í l. um bændaskóla Suðurlands.

Ég skal ekki að svo stöddu hafa þessa ræðu miklu lengri. Ég býst við, að fylgjendur Skálholts og fylgjendur frv. hafi við þessa umr. sama háttinn og áður, að þegja, segja ekki neitt, færa engin rök fyrir því, hvers vegna þeir fylgja málinu, vegna þess að þau rök, sem þeir hafa fram að bera, þykja ekki frambærileg og ekki heldur þess eðlis, að rétt sé að láta þau sjást á prenti í þingtíðindunum, og ég býst við, að þetta sé rétt athugað hjá þeim. Ég hygg, að það sé rétt athugað, að það sé heppilegt fyrir þá í framtíðinni, þegar tíminn hefur leitt í ljós, að þeir hafa haft háskalega rangt fyrir sér, að hafa þagað alveg.

Mér er með öllu óskiljanlegt, hvers vegna svo mikill meiri hluti Alþingis hefur léð þessu máli fylgi. Ég get ekki trúað því, að það sjónarmið sé ráðandi hjá meiri hl. Alþingis, sem einn hv. þm. tilfærði við mig fyrir nokkru. Hann sagði: Ég held, að það sé mátulegt á þennan fyrrverandi landbúnaðarráðherra, þó að það sé gert ónýtt eitt af því, sem hann hefur unnið. Ég veit, að það er ekki þetta sjónarmið, sem ræður hjá meiri hl., það getur ekki verið, að svo óheilbrigður hugsunarháttur þróist hjá meiri hl. þm. Ég hygg miklu frekar, að meiri hl. hafi látið blekkjast, vaði í villu og að sjónarmið eins hv. þm., sem ég talaði við um þetta mál, sem lýsti yfir, að hann hefði enga skoðun á málinu, sé miklu frekar fyrir hendi og meiri hl. þm. hafi látið undan síga vegna mikils og ófyrirleitins áróðurs hér innan veggja þingsins. Það er ekki heldur meðmæli með meiri hl. Alþingis, að hann sé þannig, að hann myndi sér ekki ákveðna skoðun um mikilsverð mál, heldur láti undan síga, ef einhverjir menn halda uppi ósvífnum og stífum áróðri í einhverju máli. Vissulega er slíkt veikleikamerki. Vissulega er það veikleikamerki, og hér má segja, að þeir þm., sem láta stjórnast af slíku, hafi brugðizt þingmannsskyldu sinni. (Félags- og dómsmrh.: Hvers konar svigurmæli eru þetta hjá þm?) Hæstv. ráðh. talar um, að ég sé með svigurmæli. Ég held, að það sé bezt fyrir hæstv. ráðh. að vera ekkert að grípa fram í ræðu mína, því að það, sem ég hér hef sagt, mun ég geta staðið við.

Ég sagði áðan, að framtíðin mundi leiða í ljós, að við, sem viljum hafa skólann á Sámsstöðum, við höfum rétt fyrir okkur, enda hefur enginn hv. þm. vogað sér að tala um, að Sámsstaðir væru ekki góður staður fyrir skólann. Það hefur enginn hv. þm. vogað sér að koma með rök fyrir því í þinginu, vegna þess að það er ekki hægt. Sámsstaðir eru vel valinn skólastaður. Sámsstaðir hafa alla þá kosti til að bera, sem slíkur staður þarf að hafa, og hann hefur svo marga kosti fram yfir aðra staði til að bera sem skólastaður fyrir bændaskóla, eins og ég tók fram við 2. umr. þessa máls og tel því óþarft að endurtaka nú, að það er hreint og beint vítavert af Alþingi að hrinda því, sem búið var að ákveða, þar sem líka með því er skapað fordæmi, sem getur verið hættulegt og vafasamt, þar sem það um leið er aðferð, sem er óeðlileg og óviðeigandi, eins og hæstv. fjmrh. sagði í ræðu í Ed.

Ég skal þá að sinni ekki hafa þessi orð mín fleiri, þar sem ég býst við, að fylgjendur þessa máls muni ekki tala í málinu frekar en áður, en ef svo skyldi fara, að einhver þeirra stæði hér upp til að færa eitthvað fram skoðun sinni til afsökunar í málinu, færa einhver rök fyrir því, hvers vegna þeir vilja hrinda því, sem gert hefur verið í skólamálinu á löglegan hátt, þá má vel vera, að ástæða sé fyrir mig að biðja aftur um orðið og rökræða við þá hv. þm. En ég á ekki von á því. Ég á ekki von á öðru en þögninni hjá þessum hv. þm.