20.11.1944
Neðri deild: 77. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1115 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

130. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Sigurður Guðnason:

N. var öll sammála um, að það væri mjög gott, að þetta frv. kæmist í framkvæmd. En ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, einungis vegna þess að mér finnst, að það, sem vanti, sé, að skipulagðar verði framkvæmdir með það fyrir augum, að peningunum sé fyrst og fremst varið til ræktunar, þar sem flestum mönnum væri sköpuð bezt lífsskilyrði.

Það er enginn vafi, að það fé, sem lagt er til bóta fyrir fólk, hvort sem það er til sjávar eða sveita, þá er sjálfsagt að miða við, að jafnmikil fjárhæð gefi sem bezt lífsskilyrði fyrir stærri hópa á einum stað en öðrum.

Viðvíkjandi því, sem hv. frsm. sagði, að við vildum flytja fólkið af landi burt, þá er það alger misskilningur. Við höfum einmitt trú á því, að landið sé svo gott, ef farið er rétt með þá peninga, sem lagðir eru til landbúnaðarins, að fólkið þurfi þá ekki að flytja burt. En það verður þá að vera skipulag á því.

Ég man ekki, hvað mörg frv. liggja fyrir á þessu þingi, sem snerta landbúnaðinn. Þar ægir öllu saman. Það er ekki nóg að fá fé til aðgerða, ef það er ekki fyrir fram skipulagt, hvernig því skuli varið með alþjóðarhag fyrir augum.

Viðvíkjandi því að taka þessa till. aftur, þá get ég samþ. það, svo að nefndin fái að athuga málið. En það verður að vera undirstaðan í brtt., að skipulagt sé með það fyrir augum, að peningarnir séu lagðir fyrst og fremst til jarðræktar, þar sem þeir koma flestum að sem beztum notum, en láta hin svæðin verða út undan og kylfu ráða kasti um það, hvort fólk flytur þaðan eða ekki.