20.11.1944
Neðri deild: 77. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1116 í B-deild Alþingistíðinda. (2060)

130. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Frsm. (Jón Sigurðsson):

Ég get ekki fundið annað í ræðu hv. 11. landsk. en að hann telji einkum landfræðilegar orsakir valda hinum mikla fólksstraumi úr sveitunum. Fæ ég þá ekki betur séð en ég hafi ályktað alveg rétt út frá því sjónarmiði, hvað snertir Austur-Skaftafellssýslu, því að landfræðilega séð er Austur-Skaftafellssýsla þannig sett, að fáar sýslur standa verr að vígi en hún með samgöngur og fleira.

Hv. þm. sagði, að öll þróun stefndi í þá átt að færa byggðina saman og var í því sambandi að minnast á vegi og rafmagn. Ég vil benda á, að rafmagn kemur til greina að fá víðar að en frá fossunum. Það er svo hamingjunni fyrir að þakka, að rafmagn er á mörgum bæjum, sem ekki eiga kost á fossafli. Og tæknin er sem óðast að færast í það horf, að miklar vonir standa til þess, að margur maðurinn geti í framtíðinni fengið rafmagn frá olíumótorum, sem ekki átti þess nokkurn kost fyrir nokkrum árum. Svo að ekki er nokkur ástæða til að einblína á byggðahverfi þess vegna.

Viðvíkjandi heyþurrkuninni, þá hefur fyllilega komið til athugunar, ef gerðar verða víða tilraunir, að þær verði einnig gerðar á bæjum, sem hafa eingöngu rafmagn frá mótorvél. Og ég býst við, að þær yrðu æðimargar byggðirnar, sem leggja verður í eyði, ef miða ætti við það, að rafmagn kæmist þangað í náinni framtíð.

Ekki ber því að neita, að þróunin hnígur í þá átt, að fólkið fjarlægist sveitirnar og flytur til Reykjavíkur. En hverju er þetta að kenna? Það er ekki hvað sízt því að kenna, að hér hefur öllu verið safnað saman. Hingað hefur verið hrúgað öllum opinberum stofnunum. Öllu, sem þjóðin hefur átt og getað tínt saman, hefur verið safnað hingað. Þetta hefur átt stóran þátt í að auka aðstreymið, auk þess sem landbúnaðurinn á margfalt örðugra með en kaupstaðirnir að taka upp nýjar aðferðir, svipuðum þeim gagngerðu breytingum, sem hann þarf að taka.

Ég þekki víða til á mörgum dalajörðum og útnesjum, þar sem ágæt ræktunarskilyrði eru, engu síðri en þar, sem rækta á í kringum kaupstaði og sjávarþorp, meira að segja ekki síðri en hér austan fjalls. En það, sem vantar fyrst og fremst, er vegir og aftur vegir.