27.11.1944
Neðri deild: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (2064)

130. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Frsm. (Jón Sigurðsson):

N. á hér brtt., sem ég hygg, að verið sé að útbýta nú og ég vildi ræða. Eins og hv. þm. muna, varð samkomulag um það við 2. umr., að þær brtt., sem þá lágu fyrir, yrðu teknar aftur til 3. umr., svo að n. gæti athugað þær og séð, hvort ekki væri hægt að ná samkomulagi, en það hefur ekki orðið. En í tilefni af þessu flytur n. brtt., sem er á þá leið, að engin af þeim umræddu brtt. verði teknar upp, en í stað þess verði vísað til ákvæða í 6. kafla jarðræktarlaganna. Til þess að menn geti glöggvað sig á því, hvað hér er um að ræða, skal ég leyfa mér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta, 2. og 3. gr., sem skýrir þetta, því að eins og hv. dm. er kunnugt, hníga brtt. að því, að gerð verði sérstök rannsókn, sem ætlazt er til, að Búnaðarfélag Íslands annist. Í 6. kafla jarðræktarl. eru þessi ákvæði, sem meiri hl. n. hefur vísað til og eru á þessa leið.

(39. gr.) „Búnaðarfélag Íslands skal fela trúnaðarmönnum sínum að athuga og gefa skýrslur um þær jarðir, sem þeir telja, að séu í hættu fyrir jarðspjöllum, svo sem sandfoki, skriðufalli, jökulhlaupi eða landbroti o.s.frv.

Enn fremur skulu þeir gefa skýrslur um þær jarðir, sem liggja mjög illa víð samgöngum eða eru sérlega óhægar til búrekstrar.“

(40. gr.) „Nú þykir Búnaðarfélagi Íslands skýrslur trúnaðarmanna bera það með sér, að jarðir séu sérstaklega athugunarverðar sem framtíðarbýli, og skal það þá fela einhverjum starfsmanni sínum, ásamt trúnaðarmanni hlutaðeigandi búnaðarsambands og formanni búnaðarfélags hlutaðeigandi hrepps, að rannsaka ýtarlega ásigkomulag umræddra jarða og allt það, er þeir telja að máli skipti, eftir nánari fyrirmælum Búnaðarfélags Íslands.

Skýrslur nefndarinnar skal senda hlutaðeigandi hreppsnefnd til umsagnar.“

(41. gr.) „Telji Búnaðarfélag Íslands, að loknum þessum rannsóknum og að fengnu áliti hlutaðeigandi hreppsnefndar, að jörð eða býli geti ekki talizt byggileg til frambúðar, skal það leggja málið fyrir landbúnaðarráðherra, sem ákveður, hvort veita skuli framvegis styrk samkvæmt II. kafla laga þessara til umbóta á jörðinni.“

Þarna eru tekin upp ákvæði um þetta, og n. sá því enga ástæðu til að ganga lengra í þessu og lætur sér nægja að vísa til þessara ákvæða. Hér er líka ein gr. til viðbótar, sem ég skal einnig lesa upp til frekari skýringar. Hún hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

(42. gr.) „Þegar ábúandi þeirrar jarðar, sem svipt hefur verið jarðabótastyrk (sbr. 41. gr.), flytur burt á aðra jörð eða stofnar nýbýli og jörðin leggst í eyði, skal greiða honum úr ríkissjóði helming þess verðmunar, sem reynist á söluverði og fasteignamatsverði húsa þeirra, er hann átti á jörðinni. Vilji hann reisa nýbýli, skal enn fremur gefa honum kost á nægilegu landi, er byggt verði samkv. lögum nr. 8 1. febrúar 1936, um erfðaábúð og óðalsrétt, en landið skal hann hafa afgjaldslaust til lífstíðar.“

Þarna er gengið frá þessu svo ýtarlega sem talizt getur þörf á, og sér því meiri hl. n. ekki ástæðu til að fara lengra í þessum efnum og leggur þess vegna til, að frv. verði samþ. með þessum breytingum.