27.11.1944
Neðri deild: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1126 í B-deild Alþingistíðinda. (2067)

130. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Ásmundur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég þarf að víkja fáeinum orðum að þessari löngu ræðu hv. þm. a.-Sk. Hann virðist hafa notað vel tímann til undirbúnings, síðan ég talaði síðast um þetta efni, til þess að svara. Hann nefndi þrjár till., sem lögfestar hefðu verið hér á hæstv. Alþ., sem hann telur, að gengið hafi nákvæmlega í sömu átt og þessar brtt., sem liggja hér fyrir á þskj. 494. Ég vil benda á, að þessar brtt. stangast ekkert við þetta frv., vegna þess að bein ákvæði eru í frv. um það, að ekkert býli eða byggðarlag falla utan við ramma þessara laga, ef samþ. verður frv. óbreytt. Hér stendur í 4. gr. frv., að framkvæmdum skuli hagað þannig, að þeir, er minnst véltækt land hafa, skuli sitja fyrir vinnu, eftir því sem við verður komið. Ég segi það hiklaust, að ef ákveðið er fyrir fram í l., að það eigi að rannsaka jarðir á landinu og fella úr byggð einhvern part af þeim, þá stangast það á við það, sem hér stendur í 4. gr. frv. og ég tók fram. Og er þá ekki rétt að draga þetta saman í eina gr. og bæta því í þetta frv., til þess að forða því, að þetta komi beinlínis í bága við gildandi l.? Nei, það er ljóst, að þau ákvæði, sem fyrir hafa verið í l. um þetta, hafa ekki verið fullnægjandi. Og það virðist beinlínis ekki vera tilætlunin með þessu frv., að þau séu framkvæmd að nokkru leyti.

Þá, minntist hv. þm. a.-Sk. á það, að hann taldi, að ef gengið væri inn á þá braut að útiloka nokkrar jarðir frá þátttöku í ræktunarsamþykktum, mundu bændur búa á þeim samt sem áður, en væru útilokaðir frá því að njóta stuðnings þess félagsskapar, sem þær samþykktir væru um. En nú skulum við segja, að bændur á einhverju ákveðnu svæði geri slíka samþykkt og það komi í ljós, að mörg býli þar væru illa sett með vegi, að enginn vegur væri að koma heim til þeirra stórvirkum jarðyrkjuvélum, t.d. skurðgröfum, sem eru og munu verða einhver beztu tæki við jarðrækt í framtíðinni, hvernig ætti þá að fara að? Bændur á slíkum býlum geta verið í mikilli þörf fyrir, að hjá þeim aukist ræktað land. Við skulum setja svo, að á einhverju svæði, þar sem slík samþ. hefði verið gerð, væru 50 býli alls, en 5 þannig, að ekki væri hægt að koma þangað heim stórum jarðyrkjuvélum vegna vegarleysis, en í mörgum tilfellum mundu þau vera fleiri. Eiga þá hin 45 býlin að gjalda þess, þannig að vegna þessara fáu býla væri hægt að hindra, að ræktunarsamþykkt yrði gerð fyrir svæðið í heild? Þetta hygg ég, að hv. þm. a.-Sk. hafi sézt yfir líka.

Þá vildi sami hv. þm. segja, að ég hefði farið með blekkingar við 2. umr. þessa máls um sveitir Austur-Skaftafellssýslu, þar sem Búnaðarfélag Íslands dæmdi land, sem bændur höfðu hugsað sér að rækta, óhæft til ræktunar. Hann sagði meira að segja, í hverju það væri fólgið, að landið væri óhæft til ræktunar, að sandlag væri þar í jörð, þar sem lokræsi hefði átt að leggja. Svo sagði hv. þm., að sér væri ekki kunnugt um, að neitt væri að athuga við gróðurfar landsins. Það skiptir heldur ekki máli. Þarna er um að ræða mýrlendi, sem þarf að ræsa, og ef ekki er hægt að ræsa það, er það óhæft til ræktunar.

En hvort túnið á Kálfafellsstað geti orðið fyrir skriðuhlaupum, þá sjá það allir, sem þar fara fram hjá, að svo er.

Þá minntist hv. þm. a.-Sk. á húsagerðarsamþykktir og talaði um það, að ákvæði brtt. hindruðu líka bændur á afskekktum býlum að fá bætt húsakynni hjá sér. Meiningin fyrir mér er einmitt sú, að þetta hindri bændur á afskekktum jörðum í því að byggja býli sín. Það er ætlazt til þess, að þeim séu sköpuð skilyrði til þess að byggja betri býli á öðrum stöðum.

Að síðustu minntist hv. þm. a.-Sk. á rafmagnsmál og taldi, að óheppilegt væri að setja ákvæði um þau hér í þetta frv. Hann talaði um, að í sambandi við þau mundu gerast þær uppgötvanir í vísindum, sem gerðu það að verkum, að það mundi ekki þurfa að leiða rafmagn um sveitirnar eins og annars mundi þurfa, og benti síðan á, að sums staðar væri hægt að framleiða rafmagn með smávirkjunum. Og í því sambandi minntist hann á Öræfin. Það er búið að byggja rafstöð á hverju býli í Öræfunum, án þess að nokkur styrkur frá ríkinu hafi komið þar til. – En það er fjarri því, að skilyrði eins og í Öræfunum séu til staðar annars staðar í svo ríkum mæli, og hafa þau að því leyti algerlega sérstöðu um byggðir þessa lands, vegna þess að jökullinn liggur á fjallsbrúninni yfir bæjunum, og þess vegna spretta upp úr hlíðunum þar lækir, sem alltaf eru með sama vatnsmagni árið um kring. Þessi staður er þess vegna að því leyti ekki sambærilegur við nokkra aðra sveit á landinu, og þess vegna er ekki hægt að taka þetta sem dæmi. Ef hægt væri yfirleitt á landinu að framleiða rafmagn fyrir sveitirnar á jafnauðveldan hátt og í Öræfunum, þá væri ekki þörf á því að vera með frv. um stórar fjárveitingar á Alþ. til þess að koma þessum málum á veg. Allar þær till., sem koma fram á Alþ. um þessi mál, og það, sem ritað er í blöð um þau, er af því, að öllum hv. þm. sem öðrum, sem um málið hugsa, er ljóst, að það þarf stórt átak hins opinbera til þess, ef rafmagn á að notast almennt í sveitum landsins. Og ég vildi benda á það í sambandi við lausn þessara mála, að nú er búið að ræða um þau og rita svo mikið, að bændur almennt úti um land eru farnir að gera ráð fyrir því statt og stöðugt, að það muni ekki vera nema fá ár þangað til Alþ. lætur leiða rafmagn inn á hvert sveitaheimili. Og hvaða stjórnmálafl., sem kunna að fara með völd á næstu árum, munu þeir þurfa að standa gagnvart því vandamáli, að þetta verði heimtað af þeim — og sennilega heimtað harðast af Framsfl., ef hann kæmist í stjórnaraðstöðu, vegna þess að bændur mundu þar telja sig geta krafizt efnda á loforðum, sem þar um hefðu verið gefin.

Þá sagði sami hv. þm. viðvíkjandi vegamálum, að vegur lægi venjulegast gegnum hverja sveit. Já, það er nú svo. En margar dalasveitir eru þó þannig settar, að þar liggja ekki neinir sæmilegir vegir um. Og þó að þjóðvegir liggi um aðalsveitirnar, þá eru vegagerðir svo dýrar, að ekki tekur að leggja vegi sérstaklega fyrir þessa dalabæi heim að þeim.

Ég vildi benda á það að síðustu, að þessi leið, sem enn þá hefur verið farin í byggingarmálum sveitanna, að stofna einstök nýbýli dreifð út um allar sveitir landsins, án tillits til þess, hvort það er heppileg leið til þess að framleiðslan verði ódýr, komin á markað, er ekki sú rétta. Við stöndum nú gagnvart því vandamáli að þurfa að skipuleggja framleiðsluna að meira eða minna leyti. Og það verður helzt gert, svo að vel fari, með því að skipuleggja byggingar í sveit um leið að einhverju leyti. Verði framleiðslan ekki skipulögð, er hættan á því, að framleitt verði of mikið af sumum vörum, en of lítið af öðrum. Og verði framleiðslan ekki skipulögð, verða ekki heldur notuð beztu skilyrðin, sem landið hefur að bjóða, svo sem á jarðhitasvæðum.