14.12.1944
Efri deild: 88. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1131 í B-deild Alþingistíðinda. (2074)

130. mál, jarðræktar- og húsagerðarsamþykktir í sveitum

Haraldur Guðmundsson:

Því miður hef ég eigi getað tekið þátt í afgreiðslu þessa frv. af ástæðum, sem ég mun ekki greina nú. Um höfuðtilgang frv. vil ég segja, að hann er réttmætur og er að ýmsu leyti stefnt til betri hátta og framkvæmda en verið hefur í þessum efnum. Ég hygg, að þess megi vænta, að með framkvæmdum með fullkomnustu vélum megi búast við, að jarðræktarframkvæmdir verði fullkomnari og ódýrari en verið hefur. Það eru og meiri líkur til, að þetta verði tryggt með stofnun félagssamtaka, sem skulu sjá um þessar framkvæmdir. Hins vegar er ég ekki á sama máli um, að rétt sé, eins og gert er ráð fyrir í 8. og 9. gr., að þessi félagssamtök verði kaupendur og eigendur þessara véla. Ég tel, að verkfæranefnd ríkisins ætti að sjá um þetta starf og ætti og leigði út vélarnar með æfðum mönnum til að stjórna þeim. Um þau ákvæði, er fjalla um mælingar og athuganir og að kostnaður við þær skuli að hálfu greiddur úr ríkissjóði og að hálfu af Búnaðarfélagi Íslands og hlutaðeigandi búnaðarsambandi, er mér ei fullkomlega ljóst, hvað hér er átt við.

Ríkissjóði er gert að greiða 3/4 af þessum kostnaði.

Ég er samþykkur því, sem stendur í 9. gr. Ég hygg, að það hlutfall sé ekki fjarri lagi. í frv. segir, að verja skuli í þessu skyni allt að 3 millj. kr. og segi ríkisstjórnin til á hverjum tíma, hve langt skuli gengið í þessu efni.

Ég verð að segja, að í sambandi við 18. og 19. grein er mér ekki ljóst, til hve mikils kostnaðar er stofnað. Það mætti samkvæmt 18. gr. líta svo á, að hlutaðeigendur gætu krafizt, að byggingafróður maður gerði tillögur um, hvernig byggingunum yrði háttað, og samkvæmt 19. gr., að þeir gætu krafizt teikninga af þessum húsum. Ég hygg, að ástæða væri til að athuga nokkru nánar þessi atriði.

Ég vildi, að þessi aths. kæmi fram nú við þessa umr.

Mun ég greiða frv. atkv., en áskil mér rétt til að gera brtt. síðar.