09.01.1945
Neðri deild: 98. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1133 í B-deild Alþingistíðinda. (2092)

232. mál, ráðstafanir vegna dýrtíðar og erfiðleika atvinnuveganna

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Með l. nr. 98 1941 var ríkisstj. heimilað að fella niður með öllu toll af ýmsum kornvörum og lækka sykurtoll um helming. Þessi heimild gilti fyrir 1942, en, var síðan framlengd bæði 1943 og 1944, en féll úr gildi við síðustu áramót. Ríkisstj. taldi óhjákvæmilegt að leita heimildar til framlengingar á þessu máli, og var þetta litla frv. því flutt af fjhn. Ed. að beiðni ríkisstj. Mér þykir rétt að upplýsa það hér, þó að ég búist ekki við ágreiningi um þetta, hvaða áhrif þetta hefur fyrir ríkissjóð. Tollalækkunin á sykri nemur sem næst 585 þús. kr. í þungatolli og 281 þús. kr. í verðtolli, eða samtals 866 þús. kr., en niðurfelling korntollsins 687 þús. kr., samtals næstum hálf önnur millj. á ári. Ef tollar þessir væru aftur látnir ganga í gildi, mundi dýrtíðin sennilega hækka um 2 stig. Ég vil taka það fram, að þessar upplýsingar eru miðaðar við innflutning korns og sykurs 1943, en verðlagið við seinni hluta ársins 1944. Þrátt fyrir að segja megi, að fjárhagslega borgi þetta sig ekki fyrir ríkissjóð, var ekki annað fært, vegna hækkunarinnar á vísitölunni, en leita framhalds á þessum heimildum. Málið er flutt af n. og gert ráð fyrir, að ekki þurfi að vísa því til n. hér í þessari hv. d. En ef ekki er ágreiningur um málið, mælist ég til þess við hv. forseta, að hann að þessum fundi loknum leiti afbrigða fyrir því, að málið fái að koma fyrir, svo að það fái afgreiðslu. Ég fer fram á þetta af því, að ekki er að vita, nema nú standi svo á, að skip með þessar vörur sé um það bil að koma að landi.