08.01.1945
Efri deild: 93. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1136 í B-deild Alþingistíðinda. (2115)

201. mál, hafnarlög fyrir Akranes

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. — Sjútvn. hefur haft þetta mál til athugunar. Hún hefur borið frv. saman við gildandi hafnarl. og leggur til, að frv. verði samþ. eins og það liggur fyrir. Það er að vísu gengið hér inn á dálítið nýja braut með þessum l., þannig að hlutfallið er látið halda sér á milli þess, sem hafnarsjóður leggur til og ríkissjóður, eins og það var áður, þrátt fyrir það að búið sé að gera þennan stað að bæ, en þegar áður var veitt til þessa staðar, hefur hann verið hluti af sýslunni og því komið til sýslusjóðs samfara ábyrgð hreppsins. Það kom til umr. út af þessu atriði, hvort rétt væri að breyta samþ. til þess að taka inn meira gjald af fiskibátum, en þær upplýsingar lágu fyrir, að ekki mundi ástæða til þess, því að hafnarsjóður á Akranesi hefur staðið undir öllum sínum skuldbindingum, án þess að hækkaður hafi verið hundraðshlutinn af þeim gjöldum, sem kæmu frá bátum.

Sjútvn. vill leyfa sér að taka fram, að hún væntir þess, að hæstv. ríkisstj. geri sitt til þess að undirbúa almenn hafnarl. fyrir næsta Alþ., þar sem brýn nauðsyn er til þess, að þessum málum sé þannig komið fyrir, svo að ekki gangi allmikið af starfstíma þingsins til þess að fjalla um þessi mál.