16.11.1944
Neðri deild: 75. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (2129)

112. mál, kirkju- og manntalsbækur

Frsm. (Barði Guðmundsson):

Herra forseti. — Menntmn. þessarar d. hefur haft frv. til athugunar og leggur eindregið til, að það nái fram að ganga með breytingum, sem varða eingöngu upphaf 3. gr. frv. N. telur rétt, að frestur til að afhenda kirkjubók, eftir að hún er fullskrifuð, sé ákveðinn 15 ár, en ekki 10 ár eins og í frv. stendur. Til þess liggja m.a. þau rök, að sóknarprestar þurfa að skrifa aldur fermingarbarna út úr kirkjubókum, og miðast 15 ára fresturinn einkum við það. Þá þótti n. ástæða til að bæta inn ákvæði um, hve lengi sóknarprestar megi hafa sömu kirkjubókina í notkun. Þess eru ekki allfá dæmi, að þær hafi verið notaðar 70–80 ár í fámennum söfnuðum. Á svo löngum tíma er afar hætt við, að bók eyðileggist, áður en hún verður safnskyld. Þessar brtt. höfum við borið undir flm., og hann hefur tjáð sig þeim samþykkan.