12.12.1944
Neðri deild: 90. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1145 í B-deild Alþingistíðinda. (2151)

112. mál, kirkju- og manntalsbækur

Frsm. (Barði Guðmundsson):

Hv. þm. V.-Sk. segist ekki skilja, hvernig n. geti verið andvíg brtt. hans. Ég verð að segja, að ég botna ekkert í, hvers vegna hann hefur komið með þessa brtt. Hann segir, að það sé í samræmi við ákvæði frv. um að innheimta bækurnar, þegar hann í brtt. vill láta kalla þær inn fimmtíu árum eftir, að þær eru fullritaðar, en í frv. stendur fimmtíu árum eftir, að þær eru löggiltar til notkunar í embætti prestsins. Það munar miklu á þessu. Ef brtt. væri fylgt, þá mundi ekki nást í bækurnar, fyrr en þær væru orðnar 100 ára gamlar. Þetta virðist hann ekki athuga, og í raun og veru er á engan hátt hægt að segja, að brtt. feli í sér bót á frumvarpinu.

Hann leggur mikla áherzlu á, að heppilegast sé, að afritin séu gerð á laus blöð, sem séu send árlega til safnsins, og svo þegar fimmtíu ár séu liðin frá því að byrjað var að endurrita bókina, yrði loks krafizt bókarinnar sjálfrar, en hin lausu blöð endursend prestakallinu.

Ég vil benda á það í sambandi við þetta mál, sem hefur ekki svo litla þýðingu fyrir safnið, en það er pappírsmergðin. Það er versti fjandi safna, hinn óskrifaði pappír, sem berst þangað. Svona mundu bækurnar líta út samkvæmt því, sem ætlazt er til í frv. hv. 2. þm. Skagf. (Þm. sýndi nokkrar útskrifaðar opnur í bók.) Nú skal ég leyfa mér að sýna hv. þm., hvernig þessar bækur mundu líta út samkv. till. hv. þm. V.-Sk. (Hér sýndi þm. bók, sem var óskrifuð á annarri síðu, en skrifuð á hinni, sums staðar mjög lítið, sums staðar nokkru meira.) Þannig mundu afritin líta út samkv. till. hv. þm. V.-Sk., sama sem ekkert annað en óskrifaður pappír. Svona mundu afritin af prestþjónustubókunum líta út eftir till. hv. þm. V.-Sk., nákvæmt sýnishorn af því, ef brtt. hans er samþ. Nú flettum við blöðunum. Sjáið þið. Hér er skýrsla frá Hofteigsprestakalli, tvö nöfn á henni. Nú er hér aðeins tekið afrit af frumskýrslunni, en þar eru líka dálkar fyrir fædda, skírða, dána og gifta, svo að hver bók yrði a.m.k. 4–5 sinnum stærri en hér er um að ræða.

Svo kemur annað, sem vert er að gefa gaum, en það eru erfiðleikarnir á að halda öllu þessu í röð og reglu. Allir, sem eitthvað hafa fengizt við kaupskap, vita, hvað þægilegt er að eiga við lausblaðabækur. Það er hægt að nota þær í nokkur ár, en eins og hann gerir ráð fyrir að nota þær í fimmtíu ár eða þar yfir, þá yrði þetta gersamlega óframkvæmanlegt. Í þessu sambandi vil ég minna á orð, sem hv. þm. V.-Sk. lét falla við 2. umr. Hann sagðist ekki vilja gefa tvo aura fyrir prestþjónustubækur, sem væru bundnar. Svo leyfir hann sér að koma með brtt., sem gengur út á, að ekki sé hægt að innkalla bækurnar fyrr en eftir kannske hundrað ár. Ég vil skora á menn að fella þessa brtt. svo rækilega, að menn séu ekki að leika sér að að bera fram till., sem byggjast ekki á neinni skynsemi.