08.01.1945
Neðri deild: 97. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1154 í B-deild Alþingistíðinda. (2176)

233. mál, róðrartími fiskibáta

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég vildi leyfa mér að svara þeim aths., sem fram hafa komið frá hv. þm. Borgf. og hv. 7. þm. Reykv. viðvíkjandi þessu frv.

Út af ummælum hv. þm. Borgf. vil ég taka fram, að þetta frv. var útbúið samkv. fyrirsögn forseta Fiskifélags Íslands, er hafði samráð við fiskimenn um þetta. En hvort það hefur náð svo langt, að allir hafi þar komið sinni skoðun að, skal ég ekki um segja.

Hitt er vitanlega alveg rétt, sem hv. þm. Borgf. sagði hér, að þar sem svo er að skilja á orðalagi 1. gr., að miðin á norðanverðum Faxaflóa séu undanskilin, gæti það valdið örðugleikum, einkum Akurnesingum, sem vitað er, að sækja aðallega þau mið, að þangað flykktust bátar á öðrum tímum en venjulega annars staðar frá. Og þar sem hér er aðeins um heimild að ræða, virðist mér engin hætta gæti stafað af því, þó að 1. gr. sé orðuð þannig, að heimildin nái til stærra svæðis, þannig að norðanverður Faxaflói yrði tekinn með, því að auðvitað mundi ríkisstj. aldrei detta í hug að beita þeirri heimild öðruvísi en að beztu manna yfirsýn í hverri veiðistöð með tilliti til þess, sem bezt hentaði hagsmunum almennings, sem hér á hlut að máli.

Ég býst því við, að ég muni við 2. umr. þessa máls leita samþ. meðnm. minna í sjútvn. um að breyta 1. gr. í þetta horf, og ætla ég, að óskum hv. þm. Borgf. muni með því fullnægt verða.

Að því er snertir aths. hv. 7. þm. Reykv., þá er það að vísu satt, að hér er um ráðstafanir að ræða, sem ekki eru algengar og eiga sér ekki fordæmi á löggjafarsviðinu í þessu formi. En það er nú svo, að hernaðaryfirvöldin hafa gert ráðstafanir á þessum svæðum, sem torvelda mjög aðgang sjómanna að fiskimiðunum, og er það út af fyrir sig nóg ástæða til að reyna að koma á því skipulagi við sjósóknina, að öllum notist veiðisvæðin sem bezt.

Að því er snertir róðrartímann og reglur um hann, þá er, þetta mjög algengt í veiðistöðvum og hefur verið gert, án þess að hernaðarástæður hafi valdið, t.d. í mínu kjördæmi. Þar hefur um óralangan tíma verið haldið fast við vissa róðrartíma, sem kallað er, allan fyrri hluta vertíðarinnar, en slakað á þeim, þegar kemur fram á og nótt fer að verða björt. Þar þykja þessar reglur nauðsynlegar.

Ég vil svo drepa á það, að mér hefur verið á það bent af lögfróðum þm., að aftan við 1. gr., þar sem talað er um sektir og brot, vanti ákvæði um, hvernig fara skuli með mál, sem kunna að rísa út af þessum l., og mun ég við 2. umr. koma með brtt. til viðbótar um það, að brot gegn þessum lögum, sem sett kunna að verða, skuli sæta sömu meðferð og brot gegn opinberum lögreglul.