28.09.1944
Neðri deild: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (2207)

110. mál, sala nokkurra opinbera jarða

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Eins og hv. alþm. muna eða munu sennilega sumir muna, þá hefur mál svipað þessu legið fyrir Alþ. áður. Það var fyrir nokkrum dögum borið fram frv. um heimild fyrir ríkisstj. til að hafa makabýtti á þessum tveim jörðum austur í Árnessýslu, en um svipað leyti og það mál var borið fram hér á Alþ. kom beiðni símleiðis frá ábúendum Laxárdals og Ymjabergs um, að þeir gengju sem ábúendur fyrir kaupunum, ef jarðirnar yrðu seldar.

N. virtist að órannsökuðu máli dálítið hart að gengið að selja öðrum en þessum tveim mönnum jarðirnar án þess að gefa þeim kost á að ræða það mál, þegar þeir óskuðu sjálfir kaupanna. Svo var rætt um það, að ef makabýtti yrðu, þá væri ekki hægt að leggja það til af þingsins hálfu, nema samningar tækjust við ábúendur þessara jarða og væntanlega eigendur um ábúðarkjör, sem þeir gætu við unað í framtíðinni. Nú mun ekkert hafa orðið af þeim samningum og hið eldra mál enga afgreiðslu fengið frá þingi.

Hins vegar hafa hinir tveir ábúendur á Laxárdal og Ymjabergi farið fram á að fá þessar jarðir keyptar, og flytur hv. þm. Snæf. á þskj. 302 frv. um, að þeim verði seldar þessar jarðir. Landbn. hefur athugað þetta mál, en ekki getað orðið á eitt sátt um afgreiðslu þess, því að n. hefur í raun og veru þríklofnað. Einn nm. (JPálm) vildi samþ. frv. óbreytt, annar nm. (SG) vildi fella það, en við þrír, ég og þeir hv. 2. þm. Skagf. og þm. Hafnf., vildum afgreiða frv. eða mæla með samþykkt þess með þeim skilyrðum, að ef jarðir þessar væru seldar, þá yrðu þær seldar með þeim skilmálum, að þær yrðu gerðar að ættaróðulum skv. l. um ættaróðul og erfðaábúð.

Þá er einnig þriðja jörðin, eyðijörðin Gröf í Staðarsveit. Nokkur undanfarin ár hefur hún verið nytjuð af ábúanda Ölkeldu, og fer hann fram á að fá þessa eyðijörð keypta. Í l. um ættaróðul og erfðaábúð, sem afgreidd voru frá síðasta þingi eða nýskeð, er gert ráð fyrir, að heimilt sé að selja opinberar jarðeignir vegna erfðaábúðar með vissum skilyrðum, sem sé, að þær verði gerðar að ættaróðulum. Alþ. hefur gengið þannig frá því máli, að lagðar eru að jöfnu jarðir, sem gerðar eru að ættaróðulum eða byggðar á erfðum. Þar sem stefna þessi hafði áður verið tekin af þinginu, sáum við ekki fært að neita ábúendum þessara jarða um sama rétt og aðrir ábúendur hafa skv. l. Þeim var innan handar, þótt þessu væri neitað, að skapa sér þennan rétt með því að fá erfðaleiguábúð á þessum jörðum, sem þeir eiga kröfu til skv. l. Okkur virtist óþarfi að fara að gera óánægju um þennan hlut, úr því að þetta er einu sinni leyft í l., og lögðum því til, að frv. yrði samþ. með þeim skilyrðum, að heimilt væri að selja þessar jarðir, sem um getur í 1. og 2. lið, með sömu skilyrðum og um getur í l. um ættaróðul og erfðaábúð.

Um þriðju jörðina, Gröf í Staðarsveit, er öðru máli að gegna. Hún hefur á undanförnum árum verið nytjuð frá þessari jörð, og mér er tjáð, að eigandi Ölkeldu hafi hug á að skipta þeirri jörð milli barna sinna, og væri þá nauðsynlegt að eiga þessa eyðijörð og leggja hana við, áður en skipti færu fram. Gerðum við að skilyrði, að hún yrði lögð við jörð þessa, en ekki, að nýir eigendur færu að braska með hana, og gæti þannig hjálpað til, að hægt yrði að skipta Ölkeldu í tvö sjálfstæð og sérstök býli.

Nú hefur komið fram brtt. við þetta frv. frá hv. 10. landsk. .og nú á þessum fundi frá hv. 2. þm. N.-M., og er þar farið fram á að bæta við heimildina um sölu jarðanna nokkrum fleiri jörðum, sem ég fyrir mitt leyti hef ekki getað aflað mér upplýsinga um, hvernig ástatt er með, og n. ekki heldur, og mun ég því a.m.k. ekki fyrir n. hönd segja neitt um þessar brtt., ,fyrr en hv. flm. hafa gert grein fyrir þeim. — Ég sé ekki ástæðu til að segja meira um þetta að sinni.