28.09.1944
Neðri deild: 57. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

110. mál, sala nokkurra opinbera jarða

Jón Pálmason:

Hv. frsm. gat þess í ræðu sinni, að landbn. væri þríklofin í þessu máli, en þetta er ekki rétt með farið hjá hv. frsm. Það er að vísu svo, eins og tekið var fram í nál., að ég lagði fram í n. till. um að samþ. þetta frv. óbreytt, og miðað var við, að það yrði að skoðast sem undanþága frá þeim ákvæðum, sem eru í l. um ættaróðul og erfðaábúð. En að þeirri till. fallinni féllst ég á þá afgreiðslu, sem felst í meirihlutaáliti n., svo að við það, að ég hef ekki lagt fram neina till. um það í hv. d. að samþ. þetta frv. óbreytt, þá segir það sig líka, að ég hef ekki klofið n., en gengið eftir atvikum að því, að frv. verði samþ., eins og lagt er til í áliti n.

Varðandi þær brtt., sem hér liggja fyrir frá öðrum hv. þm., þá þykir mér ósennilegt, að rétt sé að samþ. þær, en þætti betra, að landbn. tæki til að rannsaka, hvernig ástatt er um þær jarðir, og vildi gjarnan, að þeir hv. þm. létu bíða atkvgr. til 3. umr. — Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál.