17.10.1944
Neðri deild: 66. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (2222)

110. mál, sala nokkurra opinbera jarða

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. — Þegar ég lagði fram brtt. á þskj. 369, gat ég þess, að fyrstnefndu tvær jarðirnar, undir a. og b., sem sé jarðirnar Refsstaðir í Vopnafjarðarhreppi og Snotrunes í Borgarf jarðarhreppi í Norður-Múlasýslu, væru eign jarðakaupasjóðs og færi ég hér fram á sölu á þeim af því, að þær hefðu verið falaðar til kaups, önnur fyrir einu ári, en hin fyrir 10 mánuðum, og hefði hvorugum aðila verið svarað enn. En eftir að ég kom fram með þessa brtt. tjáði landbrh. mér, að hann hefði lagt fyrir þann mann í ráðun., sem um þessi mál fjallaði, að svara báðum aðilum og gefa þeim kost á að kaupa jarðirnar. Þannig er þessi till. þegar búin að hafa sín áhrif, og þarf því ekki að samþ. hana, hvað þessar tvær jarðir snertir, því að þær fást keyptar, hvort sem hún verður samþ. eða ekki.

Álíka einkennilega meðferð fær þriðja jörðin, sem ég flyt till. um á sama þskj., að verði seld. Landbn. er samþykk því að heimila hér sölu á annarri eyðijörð, en þessa eyðijörð, sem ég flyt till. um, vilja þeir ekki selja. Ég get ekki sagt um það, hvað vakir fyrir Geirmundi Eiríkssyni með því að vilja fá þessa eyðijörð keypta, en það væri auðvelt að slá varnagla við því, að hann færi að braska með hana, með því að gera honum að skyldu að setja jörðina í erfðaábúð. Vitanlega er tilgangur hans enginn annar en sá að gera jörðina að sjálfstæðu býli, en ekki að braska með hana. Ég vil því mælast til þess, að landbn. taki málið til athugunar, og frekar, að því verði frestað, en alls ekki að synja um sölu, heldur setja að skilyrði, að hún verði sett í erfðaábúð. Það á að heimila sölu á jörðinni til þess manns, sem hefur nytjað hana og vill gera að sjálfstæðu býli.