17.10.1944
Neðri deild: 66. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (2223)

110. mál, sala nokkurra opinbera jarða

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Eins og ég sagði áðan, mundi afstaða landbn. til þessa máls hafa orðið önnur, ef það lægi fyrir, að ætlun viðkomandi manns væri að gera jörðina að sjálfstæðu býli. Mér virðist hins vegar allt á huldu um, að svo sé og að ekki liggi fyrir neinar upplýsingar um þetta og þess vegna þurfi ekki að hraða sölu þessarar jarðar.

Út af því, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði um, að setja ætti það að skilyrði, ef jörðin yrði seld, að hún yrði sett í erfðaábúð, þá er engin aðstaða til þess, ef til sölu kæmi. Ástæðan fyrir þessu er sú, að með því að selja hana ekki er hægt að fara fram á það við ríkið, að jörðin verði sett í erfðaábúð, en verði hún hins vegar seld Geirmundi, er hægt að setja hana undir óðalsrétt. Mér virðist því, að Geirmundur eigi þess kost að fá jörðina í erfðaábúð, án þess að hún verði seld honum. Óski hann hins vegar eftir að fá hana keypta, þá verða að liggja fyrir einhverjar upplýsingar um, hver ætlan hans sé varðandi jörðina, því að um langt skeið hefur hún ekki verið talin byggileg og lögð undir aðra jörð í Eiðaþinghá. Okkur í landbn. finnst óeðlilegt að gera ábúanda á opinberri jörð að sérstökum eiganda á nokkrum hluta þess lands, sem hann nytjar, og geri ég því ekki ráð fyrir, að hún óski eftir að taka málið til frekari meðferðar.