11.01.1945
Efri deild: 100. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1172 í B-deild Alþingistíðinda. (2248)

110. mál, sala nokkurra opinbera jarða

Frsm. (Eiríkur Einarsson):

Herra forseti. — Þegar frv. þetta var áður til umr. hér í hv. d., var það mitt hlutskipti að hafa framsögu um það. Nú hefur það tekið nokkrum breyt. í Nd., þannig að hún hefur skeytt tveim jörðum við, sem óskað er einnig eftir að fá keyptar. Það eru eyðijarðirnar Steinbogi í Hjaltastaðahreppi og Engjalækur í sama hreppi. Þetta er því nýmæli, sem komið er fram, og ég vildi í sambandi við þá breyt. láta þess getið sem mína einkaskoðun um málið — landbn. hefur ekki séð ástæðu til þess að láta málið að svo komnu til sín taka, — að úr því að málið er komið þetta langt á veg og lítur út fyrir, að það sé þingvilji fyrir því, að þessar heimildir séu veittar, þá sé ég ekki ástæðu til þess að gera þarna upp á milli. Og úr því að búið er að heimila að heita má í báðum d. fimm slíkar jarðir, þá ætti það ekki að breyta neinu, þó að þær væru sex eða sjö.

Ég vil endurtaka það, sem ég hef fyrr sagt, að ég álít, að þetta jarðabrall ríkisins sé óráð á allan hátt og það væri nauðsyn, að sem allra fyrst væri einhver ýtarleg skipan gerð í þessum efnum. En á meðan það er ekki gert að bæta úr þessu og tekin ákveðin stefna í þessum málum, þá álít ég, að ekki sé hægt að gera hér upp á milli og selja þessar jarðir líka, sem nú er komin ósk um, og þá auðvitað með þeim skilyrðum, sem um slíkar jarðir eru sett.