02.12.1944
Neðri deild: 85. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

199. mál, hafnargerð á Sauðárkróki

Flm. (Sigurður Þórðarson):

Herra forseti. Samkvæmt óskum frá hafnarnefnd Sauðárkróks höfum við leyft okkur að flytja hér þetta frv: til l. um breyt. á hafnarl. Sauðárkróks. — Fyrir rúmum 10 árum voru gerðar lendingarbætur á Sauðárkróki og til þess kostað miklu fé. Síðan hefur það reynzt svo, að það hefur átt sér stað nokkur sandburður inn í höfnina. Þetta hefur ágerzt svo á síðustu árum, að við það verður ekki lengur unað án þess að úr verði bætt. Grynnkað hefur þarna svo mikið, að stærri skip geta ekki með góðu móti lagzt við hafnargarðinn. Gert er því ráð fyrir að dýpka höfnina það fyrsta sem mögulegt er. Einnig hefur verið reiknað út, samkv. till. vitamálastjóra, að lengja hafnargarðinn til þess fyrst og fremst, að stærri skip geti lagzt við hann heldur en áður. Hann er svo stuttur, að hafnargarðurinn jafnbrýnir við þau flutningaskip, sem þarna koma. Og ef nokkuð er órólegur sjór, geta þau ekki legið við hafnargarðinn og geta því ekki afgreitt sig þar, ef nokkuð er að veðri. Í öðru lagi er það, að ef hafnargarðurinn væri lengdur fram, mundi það miða að því, að sandburðurinn inn í höfnina hyrfi. Þess vegna mundi þessi viðbót fyrirbyggja sandburð inn í höfnina, og í öðru lagi gætu stærri skip afgreitt sig við höfnina heldur en geta það nú.

Málið liggur mjög ljóst fyrir. Það er reiknað út af vitamálaskrifstofunni, hvað þetta mannvirki muni kosta, og fylgiskjöl með frv. bera það með sér, og ég veit, að hv. þdm. hafa kynnt sér það. Þess vegna skal ég ekki fjölyrða um þetta, en aðeins geta þess, að hv. fjvn. hefur tekið upp í till. sínar nokkra fjárveitingu í þessu skyni. Breyt. þessi á hafnarl. virðist því vera alveg sjálfsögð. Vona ég því, að hv. þd. taki vel á þessu máli. Óska . ég svo, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.