02.12.1944
Efri deild: 80. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1183 í B-deild Alþingistíðinda. (2339)

203. mál, olíugeymar o.fl.

Flm. (Ingvar Pálmason):

Þegar l. um olíugeyma komu til framkvæmda, samdi stjórn Fiskifélags Íslands reglugerð fyrir neytendafélögin, og sú reglugerð var hliðstæð samvinnul. vegna þess, að l. bera með sér, að tilætlunin er, að þessi fél. séu samvinnufél. Nú hefur komið í ljós, að þegar þessi fél. eru stofnuð, hefur oft ekki verið hægt að uppfylla ýmis ákvæði samvinnul. Það eru sérstaklega tvö ákvæði, sem erfitt hefur verið að uppfylla. Annað er það, að meðlimir verða að vera minnst 15, og svo hitt, að ekki geta aðrir en einstaklingar verið meðlimir í samvinnufélagi.

Nú hefur það sýnt sig, að á sumum stöðum, þar sem þarf að mynda olíusamlag, er ekki hægt að ná í 15 meðlimi, og veit ég af tveimur dæmum um þetta, og á báðum stöðunum hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að smíða hæfilega olíugeyma. Þessi fél. er ekki hægt að skattleggja sem samvinnufél., heldur sem hlutafél. Á einum stað a.m.k. eru stærstu notendurnir í samlaginu frystihús og kaupfélag. Það samlag samrýmist ekki samvinnul. frekar en hin, en þar er einnig svo ástatt, að öllum undirbúningi er lokið og það tekur til starfa á næstu vertíð. Þar sem það er augljóst, að sum þessara samlaga verða skattlögð sem samvinnufél., en önnur sem hlutafél., er hætt við, að myndist ósamræmi um aðstöðu þessara fél. að því er snertir álögur. Þess vegna samþ. stjórn Fiskifél. Ísl. frv. þetta og óskaði, að það yrði flutt á Alþ.

Frv. gerir þá einu breyt. við 4. gr. l., að við hana bætist ný málsgr., sem hljóðar eins og segir í frv. og er að efni til þannig, að þótt olíusamlög séu skoðuð sem hlutafél., njóti þau sömu hlunninda við álagningu skatta og samvinnufél.

Ég hygg, að um þetta mál ætti ekki að standa mikill styr hér á þ. Það er vitað, að mjög víða hefur l. um olíugeyma verið vel tekið, undirbúningur víða hafinn og Fiskifél. Ísl. hefur stutt að stofnun ýmissa samlaga.

Ég held, að öll sanngirni mæli með því, að þetta litla frv. nái samþykki í þ. Það veldur engri byltingu í þjóðfélaginu, en gerir það að verkum, að þessi olíusamlög þurfa ekki að búa við misjafnar aðstæður.

Legg ég svo til, að frv. verði vísað til sjútvn., þótt það heyri frekar undir fjhn., vegna þess að l. heyrðu undir sjútvn., þegar þau voru hér á ferð.