29.11.1944
Neðri deild: 84. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 2 í C-deild Alþingistíðinda. (2387)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Frsm. (Sigfús Sigurhjartarson):

Herra forseti. Eins og greint er frá í grg. frv., var fram borið á síðasta þingi á þskj. 453 frv. til 1. um sama efni og þetta frv. fjallar um. Það frv. fór þá til menntmn. þessarar hv. d., sem tók upp þann eðlilega hátt að vísa því til umsagnar þeirra aðila í landinu, sem ætla mátti, að hefðu eitthvað til þessara mála að leggja, en það voru Húsameistarafélag Íslands, Verkfræðingafélag Íslands, húsameistari ríkisins og Þórir Baldvinsson húsameistari, sem starfar á vegum ríkisins. Umsagnir frá þessum aðilum um það frv. bárust ekki fyrr en því þingi var lokið, og gat frv. því ekki náð afgreiðslu á því þingi.

Menntmn. þótti rétt að taka upp þetta frv. nú á þessu þingi og að athuguðum umsögnum þessara nefndu aðila bera frv. fram í því formi, sem það nú liggur hér fyrir í á þskj. 562. Nokkrar breyt. eru þar gerðar frá upphaflega frv., einkum í samræmi við till., sem komu frá Verkfræðingafélagi Íslands. Meginbreyt. er sú, að í upphaflega frv. var gert ráð fyrir því, að þriggja manna nefnd skyldi úrskurða, hvort samkeppni færi fram eða ekki. En þetta ákvæði var fellt niður samkvæmt till. Verkfræðingafélagsins, en í staðinn kemur, að ef mannvirki eru reist af ríkinu, sveitarfélögum eða af öðrum aðilum, sem njóta styrks af opinberu fé, þá skuli fara fram samkeppni um hugmyndir, frumáætlanir og frumdrætti að slíkum meiri háttar mannvirkjum, ef ráðh. eða þeim, sem verkið lætur framkvæma, þykir ástæða til. Það er þannig fram tekið í frv., að ef annar hvor þeirra tveggja aðila, annars vegar sá, sem reisa lætur mannvirki, eða hins vegar ríkisstjórnin óskar eftir því, að svona samkeppni fari fram í sambandi við mannvirkið, þá skuli það gert. Á hitt gat menntmn. ekki fallizt, sem Verkfræðingafélagið lagði til, að slík hugmyndasamkeppni færi fram því aðeins, að samkomulag yrði um það á milli þessara tveggja aðila, en var sammála um, að málið ætti fram að ganga í þeirri mynd, sem þetta nú er í í frv.

Enn fremur hafði Verkfræðingafélagið gert ráð fyrir því, að kostnaður við slíka samkeppni yrði borgaður af ríkissjóði. En menntmn. hefur haldið upphaflegu ákvæðunum í frv. óbreyttum um það, að kostnaðurinn yrði borgaður af þeim aðila, sem mannvirkið lætur reisa.

Verkfræðingafélagið hafði einnig lagt til, að formaður dómnefndar um tillögur í slíkri samkeppni skyldi vera sérfræðingur. Það hefur n. ekki tekið upp.

Ég tek þetta fram, til þess að hv. þdm. sé ljóst, hvað Verkfræðingafélagið hefur lagt til viðkomandi frv. — Það er að sjálfsögðu öllum heimilt og frjálst að láta fara fram hugmyndasamkeppni viðkomandi mannvirkjum, sem þeir láta reisa. En það þykir rétt að ákveða með 1., hvernig dómnefnd skuli skipuð, þegar slík samkeppni fer fram, og einnig, hver skuli greiða kostnaðinn, svo að ekki verði ágreiningur um það. — N. álítur, að þetta frv., ef að 1. verður, muni stuðla að því, að hugmyndasamkeppni muni verða látin fram fara, þegar um stór og mikils varðandi mannvirki er að ræða, og geti greitt fyrir því, að heppilegustu lausnir fáist um fyrirkomulag byggingar, þegar stórkostleg mannvirki eru reist, og geti stutt að því, að verkfræðingar okkar og listamenn á þessum sviðum fái notið sín í sambandi við það, þegar mannvirki eru reist.

Óska ég, að frv. þessu verði, að lokinni þessari umr., vísað til 2. umr. Til n. á það ekki að þurfa að fara aftur, nema ef fram koma brtt. við það, af því að frv. er flutt af n.