05.12.1944
Efri deild: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (2395)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Jónas Jónsson:

Mér sýnist, þar sem þetta frv. lítur út eins og stjfrv. og það virðist hafa eitthvað mikið bak við sig, ástæða til að leita fyrst til stj. um það, við þessa 1. umr., hvað átt er við með þessu frv., sem ætlazt er til, að snerti störf stj. sérstaklega. Það er farið hér fram á, að stj. geti fyrirskipað keppni um alls konar opinberar framkvæmdir, og þó er það ekki sú keppni, sem við höfum vanizt á síðari árum, og það virðist eins og verkfræðingarnir og raffræðingarnir misskilji þetta, því að hér er í rauninni um að ræða fyrirkomulag, sem að öllum líkindum mundi vera óframkvæmanlegt hér á landi. Ég ætla þá fyrst að spyrja hæstv. stj., hvort það sé tilgangurinn, að þessi hugmyndasamkeppni nái til húsa, brúa, vega, vita og jafnvel til skipa. Ef svo er, þá er þetta töluvert stórt mál bæði tæknilega og fjárhagslega. Þá vil ég beina þeirri annarri fyrirspurn til hæstv. stj., sem kemur til með að framkvæma þetta, ef samþ. verður, hver eigi að kosta þetta, því að sá kostnaður mundi vera mikill, ef ætti að leita hugmyndasamkeppni í öllum þessum greinum. Hér er ekki gert ráð fyrir neinu fjármagni í þessu skyni, og í sambandi við það vil ég nota tækifærið til þess að spyrja hæstv. menntmrh. um eitt mál, sem heyrir undir framkvæmd núverandi stj., en það er þjóðminjasafnshúsið, hvernig hæstv. stj. hugsar sér að taka á því. Alþ. samþ. í sumar, að fé skyldi varið til þess að byggja hús fyrir þjóðminjasafn, en byggingin er vandasöm, og það er ekki vitanlegt, að neinn maður hér á landi hafi á því kunnugleika. Þáv. hæstv. dómsmrh., Einar Arnórsson, skipaði nefnd manna til þess að standa fyrir þessu verki, og þessir menn eru að engu leyti á vegum ríkisstj. Nú var sagt, að búið hefði verið að gefa 15 þús. kr. til samkeppni um þetta hús, en það virðist sem þessi nýja n. hafi ekki einu sinni haft þessa samkeppni, heldur hafi hún samið við húsameistara hér í bænum um að taka þetta að sér. Nú er þetta talsvert atriði á ýmsan hátt, fyrst og fremst er það, að sumar helztu byggingar ríkisins, sem reistar hafa verið undanfarin ár, svo sem landsspítalinn, háskólinn og þjóðleikhúsið, hafa tekið margra ára undirbúning í nefnd með aðstoð húsameistara ríkisins. En þessi n. hafði unnið að þessu nokkurn tíma áður í samvinnu við lækna að landsspítalanum, og eins hafði farið fram mikil fjársöfnun. Í sambandi við leikhúsið höfðu þeir unnið mikið Indriði Einarsson og Jakob Möller, annar hafði verið leikari, hinn leikritaskáld, og t. d. í sambandi við landsspítalann hafði verið unnið í 4 ár; síðan var í sambandi við byggingu sumra þessara stofnana bætt við rannsóknarferð til útlanda. En nú aftur á móti er öllu í sambandi við þetta verk, forngripasafni og kannske listasafni, kastað burt undan öllu eftirliti ríkisvaldsins, heldur eiga viðvaningar að fjalla um þetta mál. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðh., hvort það sé rétt, að það hafi verið hætt við að nota þessar 15 þús. kr., af því að menn hafi haft ótrú á samkeppninni, en í stað þess hafi verið samið við ákveðinn mann.

Það er ekki aðeins það, að þessi samkeppni hefur þann galla, að þetta er mjög dýrt fyrir landið, sem þykir máske ekki skipta miklu máli nú, þegar peningaveltan er svo mikil, heldur hitt, að sá, sem verður hlutskarpastur, fær þeim mun meiri peninga sem þetta verður dýrara. Því er um að gera að hafa þetta sem allra dýrast, til þess að hann geti fengið sem mestar tekjur, og sama gildir um hin mannvirkin.

Ég ætla nú ekki að fara frekar út í það atriði, hvernig semkeppnin sjálf gefur hugmynd um fyrirtækið. Er lauslega að því vikið í áliti Árna Pálssonar, að það hafi eiginlega aldrei lánazt að gera hér nokkurt fyrirtæki upp úr samkeppni. Hér er ekki um að ræða útboð, eins og t. d. í sambandi við sjómannaskólann, þegar einstakur maður tekur að sér verkið. Hér er farið fram á allt annað, og álít ég rétt að leiða athygli hæstv. ríkisstj. að því þegar við 1. umr. Segjum t. d. að byggja eigi brú yfir Jökulsá á Fjöllum og eigi standi á sama, hvernig hún lítur út. Svo verður um þetta samkeppni, sem allir geta tekið þátt í. Þá vaknar fyrst spurningin: Hver á að borga þetta? Hver á að borga verðlaunin, sem geta orðið talsverð fjárhæð? En svo kemur annað, og það er þetta: Hugsum okkur nú, að einhver listrænn maður fyndi upp á því að koma með till. um, hvernig brúin á Jökulsá ætti að vera, og hann fengi verðlaunin og þetta kæmi svo til verkfræðings. Þá kæmi í ljós, að það, sem dómnefndinni hafði þótt bezt við till., reyndist alveg óframkvæmanlegt. Kæmi þetta þó meira fram í sambandi við byggingar, því að þegar óvaningar koma með svona skyssur, átta þeir sig ekki á því, að þótt útlitið hafi mikið að segja, verður það að vera í samræmi við notkun hússins.

Sá maður, sem talinn er færastur, er Einar Jónsson myndhöggvari. Hann hefur fyrir utan starf sitt, sem hann er vel lærður í, gert sér til gamans nokkur „módel“ af húsum, þ. á m. af Háskólanum. Þetta finnst leikmönnum mjög gaman að horfa á, mjög snilldarlegar línur eins og gefur að skilja, þar sem annar eins maður á í hlut. En þegar kemur til manna, sem eiga að byggja húsið, kemur í ljós, að það reynist óframkvæmanlegt.

Það er af þessum ástæðum, sem ég er fyrst og fremst á móti þessu frv. Hér er ekki verið að biðja um hugmyndir, sem alla jafna mundu koma frá mönnum, er ekki geta gert hlutina sjálfir.

En hér kemur líka til greina eitt atriði enn þá, og það er e. t. v. það versta. Það er það, að bæjum þeim, sem mikið láta byggja, hefur fundizt heppilegra í þessum efnum að hafa marga fasta starfsmenn. Reykjavík hefur, að því er ég hygg, 3–4 arkitekta við húsabyggingar. Segjum, að nú ætti að bjóða út hugmynd og þessir menn ættu að taka við hugmyndum frá einhverjum úti í bæ. Enginn fagmaður mundi láta bjóða sér slíkt, að einhverjir sendi honum hugmyndir, sem þeir hafa gert, og skipi honum svo í embættisins nafni að framkvæma þær. Þá yrði ríkið eða bærinn að leita til þeirra, er þetta hafa gert, sem í flestum tilfellum væru alls ekki færir um að framkvæma það. Því er þessi hugmynd um hugmyndir alveg óframkvæmanleg og ekkert annað upp úr henni að hafa en tafir við verkið. Ég veit ekki, hvort hv. d. er það kunnugt, að upp úr þessum tiltölulega fáu samkeppnum, sem hér hafa verið haldnar um hús, hefur ekki hafzt annað en það, að ekki er lengur hægt að fá arkitekta til að taka þátt í slíkri samkeppni. Þegar t. d. keppt var um þjóðminjasafnið, var það mál margra manna, að teikning sú, er Hörður Bjarnason gerði, hafi verið bezt þeirra, er þar voru boðnar fram. Hann fékk ekki verðlaunin, og eftir það veit ég, að bæði hann og margir aðrir arkitektar hafa ekki tekið þátt í neinni samkeppni.

Að lokum má minna á í þessu sambandi, sérstaklega þegar um hús er að ræða, að hér vantar hæfa dómendur, og hlýtur auðvitað öll samkeppni að stranda á því út af fyrir sig.

Ég vildi aðeins beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., hvernig hún hugsar sér, að þetta verði framkvæmt.