05.12.1944
Efri deild: 82. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (2400)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Jónas Jónsson:

Ég vil aðeins gera þá aths. við lok þessarar umr., að mér finnst tilvalið, að hæstv. ráðh. skuli hafa komizt í kynni við einhverja menn, sem hafa ákaflega mikið vit á leikhúsmálum og eru fróðir í byggingarmálum og ákaflega óánægðir með það, sem gert hefur verið, en sér samt sem áður, að hyggilegra er fyrir hann að nefna ekki þessi „autoritet“ (Menntmrh: Það getur verið, að ég geti gert það síðar.), því að annars yrði kannske hægt að krefja þann sagna og bera saman við önnur „autoritet“ með meiri þekkingu en lítur út fyrir, að hæstv. ráðh. hafi. Hæstv. ráðh. vill hafa þá aðferð, ef t. d. ætti að byggja leikhús, þá væri boðið til samkeppni og í henni tækju þátt t. d. allir leikarar og aðrir, sem komið hefðu í leikhús, allir kæmu með teikningar, og um þær ætti síðan að dæma n. manna, sem ef til vill hefði aldrei kynnt sér þessi mál erlendis og ekkert vit hefði á þeim. Svo skulum við bera þetta saman við þjóðleikhúsið. Að því störfuðu menn í mörg ár, sem höfðu verið leikarar lengi og leikskáld eða voru húsameistarar, og sumir þessir menn fóru hverja rannsóknarferðina eftir aðra til annarra landa, og allt var borið undir sérfræðinga í öðrum löndum, og niðurstaðan varð sú, sem er ákaflega leiðinlegt fyrir hæstv. ráðh., að þetta var allt svo grunnmúrað, að engin krítík hefur komið til greina frá öðrum en þeim, sem hafa verið frámunalega fáfróðir og haft einhvern pínulítinn illvilja um leið.