20.02.1945
Efri deild: 132. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 10 í C-deild Alþingistíðinda. (2412)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Frsm. meiri hl. (Kristinn Andrésson):

Herra forseti. Það er ekki langt síðan menntmn. var ásökuð um að hafa afgreitt mál, sem ekki þótti nægilega undirbúið, en það verður ekki sagt um það mál, sem hér liggur fyrir, enda er það einfalt og óbrotið. Það er flutt af menntmn. Nd. og felur ekki annað í sér en heimild til ráðh. um að geta látið fara fram samkeppni um öll meiri háttar mannvirki.

Aðalefni frv. er um það, hvernig dómnefnd skuli skipuð. Með frv. eru fylgiskjöl; það eru umsagnir einstaklinga og félaga, sem hafa reynslu og þekkingu í þessum efnum. Má þar til nefna: Verkfræðingafélag Íslands, Húsameistarafélag Íslands og teiknistofu landbúnaðarins, en þessir aðilar allir eru samþykkir frv.

Umsögn teiknistofunnar hljóðar svo:

„Þar sem samkeppni um uppdrætti að ýmiss konar byggingum hefur viðgengizt hér á landi og þar sem æskilegt verður að teljast, að af og til sé leitazt fyrir um það bezta, er sérfróðir menn hafa fram að bera í byggingarlist, að reglur séu settar um þetta atriði og opnaðar fjárhagslegar leiðir, er skapi möguleika til framkvæmda, þegar ástæða þykir til.“

Húsameistari hefur einnig gefið umsögn um frv., en hann er sá eini af þeim, sem leitað hefur verið til, sem leggur á móti, að frv. sé samþ., eða telur frv. a. m. k. óþarft. Þrátt fyrir þessar umsagnir, sem fylgdu frv. frá Nd., þá hefur menntmn. Ed. tekið frv. til rækilegrar athugunar og leitað umsagna ýmissa stofnana og manna um frv. og kallaði á sinn fund ýmsa menn, sem með þessar framkvæmdir hafa að gera, svo sem borgarstjóra og ríkisstj. Eins og gefur að skilja, tók þetta alllangan tíma, svo að n. hafði frv. alllengi til athugunar. Því er ekki að leyna, að skoðanir þessara manna eru ekki algerlega einróma um frv. T. d. virðist húsameistari ríkisins vera á öðru máli en aðrir húsameistarar, og skýtur það skökku við, þar sem Húsameistarafélagið lýsir yfir einróma fylgi við frv. (BBen: Ætli hann hafi verið á fundinum? — GJ: Hann er líklega ekki í félaginu.) Jú, hann er í því, en hann mun ekki hafa viljað hlíta samþykkt fundarins. Enginn þessara manna neitar því, að nauðsynlegt sé, að samkeppni fari fram um meiri háttar byggingar. Rökin fyrir því eru þau, að það gefur arkitektum og verkfræðingum tækifæri til að reyna hæfileika sína, og í öðru lagi það, að með því að láta samkeppni fara fram við og við, þá ætti það að geta orðið trygging fyrir bættri byggingarmenningu í landinu. Samkeppnirnar ýta við mönnum og gefa þeim, sem mestan áhuga hafa í þessu efni, tækifæri til að reyna sig.

Í öðru lagi er það, að mjög æskilegt er, að til séu ákveðnar reglur um, hvernig samkeppni skuli fara fram, og ákveðnar reglur um það, hvernig dómnefnd skuli skipuð. Það er í raun og veru kjarni þessa frv. að setja ákveðnar reglur um það, en í frv. er lagt til, að tilnefnd sé fimm manna dómnefnd, sem sé þannig skipuð: Einn frá ríkisstj., sem sé formaður, annar eftir tilnefningu bæjarstjórnar eða hreppsnefndar þar, sem reisa á mannvirkið, þriðji eftir tilnefningu þess, sem lætur framkvæma verkið, og fjórði og fimmti eftir stéttarfélagi húsameistara og verkfræðinga og fimm varamenn tilnefndir á sama hátt. Ég hef ekki orðið annars var en allir séu sammála um, að reglur séu til um slíkt, enda er mér sagt af húsameisturum og verkfræðingum, að slíkar reglur séu til erlendis, a. m. k. settar af húsameistara- og verkfræðingafélögum og þannig viðurkenndar. Hins vegar hefur mér skilizt á þeirri gagnrýni, sem fram hefur komið gegn frv. um hugmyndasamkeppni, að enginn þessara manna sé á móti því, enda væri það fjarstæða, að samkeppni fari fram við og við um meiri háttar mannvirki. Húsameistari ríkisins og vegamálastjóri leggjast á móti frv. af því, að það sé um samkeppni að hugmyndum. Vilja þeir og eins skipulagsstjóri ríkisins telja mjög mikinn mun á hugmyndasamkeppni og því, sem þeir kalla almenna samkeppni. Um þetta ber sérfræðingunum ekki saman. Húsameistari Reykjavíkurbæjar og formaður Verkfræðingafélags Íslands taka fram, að þeir geri engan mun á hugmyndasamkeppni og almennri samkeppni, eins og hún hefur farið fram hér á landi. Sá munur, sem skipulagsstjóri ríkisins telur á þessari tvenns konar samkeppni, er í því fólginn, að með hugmyndasamkeppni sé átt við lauslega uppdrætti, þar sem minna er unnið úr verkefnunum heldur en ef um almenna samkeppni er að ræða, því að þá sé krafizt nánari úrvinnslu verkefnisins og jafnvel fullnaðarteikninga.

Þess er jafnframt að geta, að í 3. gr. frv. er það hlutverk dómnefndar að ákveða útboðsskilmála samkeppninnar, og í þeim útboðsskilmálum mun jafnan vera tekið fram, hversu ýtarlegar teikningarnar eigi að vera. Enn fremur finna þeir að hugmyndasamkeppninni, að þeir telja, að undir hugmyndasamkeppni geti komið fram hinar og aðrar lauslegar hugmyndir, sem aðrir, t. d. opinberar stofnanir eins og skrifstofa húsameistara ríkisins, mundu ekki vilja taka að sér að framkvæma, eða hugmyndir, sem væru þannig, að þótt þær væru listræns eðlis, þá væru þær ekki nógu raunhæfar til þess, að opinberar stofnanir vildu taka að sér að framkvæma þær. Móti þessu ber t. d. húsameistari Reykjavíkurbæjar og telur, að t. d. við þær samkeppnir, sem hér hafa farið fram, hafi sú dómnefnd, sem skorið hafi úr um samkeppnina, að sjálfsögðu fleygt til hliðar þeim hugmyndum, sem hún hafi ekki talið framkvæmanlegar, og í frv. er gert ráð fyrir, að séu sérfræðingar, svo að það kæmi vitanlega ekki til greina að verðlauna þær hugmyndir, sem þættu ekki framkvæmanlegar, það fullyrða þessir menn. En þrátt fyrir það, að meiri hl. n. hefur við þessa umr. og í áliti því, sem hann hefur gefið út, verið sannfærður um, að rétt sé að mæla með frv. og er þar á sama máli og stjórn Verkfræðingafélagsins og Húsameistarafélag Íslands og telur, að frv. sé til gagns, og æskilegt, að það sé samþ. og leggi það til, þá vill meiri hl. taka tillit til þeirrar gagnrýni og þeirra aðfinnslna, sem komið hafa fram gegn frv. bæði frá vegamálastjóra og húsameistara ríkisins, og sú gagnrýni felst fyrst og fremst í því, að erfiðleikar geti verið á að framkvæma þær hugmyndir, sem aðrir eiga eða koma lauslega fram. Flytjum við því á þskj. 1110 brtt. við 3. gr. frv., þar sem við viljum kveða nánar á um þá uppdrætti, sem verðlaun hafa fengið. Með þeirri brtt. viljum við girða fyrir það, sem húsameistari, vegamálastjóri og skipulagsstjóri vilja helzt finna samkeppninni til foráttu, sem sé að þær hugmyndir, sem fram koma, séu þess eðlis, að opinberar stofnanir vilji ekki taka að sér að framkvæma þær. Að öðru leyti vil ég taka fram viðvíkjandi því, sem kveður við hjá húsameistara ríkisins og vegamálastjóra, að það geti komið fram hugmyndir, sem þeir vilji ekki framkvæma, þá tel ég, að ekki sé neinn hlutur í þessu frv., sem bendi til þess, að ætlazt sé til, að horfið sé frá þeirri venju, sem verið hefur, að þeir, sem verðlaun fá fyrir uppdrætti sína eða hugmyndir, fái sjálfir tækifæri til að framkvæma þær. Ég býst við, að svo verði eftir sem áður, þó að þetta frv. verði samþ., og er það sjálfsagt og eðlilegt. Það kemur varla til mála, að aðrir fái verðlaun fyrir uppdrætti en faglærðir menn, sem jafnframt séu færir um að vinna úr þessum hugmyndum.

Þá flytjum við tvær aðrar brtt. við frv. Eins og ég gat um, var frv. sent borgarstjóra til umsagnar, en hann leitaði umsagnar bæjarráðs, og það taldi ekki óeðlilegt, að svona samkeppni færi fram, en vildi takmarka hana við þau mannvirki, sem styrkt væru eða kostuð af ríkisfé. Ég hef gert ráð fyrir því, að með þessu frv. væri ekki ætlazt til, að lengra væri gengið en að samkeppni væri haldin við og við og þá aðeins um stærstu mannvirkin. Hins vegar munu vera fá af stórum mannvirkjum, sem reist eru í landinu, sem ekki eru að einhverju eða öllu leyti kostuð af ríkisfé. Við höfum viljað taka tillit til, þessa álits borgarstjóra og bæjarráðs og leggjum til, að frv. verði breytt þannig, að það nái aðeins til þeirra mannvirkja, sem ríkið lætur framkvæma.

Þá flytjum við þriðju brtt., og er hún fram komin samkvæmt ósk Verkfræðingafélags Íslands. Er hún á þá lund, að sá maður, sem ríkisstj. skipar í dómnefndina, skuli vera verkfræðingur eða húsameistari. Væri þá alltaf tryggt, að meiri hl. n. væru sérfræðingar. Er þá meiri trygging fyrir því, að ekki fengju aðrar lausnir verðlaun en þær, sem væru framkvæmanlegar.

Ég tel, að með brtt., sem við flytjum hér, sé gengið algerlega nægilega langt í áttina til húsameistara ríkisins, vegamálastjóra og skipulagsstjóra ríkisins og að tryggt sé, að ekki fái aðrar úrlausnir verðlaun en þær, sem væru vel framkvæmanlegar og nægilega rökstuddar.

Það hefur verið útbýtt á þessum fundi nál. frá minni hl. n., hv. þm. S-Þ. Eru þar prentaðar allar álitsgerðir, sem n. hafa borizt, og er það gott, því að þá geta hv. þm. kynnt sér þær skoðanir, sem þar koma fram á frv.

Í stuttu máli leggur meiri hl. til, að frv. verði samþ., en með þessum brtt., sem ég hef lýst. Þar er reynt að bæta úr þeim ágöllum, sem ýmsir þeir, sem gagnrýnt hafa frv., telja, að á því séu. Þetta er tiltölulega smávægilegt frv., því að eins og ég tók fram áðan, felur það ekki annað í sér en það, að stj. skuli láta fara fram samkeppni um allar meiri háttar opinberar byggingar og enn fremur reglur um, hvernig samkeppninni skuli háttað og hvernig dómnefnd skuli vera skipuð, og virðist það í alla staði eðlilegt, að slíkar reglur séu til.