21.02.1945
Efri deild: 133. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (2432)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Ég hafði í gær vikið nokkrum orðum að málinu almennt eftir ræðu hv. frsm. meiri hl. Ég hafði leitt rök að því, að það liti út fyrir, að frv. yrði algerlega óframkvæmanlegt, og benti þar á, að Reykjavíkurbær hefði ekki séð sér fært að beygja sig undir þetta. Ég hef hugsað mér undir umr. að bera fram fyrirspurn viðvíkjandi því, en að því er ég ekki strax kominn.

Ég ætla þá fyrst að víkja að frv., eins og það var borið fram af menntmn. Nd., því að það kemur ýmislegt fram í þessu máli, sem menn eru ósammála um. Ég vil skýra hv. frsm. meiri hl. frá því, að ég hygg, að nú séu komin til hv. form. n. ný mótmæli gegn þessu frv. frá kunnáttumönnum ríkisins, eða a. m. k. rök, sem hníga í þá átt. Ég geri ráð fyrir, að hv. form. n. skýri frá þessum mótmælum og lesi þau upp.

Eitt af því, sem hefur verið nokkuð erfitt að átta sig á fyrir þá kunnáttumenn, sem n. hefur leitað til, er blátt áfram tilgangur frv. Það hefur komið m. a. í ljós, og það er deiluefni milli verkfræðinga landsins og efnafræðinga, sem vinna við atvinnudeildina, og Einars Sveinssonar byggingarmeistara hjá bænum, að þessir menn haldi fram skilningi, sem virðist vera algerlega í ósamræmi við frv. Þetta hefur haft nokkur áhrif á meiri hl., svo að þeir hafa villzt af leið fyrir þetta. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, benda á, að í 1. gr. frv. segir svo, — og þó að ég beri ekkert sérstakt traust til þess, hvernig hv. frsm. skýrir lagagreinar, þá vil ég nú spyrja hann, hvernig hann vilji skýra þessa grein öðruvísi en hún liggur fyrir: „Samkeppni skal fara fram um hugmyndir, frumáætlanir og frumuppdrætti að meiri háttar opinberum byggingum og mannvirkjum, ef ráðherra eða þeim, sem verkið lætur framkvæma, þykir ástæða til, hvort sem mannvirkin eru reist af ríkinu, bæjar- eða sveitarfélögum eða af öðrum aðilum, sem njóta styrks af opinberu fé.“

Hér er ákaflega vítt svið. Það er sagt, að það skuli fara fram samkeppni, ef einhver af þessum aðilum vill svo vera láta. Nú eru sex ráðh., og allir ráða þeir fyrir ýmiss konar mannvirkjum meira og minna. Þar að auki er gert ráð fyrir í frv., að bæjar- og sveitarfélög geti þarna komið til greina og enn fremur aðrir aðilar, sem njóta styrks af opinberu fé. Þarna undir kæmu skólar, spítalar, læknisbústaðir o. s. frv. Það er þess vegna ekkert smáræði, sem hér er um að ræða, því að þær samkeppnir, sem hér er um að ræða, gætu skipt tugum á hverju ári.

Ég ætla þá næst að skjóta því til hv. frsm. meiri hl., hvernig hann vill útskýra og rökstyðja skoðun sína, þegar hann athugar, að í grg., sem einnig fylgdi frv. í fyrra, stendur svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir; að fram fari samkeppni, ef ástæða þykir til þess, um hugmyndir að öllum meiri háttar mannvirkjum, sem byggð eru fyrir opinbert fé eða njóta opinbers styrks að verulegu leyti.“

Svo kemur skýringin á þessu:

„Hér er aðeins átt við frumhugmyndir um fyrirkomulag og gerð mannvirkja, en þær eru mikilvægasta atriðið til þess, að þau megi takast vel. Þrátt fyrir það er mikill hluti hins sérfræðilega undirbúnings mannvirkisins óleystur, þótt hugmyndin að því sé fengin, en hún er sá hluti verkefnisins, sem sízt fæst með lærdómi einum.“

Hér er því búið að slá föstu, að öll opinber mannvirki verði boðin út. Það er líka sagt beinlínis, að aðeins sé um að ræða frumhugmyndir. Að vísu segja þeir, að það sé aðalatriðið. Samt er vikið að því réttilega, að mikill hluti sérfræðilegs undirbúnings sé eftir.

Það verður að játast, að þetta hefur, eins og eðlilegt er, farið fyrir brjóstið á sumum kunnáttumönnum landsins. Þess vegna er það, að Geir Zoëga segir í áliti sínu, með leyfi hæstv. forseta:

„Það virðist ekki vera tilætlunin samkvæmt frv., að t. d. ríkisstofnanir þær, er hlut eiga að máli í hvert sinn, sem samkeppni er ákveðin, láti af hendi til vinnanda í samkeppni að gera fullnaðaruppdrætti og fullnaðaráætlanir um byggingar eða mannvirki.“

Ég tek aðeins þetta eina atriði frá vegamálastjóra, af því að hann skilur þetta alveg rétt, að hér er um algerlega óvenjulega hluti að ræða, og vegamálastjóri skilur það, hvað í því mundi felast, ef ætti að láta hlutaðeigandi ríkisstofnun gera vinnuna. Þetta kemur heim við það, sem hv. flm. segja í grg., þegar þeir komast svo að orði, að mikill hluti hins sérfræðilega undirbúnings sé óleystur, þó að hugmyndin sé fengin.

Nú vil ég vekja athygli hv. form. og frsm. menntmn. á því, að þetta er alveg grunnmúruð skoðun bæði í frv. sjálfu, sem mestu skiptir, og eins í skýringum þessara mannvirkjafræðinga, sem elztir eru og reyndastir. Það er líka rökstutt af skipulagsstjóra, Herði Bjarnasyni. Þetta hefur orðið talsverður ásteytingarsteinn tveimur mönnum, Einari Sveinssyni, húsameistara Reykjavíkurbæjar, og Jóni Vestdal efnafræðingi. Þeir segja svo í áliti sínu, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar samkeppni hefur farið fram hér á landi um mannvirki, oft einhvers konar húsbyggingar, hefur aldrei verið óskað eftir fullnaðarteikningum að viðkomandi mannvirkjum, heldur aðeins frumdráttum, sem hafa átt að sýna glögglega hugmyndina um gerð þeirra og annað fyrirkomulag.“

Þeir bæta enn fremur við:

„Eins og áður er tekið fram, hafa samkeppnir farið fram hér á landi um meiri háttar mannvirki, en allt hefur verið á reiki um undirbúning að slíkum samkeppnum og skipun dómnefnda.“

Að lokum bætir Einar Sveinsson því sérstaklega við, sem sínu áliti, að hann telji það æskilegt, að sú regla verði yfirleitt viðhöfð, þegar samkeppnir um húsbyggingar fara fram og hentugar lausnir berast, að sá, sem sigur ber af hólmi, fái tækifæri til að gera fullnaðarteikningar af húsinu og sjá um byggingu þess, því að fæstum muni vera geðfellt eða fara vel úr hendi að framkvæma hugmyndir annarra húsameistara.

Ég held, að hv. form. og frsm. hafi ekki áttað sig á þessu, að einn húsameistari, sem hefur mælt með þessu að parti til, að vísu ekki fyrir sig eða Reykjavíkurbæ, hefur beinlínis komizt svo skarplega að orði, að hann álítur beinlínis óframkvæmanlegt að vinna eftir frv. eins og það er.

Ég hef álitið rétt að taka þetta fram, sérstaklega vegna hv. meðnm. minna, sem mér virðist eiga eftir að kynna sér þessi gögn, þrátt fyrir þá vinnu, sem þeir hafa lagt í þetta mál.

Til þess að slá föstu, hvernig er litið á þetta mál, þá vil ég lesa upp úr áliti Einars Sveinssonar. Hann vill undir öllum kringumstæðum, að þegar samkeppni fer fram, þá sé það gert í fullri alvöru, en ekki hugmyndasamkeppni. Aftur á móti segja flm. frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Það er ekki tilgangurinn með frumvarpi þessu að útiloka áðurnefnda starfsmenn frá því að koma hugmyndum sínum um hin ýmsu opinberu mannvirki á framfæri, heldur er beinlínis ætlazt til þess, að þeir taki þátt í slíkri samkeppni, eins og við verður komið.“

Í stuttu máli: Þeir ætlast til þess, að ýmsir starfsmenn ríkis og bæja taki þátt í þessum samkeppnum, en það er eins og þeir ætli sér að fá eitthvert nýtt líf inn í þessi mál með samkeppninni, því að síðan halda þeir svo áfram:

„Þrátt fyrir það er sú hætta fyrir hendi, að úrlausnir þeirra, sem árum saman hafa unnið að sams konar mannvirkjum, geti orðið vanabundnar og einhæfar, ef um enga samkeppni er að ræða.

Tilbreytingarleysi í þessum efnum sljóvgar auk þess mjög dómgreind og fegurðartilfinningu alls almennings á hinu verklega sviði.“

Af þessu nál. sést ljóslega, að það er óskað eftir framkvæmdum, sem enginn maður hjá bæ eða ríki vill taka þátt í. Þeir segja, að starfsmenn ríkisins, sem lengi hafa verið fastir við sama verk, séu svo sljóir og vanabundnir og verk þeirra séu svo ófullkomin og spilli smekk og dómgreind manna. Þess vegna liggur það í augum uppi, og ég er undrandi á, að hv. frsm. meiri hl. skuli ekki hafa séð það; að í frv. er ætlazt til, að fjöldi mannvirkja verði boðinn út á ári hverju til að fá bjarglegar hugmyndir, til þess að allt verði ekki of sljótt og vanabundið! Svo á að kasta þessum uppdráttum í fangið á einhverri teiknistofu hjá bæ eða ríki, og þeir eiga að leggja fram þessa sérfræðilegu kunnáttu. Það, sem er meiningin hjá hv. flm., er þetta: Einar Sveinsson er orðinn svo ákaflega ófullkominn af að vinna hjá bænum, og Guðjón Samúelsson er orðinn óhæfilega vanafastur af að vinna hjá ríkinu, hafnargerðirnar hjá Emil Jónssyni eru ákaflega lélegar og sömuleiðis brýrnar hjá Geir Zoëga, og þess vegna eiga þeir nú að fara að framkvæma aðfengnar hugmyndir og fá við það nýtt andlegt líf. En gallinn er bara sá, sem nú er að koma í ljós við meðferð þessa máls, að það er ómögulegt að koma þessu nýja lífi í höfuðin á þeim, sem eiga að gera þetta, því að þeir lýsa því yfir með þeim skörpustu orðum, sem hæfir að hafa í áliti frá opinberum starfsmanni, sem er fullkomlega kurteis, að þeir vísi þessu með öllu á bug og þeir geti ekki lagt það á sig, sem hér sé ætlazt til. Af hálfu Reykjavíkurbæjar er þetta ákaflega glöggt og áberandi. Húsameistari bæjarins segir í áheyrn n., að hann mundi alls ekki vilja vinna úr svona verki. En svo vill svo vel til, að þetta kom enn greinilegar fram hér í d. í gær, því að þá lýsti borgarstjórinn yfir, að bæjarráðið hafi ekki séð sér fært að þola, að þetta væri viðhaft gagnvart Reykjavík. Þetta varð til þess, að meðnm. mínir sáu sér ekki annað fært en að leggja til að taka Reykjavík út úr og önnur bæjar- og sveitarfélög, og af því að þetta er nokkuð flækt í frv., þá hafa orðið nokkur missmíði á því við það, og hafa þeir nú beðið um, að það verði lagfært við 3. umr., því að þótt þeir hafi tekið þetta út úr 1. gr., þá er einnig talað um bæjar- og sveitarfélög í 2. gr.

Nú er það satt að segja furðulegt, að hin ágæta menntmn. Nd. tekur við þessu frá mönnum alveg út í bláinn, sem virðast vera öllu svo gersamlega ókunnugir, að það er eins og þeir sjái ekki, að þar rekur sig eitt á annars horn, eins og hefur nú komið greinilega fram af því áliti, sem komið hefur frá Reykjavíkurbæ og öllum helztu sérfræðingum landsins, sem þetta snertir. Það hefði verið mikils virði fyrir menntmn. Nd., ef hún hefði haft sama háttinn á og n. í Ed. að leita til þeirra aðila, sem þetta snertir, og þá hefði þetta orðið allt öðruvísi, en í staðinn fyrir það hefur n. ekki leitað til neinna, heldur aðeins látið prenta upp grg., sem fylgdi frv. í fyrra, og gerir hana þar með að sínum orðum án allra aths. En þó að n. hafi ekki sýnt þessa sjálfsögðu og nauðsynlegu varfærni, þá hefur hún samt fengið bréf, ófullkomið að vísu, frá Verkfræðingafélaginu. Það er dagsett fyrir einu ári, 22. febr. 1944. Þar kemur eitt fram, sem virðist vera mjög einkennilegt, og ég er undrandi yfir, að form. menntmn., hv. 2. þm. Árn., skuli ekki hafa veitt því eftirtekt, að þetta merkilega mál hefur alls ekki verið borið undir stjórnarfund í Verkfræðingafélaginu, því að í álitinu segir svo: „Það er sameiginlegt álit stjórnarmanna Verkfræðingafélagsins“ o. s. frv: Þeir, sem skrifa undir þetta, eru þrír, einn er efnafræðingur, annar rafmagnsfræðingur, og þeir eru allir úti á þekju um þessi mál, en sá þriðji er verkfræðingur, Árni Pálsson, enda má gera ráð fyrir, að frá honum séu ýmsar skynsamlegar aths., sem fram koma í álitinu. Þar er sagt, að mjög séu skiptar skoðanir um það, hversu mikið gagn sé af slíkri samkeppni yfirleitt, og það er enn fremur tekið fram, að fyrir geti komið, að í samkeppninni komi ekki fram lausn á viðfangsefninu. Þeir fullyrða, að þetta eigi sér oft stað, og bæta því við, að þetta rýri óneitanlega gildi samkeppninnar. En jafnvel þetta ófullkomna bréf frá Verkfræðingafélaginu sýnir þó, hvernig haldið hefur verið á þessu máli. Það hefur ekki verið borið undir fund í félaginu, heldur hefur þar verið farið á bak við þá Emil Jónsson og Geir Zoëga og aðra, sem mestan kunnugleika hafa á þessum málum. Það má einnig segja um þetta ófullkomna bréf, að þar séu meira mótmæli en meðmæli með málinu. En það, sem er allra merkilegast í þessu áliti, er það, að það er eins og þessir menn hafi ekki áttað sig nokkurn skapaðan hlut á því, hvað var aðalatriðið í þessu máli. Þeir segja, að á undanförnum árum hafi öðru hverju verið efnt til slíkrar samkeppni og megi þar t. d. nefna samkeppni um byggingu sjómannaskólans, um aukningu síldarverksmiðja ríkisins á Siglufirði og Raufarhöfn, samkeppni um byggingu hinnar nýju Neskirkju o. s. frv. Þetta er svo fjarri sanni, því að þær samkeppnir, sem hér eru nefndar, voru gerðar í fullri alvöru og með fullri ábyrgð. Það fór líka svo, að upp úr samkeppninni um sjómannaskólann tók Sigurður Guðmundsson að sér verkið, og byggingu hinnar nýju Neskirkju tók Ágúst Pálsson að sér, og síldarverksmiðjuna á Siglufirði tók Jón Gunnarsson að sér.

Ég vil skjóta því til hv. frsm., hvort það geti ekki verið, að hann hafi aðstoðað þá, sem að þessu stóðu, og þeir hafi reynt að koma þessu í gegn sem hljóðminnst og þeir hafi ekki borið þetta upp við Geir Zoëga eða Emil Jónsson, en haft við þetta menn, sem eru myndarlegir á sinn hátt, en hafa ekki nægilega kunnáttu á þessu. Um sama leyti var svo leitað til húsameistara ríkisins, og skrifaði hann bréf, sem er dagsett 25. jan. Í þessu bréfi eru mjög merkilegar upplýsingar, sem ég álít, að frsm. meiri hlutans hafi gott af að athuga betur. Þar segir húsameistari ríkisins, með leyfi hæstv. forseta: „Hugmyndasamkeppni á þeim grundvelli, sem um ræðir í fyrrnefndu frv., veit ég ekki, að tíðkist í nokkru landi.“

Þetta hefur ekki verið rakið, og ekki hefur verið reynt að færa rök að því, og þess vegna á eftir að útskýra það, hvers vegna við, með okkar tiltölulega fábrotnu verkmenningu, getum staðið okkur við það að taka upp skipulag, sem engin þjóð önnur hefur séð sér fært að taka upp.

Húsameistari ríkisins bendir enn fremur á það, sem er alveg rétt, að ef þetta skipulag verður tekið upp, þá yrði að segja upp vegamálastjóra, húsameistara og vita- og hafnarmálastjóra, því að þeir hafa þá ekkert að gera. Og vegna þessa gefur hann þær upplýsingar, að árið 1942 hafi öll húsameistarastörf, sem unnin voru á teiknistofu húsameistara, verið 230 þús. kr., og er það eftir húsameistarataxta, en kostnaður við teiknistofuna var 125 þús. kr., og þó voru unnin mörg önnur verk, eins og hann tekur fram. Þess vegna er það, a. m. k. á þeim tímum, þegar ekki glóir allt í gulli, að þetta er verulegt atriði.

En húsameistari bætir enn fremur við, að húsameistarastörf við aðeins eitt hús af mörgum, Háskólann, hefði kostað 130 þús. kr. Á þeim tíma, þegar byrjað var á byggingu Háskólans, hafði byggingarn. fullkomlega auga á þessu, en henni þótti nokkuð dýrt að leggja út í að borga prívat húsameistara eftir þeim taxta, sem þá var. Ein af stærstu byggingum hér á landi, Flensborgarskólinn, sem var byggður nokkru fyrir stríð undir umsjón húsameistara ríkisins, kostaði þá nákvæmlega jafnmikið og hefur orðið að borga þeim húsameistara, sem stýrir byggingu stýrimannaskólans.

Þetta er aðeins peningahliðin, og því vil ég skjóta því til hv. 2. þm. Árn., sem réttilega hefur bent á það við umr. um annað mál, að þörf sé á því að koma upp sjúkrahúsum og læknisbústöðum, sem mjög vantar, hvort honum finnist ekki erfitt að koma þessum stofnunum upp, ef það á að leysa byggingaeftirlitið upp á þann hátt, að allar byggingar komist undir einkaframtakið, eins og Einar Sveinsson vill að verði, og borgað verði eftir húsameistarataxta. Það er glöggt, að sjómannaskólinn einn kostar eins mikið í húsameistaravinnu eftir taxta og Flensborgarskólinn.

Ég kem þá að þeim víðtæka undirbúningi, sem var í Nd., að bréfi, sem var skrifað 14. jan. 1944, það er Húsameistarafélag Íslands, sem stendur að bréfinu, og vil ég með leyfi hæstv. forseta lesa það: „Húsameistarafélag Íslands hefur á almennum félagsfundi þann 6. jan. tekið til umræðu frv. um samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum, og var einróma samþ. að mæla með frv. óbreyttu, að öðru en því, að æskilegt þykir, að ákveðið verði, af hvaða fé greiða skuli kostnað við samkeppnina, hvort hann skuli greiða af fé því, er sjóðir ríkis, bæja eða sveita leggja til mannvirkisins, eða öðru fé. Og virðist æskilegt, að þetta sé greitt af þeim hluta, er opinber sjóður leggur til.“

Við skulum athuga þetta bréf nánar. Í þessu félagi eru ekki nema fáir menn, og það er vitað, að þegar þetta var samþ. einróma, var húsameistari ríkisins ekki þar, hann er þar víst lítið eða ekki neitt, og þeir menn, sem að þessu standa, eru líklega 5–6, fleiri gátu varla verið þar, og flestir hafa sérstakra hagsmuna að gæta. Þeir eru flestir bráðungir menn, og ef frá er talinn Sigurður Guðmundsson, er enginn, sem fengið hefur meiri háttar reynslu, og sumir ákaflega litla. Nú skyldi maður halda, að þegar borið er undir þá svona mál, þá mundu þeir segja eitthvað, sem upplýsti málið. En þeir taka aðeins það, sem er allra þynnst og lélegast í þessu efni. Það snýst um það, hvaða peninga dómnefndarmenn geta fengið upp úr þessu; þeir sjá ekki annað en atvinnu fyrir sig og sína stétt. Það er spaugilegt, að þeir vilja, að frv. gangi fram óbreytt, nema það þurfi að taka fram, af hvaða fé eigi að greiða kostnaðinn við þetta, hvort það eigi að vera ríkis-, bæjar- eða sveitarsjóðir eða þá annað fé. Og svo kemur síðasta snjallyrðið; þeir óska eftir því, að opinberir sjóðir verði látnir greiða það. Nú er hv. 2. þm. Árn. málhagur í bezta lagi, og nú vil ég óska eftir því, að hann skýri, hvað opinber sjóður er. Hvernig er þetta komið í málið? Er þetta nýyrði? Það eru til bæjarsjóðir, sveitarsjóðir, sýslusjóðir og byggingasjóðir. (GJ: Ætli það sé ekki varasjóður Sambandsins?) Það er leitt fyrir hv. þm. Barð. að hafa ekki gengið fram í að leiðrétta skattalögin, svo að þessi virðulega stofnun gæti tryggt sér varasjóð, sem forráðamenn fyrirtækisins vildu, ef löggjöfin leyfði það. Þó að hv. þm. Barð. sé ekki reyndur að jafnmiklum mályfirburðum og flokksbróðir hans, þá er hann af skáldaættum og kannske skáld sjálfur, svo að það mundi gleðja mig, ef hann vildi segja álit sitt um þennan opinbera sjóð, hvernig fyrirtæki hann er.

Ég vildi leyfa mér að vonast eftir, að hv. frsm. meiri hl., sem er bókmenntafróður maður og elskur að bókmenntum, viðurkenni, að það sé vel viðeigandi þessi tilvitnun, sem ég vil gera úr leikriti Ibsens, að þessi grg. húsameistaranna minni á sjómanninn, sem var að drukkna og ætlaði að byrja á faðirvorinu, en mundi ekki nema þetta, sem viðkom hans líkamlegu velferð, eins og þessir húsameistarar, sem hér hafa verið okkur til aðstoðar.

Áður en ég kem að nál. minna tveggja meðnm., sem ýmislegt er að athuga við, þá ætla ég að koma að þeim mörgu skjölum, sem eru ávöxtur af vinnu n., og er þar margt að þakka formanni n., sem hefur dregið að n. bæði munnlegar og skriflegar upplýsingar. Ég álít, að það fari vel á því, að þessi d. og jafnvel hin d. fengju að sjá þennan vitnisburð, sem ég held að upplýsi málið.

Af þessum skriflegu gögnum, þá er nú fyrst númer eitt, frá vegamálastjóra, og hef ég áður vikið að því, að honum er það ljóst, að frv. stefnir að annarri samkeppni en hann telur framkvæmanlega. Ég ætla þá að snúa mér að hv. 2. þm. Árn., sem hefur eins og eðlilegt er mikinn áhuga fyrir endurbyggingu Ölfusárbrúarinnar, sem er verk, sem vegamálastjóri og hans starfslið er að glíma við. Ef þetta frv. hefði orðið að 1., þá var hugsanlegt, að samgmrh., sem þetta heyrir undir, segði sem svo: Ég trúi nú þessum flm. um það, að Geir Zoëga sé orðinn sljór og vanabundinn af 25 ára starfi hjá ríkinu, og þess vegna tel ég sjálfsagt að hafa um þetta hugmyndasamkeppni, ef skeð gæti, að þessir starfsmenn gætu fengið aukið andlegt fjör. Nú veit hv. 2. þm. Árn., að það er talið nauðsynlegt fyrir þessa nýju brú að hafa einn stöpul a. m. k. Og honum er það enn kunnugra en mér, þó að mér sé það sæmilega kunnugt, að ekki er sama, hvar þessi stöpull er, vegna þess að partur af ánni er djúpur. Nú skulum við segja, að samgmrh. legði mikla áherzlu á það, að þessi brú yrði falleg, með mörgum bogum, svo að þeir, sem þarna kæmu, hefðu ánægju af að horfa á hana. Svo byði hann þetta út, og þá kæmu t. d. málarar okkar og gerðu uppdrátt af brúnni. Svo kæmi til kasta dómnefndarinnar, og hún sæi, að ein teikningin bæri af öðrum að fegurð, og svo væri hún send vegamálastjóra með þeim ummælum, að þetta væri svo fallegt. Þá kæmi vegamálastjóri, kannske strax, með fyrstu mótbáruna um það, að einhver af þessum stöplum væri í dýpsta hylnum í ánni og hann sæi, að þetta væri mjög lítt framkvæmanlegt. Svo kemur það, sem ég ætla að spyrja hæstv. forsrh. um: Mundi það varða embættismissi fyrir Geir Zoëga, ef hann neitaði að framkvæma þetta, af því að hann sæi, að þetta væri endileysa?

Geir Zoëga hefur tekið fram, að ef það eigi að vera nokkurt minnsta vit í samkeppninni, þá verði að leggja í þetta svo mikla vinnu, og t. d. með brýr og annað, sem mikið reynir á styrkleikann, yrði að fá nákvæmlegan útreikning. Af því leiðir, að það verður að eyða miklu fé í þessi útboð, vegna þess að ekki er hægt að fá þessa vinnu gerða nema með miklum kostnaði. Þetta hafa hv. flm. ekki skilið, því að þeir hugsa, að þetta sé ekki nema frístundakák hjá listrænum mönnum að setjast niður og teikna hús, söfn og önnur mannvirki, og fá sér þannig viðbót við mánaðarlaunin með verðlaununum, sem yrðu veitt fyrir þetta.

Þá víkur vegamálastjóri að því, að flm. frv. hafi ætlazt til þess, að starfsmenn á teiknistofunum tækju þátt í samkeppninni. Ég tel vandkvæði á því, að þeir geti gert það, enda er ekki þægilegt að vinna á opinberri skrifstofu að slíku verkefni, sem ekki á að koma fyrir margra augu á meðan unnið er að því. Ég hygg, að bæði formaður n. og flm. hefðu gott af að athuga þessi rök. Við skulum halda okkur við það, að vegamálastjóri hafi fyrirskipað samkeppni að brú. Á skrifstofu vegamálastjóra eru langflestir þeir menn íslenzkir, sem eru hæfir til að gera brú. Það er að vísu einn duglegur maður, sem lengi vann á skrifstofu vegamálastjóra, en hefur nú einkafyrirtæki, og hann gæti tekið þátt í samkeppninni. Aðrir aðilar, sem hafa æfingu, eru starfsmenn á skrifstofunni, og svo segir vegamálastjóri, að það sá ómögulegt, að þeir taki þátt í því. Sama er t. d. um hafnir. Það eru ekki mjög margir aðrir en þeir, sem vinna á hafnarskrifstofunni, sem gætu unnið að þeim.

Ég var nýlega að tala við vestur-íslenzkan verkfræðing, Árna Eggertsson. Hann segir, að það sé siður hjá þeim fyrir vestan, að þegar ungur maður er búinn að ljúka námi, þá sé ætlazt til þess, að hann vinni í 10 ár á skrifstofu við rafmagnsmál, húsabyggingar eða hvað sem er, áður en hann gæti staðið fyrir stórum mannvirkjum. Mér kom þetta í hug um sjúkrahúsið á Akureyri, sem á að verða hér um bil eins stórt og Landsspítalinn. Það er algerlega útilokað um marga af þeim mönnum, sem eru í Húsameistarafélaginu, að þeir geti gert þetta hús, þó að þeir seinna meir geti fengið þá æfingu og reynslu, sem þarf til þess.

Ég held, að óhætt sé að fullyrða, að undirmenn á skrifstofu húsameistara telji sér ekki fært að taka þátt í svona samkeppni. Það væri spaugileg aðstaða, ef það væri hafnarmannvirki úti á landi, sem væri boðið út, og svo ynni kannske byrjandi á vitamálaskrifstofunni verðlaunin, og svo yrði Emil Jónsson, sem þá væri kominn heim aftur úr ríkisstj. og tekinn við aftur, að taka verðlaunahugmynd viðvaningsins á teiknistofunni og sjóða upp úr henni.

Vegamálastjóri tekur enn fremur fram, að hugmyndasamkeppni hafi verið lögleidd í kringum 20 ár í landinu, að því er viðkemur skipulagi kaupstaða. Þessi heimild að hugmyndasamkeppni er um það, hvar eigi að leggja götur og torg, og þetta er atriði, sem leikmenn geta áttað sig á. Og er skemmst að segja frá því, er Kjarval stakk upp á mjög skemmtilegri hugmynd fyrir nokkrum árum. Eftir að Hótel Reykjavík brann, stakk hann upp á því, að Reykjavíkurbær keypti þennan grunn og byggði þar timburhús 1–2 hæðir og leigði þau fyrir íbúðir. Léti svo íbúðirnar vinna fyrir lóðarverðinu í 10–20 ár, rifi svo þessi timburhús og léti Austurvöll ná að Landsbankanum, og þó fékk Kjarval engin verðlaun fyrir þetta, en mörgum finnst æskilegt, að þetta hefði verið tekið til greina. En þó að þetta standi í skipulagsl., þá er það aldrei notað, — það óskar enginn eftir því.

Þá tekur vegamálastjóri fram það, sem ég held, að ekki sé gott að mótmæla, að bæði Reykjavíkurbær og ríkið hafa í sinni þjónustu eins færa sérfræðinga og völ er á hér á landi og ekki aðeins það, heldur hafa þessir menn fengið mikla æfingu við störf sín. Það er þess vegna í sjálfu sér alveg öfugt við það, sem haldið er fram í nál. og athugasemd við frv. Það er vitað, að það hafa ekki komið fram neinar nýjungar í byggingamálum, nema helzt frá starfsmönnum ríkisins. Ég vil taka það fram, að þegar gamli stúdentagarðurinn var reistur af einum af færustu mönnum, sem ekki eru í þjónustu ríkisins, þá þekktu menn ekki aðra húðun en sementshúðun. Þessi húsameistari fékk svo steinduft frá Noregi og kalkaði með því stúdentagarðinn. En rétt á eftir gerir húsameistari ríkisins þessa merkilegu uppgötvun, sem hefur alveg umturnað til betri vegar byggingum og meira að segja girðingum í Reykjavík og kaupstöðum, með því að nota íslenzkar steintegundir til þess að skapa slitlag á byggingar. Þetta er svo merkileg uppgötvun, að það er skaði, að það skuli ekki hafa verið athugað betur, hvers virði það er, að slík uppgötvun var gerð, því að áður en þetta var gert, neyddust menn til þess, bæði í kaupstöðum og sveitum, að mála eða kalka húsin að utan.

Þetta hefur endað á þann hátt, að það hefur verið talað um það til skiptis að byggja safnhús sem stórkostlegt minnismerki fyrir bæinn og landið.

En ef aftur á móti hefði verið til þessi tækni, sem einn af starfsmönnum ríkisins hefur innleitt, þá hefði þetta hús haldið svipuðum lit eins og er á háskólabyggingunni nú og landinu verið sparað mikið fé og bænum aukizt álit. Ég vil, til þess að benda meðnm. mínum á, að það er eitthvað bogið við þessa röksemdaleiðslu, segja þeim, að starfsmenn ríkisins eru svo óvissir í sínu starfi, að t. d. í einni byggingu, háskólanum, eru a. m. k. 12 íslenzkar steintegundir, sem einn af þessum þreyttu starfsmönnum hefur innleitt til mikils sparnaðar fyrir bygginguna. Og þótt vitamálastjóri segi svo í niðurlagi álits síns, að hann sjái enga þörf á því að hafa nokkra lagasetningu í þessu efni varðandi samskipun húsa, sem eigi að gilda, þá hefur hún verið framkvæmd hér nokkrum sinnum, og það hefur ekkert verið út á það að setja í dómnefnd, enda ekkert í þessum fyrirmælum, sem ætti að vera til ógagns fyrir ríkisstj. að taka upp. Enn fremur vil ég benda hv. frsm. meiri hl. á það, að það kom fram í ræðu hans í gær, að Húsameistarafélagið og Verkfræðingafélagið geta vel sett upp, í fullu samráði við stj., hvernig eigi að framkvæma verklega samskipun, og þá á þeim grundvelli, sem tíðkast erlendis, þar sem félög kunnáttumanna hafa komið þessari reglu á, en ríkið ekki skipt sér af því.