23.02.1944
Neðri deild: 17. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 153 í B-deild Alþingistíðinda. (244)

27. mál, skipun læknishéraða

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. — Ég hef leyft mér að flytja hér brtt. við frv. það, sem hér liggur fyrir um skipun læknishéraða, og er brtt. á þskj. 72. Efni hennar er það, að stofnað verði nýtt læknishérað á Snæfellsnesi sunnanverðu, og skulu því læknishéraði tilheyra þrír hreppar, Miklaholtshreppur, Staðarsveit og Breiðavíkurhreppur.

Læknishéraðaskipuninni á Snæfellsnesi er þannig háttað, að tveir læknar eru þar, annar í Stykkishólmi, en hinn í Ólafsvík. Á sunnanverðu Snæfellsnesi er hins vegar ekki læknir til, en íbúarnir þar verða að sækja lækni norðan yfir erfiðan fjallgarð, og er á þeim fjallgarði snjóþungt í hörðum vetrum. Tveir syðstu hrepparnir í sýslunni tilheyra Borgarneshéraði. Þriðji hreppurinn, Miklaholtshreppur, tilheyrir Stykkishólmshéraði, en Breiðavíkurhreppur og Staðarsveit tilheyra Ólafsvíkurhéraði. Um langan aldur hefur verið rætt um nauðsynina á því að stofna nýtt læknishérað á sunnanverðu. Snæfellsnesi, og það hefur við mikil rök að styðjast, að svo sé gert, — fyrst og fremst þau, að oft er nær ógerningur að ná til læknis yfir þennan snjóþunga og örðuga fjallgarð. Þetta hefur oft komið að sök, og þarf ekki að fara mörgum orðum um það mál.

Fyrir réttu ári flutti ég frv. í þessari hv. d. um stofnun nýs læknishéraðs á sunnanverðu Snæfellsnesi. Það gekk að ,því leyti lengra en till. mínar nú, að í því var ætlazt til, að Kolbeinsstaðahreppur og Eyjahreppur, sem tilheyra Borgarneshéraði, féllu undir þetta nýja læknishérað, sem lagt var til, að stofnað yrði. En nú er farið fram á, að einungis þessir þrír hreppar, sem í brtt. á þskj. 72 eru greindir, myndi nýtt læknishérað, en Kolbeinsstaðahreppur og Eyjahreppur verði áfram með Borgarneshéraði. Þessu frv: í fyrra var vísað til ríkisstj. í trausti þess, að hún léti athuga málið og leita tillagna landlæknis um það. Þessi athugun fór svo fram á s.l. sumri með þeim hætti, að landlæknir hafði fund með oddvitum í fimm hreppum á þessum stað. Og niðurstaðan á þessum fundi, eftir því sem hann taldi í bréfi til stjórnarráðsins, varð sú, að oddvitarnir í Staðarsveit og Breiðavíkurhreppi hefðu óskað eftir læknishéraðsstofnun á þessum stað, tveir oddvitarnir, sem sé í Kolbeinsstaðahreppi og Eyjahreppi, hefðu óskað eftir að vera áfram í Borgarneshéraði, en fimmti hreppurinn, Miklaholtshreppur, hefði látið þetta nokkuð hlutlaust, þó verið heldur á móti því. — Í tilefni af þessu bréfi landlæknis ritar svo forsrh. Björn Þórðarson, bréf, þar sem hann leggur á móti því, að þetta læknishérað verði stofnað. — Ég vil minna á þetta til þess að rekja gang þessa máls á síðasta ári. — En þetta bréf endar á þeim orðum, að forsrh. varar við því að vera að sinna slíkum frv. og nefnir í sambandi við það frv., sem ég flutti í fyrra. Niðurlag þessa bréfs er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef frumvarpið hefði orðið að lögum á síðasta þingi án frekari athugana, hefði ríkissjóði þar með verið bundinn tuga þúsunda baggi, en sennilega til þess eins að auka á erfiðleika hlutaðeigenda í stað þess að bæta úr þeim, enda í fullkominni óþökk mikils hluta þeirra, eftir því sem nú er upplýst.“

Mér þykir ekki verða hjá því komizt að minna á þetta hér, til þess að það upplýsist á Alþ., að hér er farið með algerlega rangt mál af hálfu landlæknis, sem ég býst við, að stjórnarráðið hafi byggt fullyrðingar sínar á.

En tilefni frv. þessa í fyrra og till. minna nú eru eindregnar óskir manna þarna vestra. Almennur hreppsfundur var haldinn að Arnarstapa, og þar var samþ. að óska eftir því, að stofnað yrði læknishérað þarna vestra, eins og ég flutti frv. um. Og áskoranir hafa verið gerðar þar, og margar kröfur hafa verið þar samþ. um þetta. Ég held, að hægt sé að segja með sanni, að þessu frv. hafi ófyrirsynju verið vísað frá í fyrra. Hins vegar hef ég ástæðu til að ætla, að landlæknir hafi lagt þetta mál fram fyrir þessa fimm oddvita þannig, að það hafi ekki verið gert alveg hlutlaust. Hann mun hafa lagt það þannig fyrir að halda því fram, að ætti að stofna þetta læknishérað, þá þyrfti að reisa þarna læknisbústað þegar í stað, sem kostaði 100–200 þús. kr., og af því mundu héraðsbúar verða sjálfir að greiða 100 þús. kr. En þó að þeir gerðu það, þá mundu þeir sennilega engan lækni fá í þann bústað, svo að þeir yrðu þá sennilega að sitja uppi með læknisbústaðinn læknislausan og fá enga vexti af fé því, sem bundið væri í honum. Af þessu hygg ég að tveir af oddvitunum hafi lagzt á móti þessu. Ég vil líka taka fram, að áður en þessi fundur landlæknis var haldinn, hafði oddvitunum ekki gefizt tækifæri til þess að ráðgast við hreppsbúana um málið. Og ég varð þess var á leiðarþingum s.l. sumar, að það komu fram eindregnar kröfur og óskir um, að þetta læknishérað yrði stofnað. Og oddviti Miklaholtshrepps, sem var á móti þessari nýju læknishéraðsstofnun, eftir því sem landlæknir sagði, mælti í sumar eindregið með því, þegar ég var þar vestra, að þetta nýja læknishérað yrði stofnað. Ég get því ekki tekið ákaflega alvarlega þennan fund, sem landlæknirinn hefur haldið með oddvitunum þarna vestra, án þess að þeir gætu ráðfært sig við hreppsbúa sína. Og ég hygg, að manni verði ekki láð það, þó að maður kveinki sér við að taka þessi orð landlæknis sem guðsorð.

Ég hef flutt þessa brtt., sem hér liggur fyrir, vegna þess að ég er sannfærður um, að það sé aðkallandi nauðsynjamál, að þetta læknishérað verði stofnað, og vegna þess að ég veit, að sú mynd, sem landlæknir hefur dregið upp af þessum fundi, er þannig, að ummæli hans gefa ekki rétta mynd af vilja héraðsbúa sjálfra.

Að því er snertir bréf þetta, sem Alþ. var sent og undirritað af forsrh., en samið af eða a.m.k. eftir upplýsingum frá landlækni, þá er það ekki rétt, sem sagt er þar, að læknishérað þetta, ef stofnað yrði, mundi verða stofnað gegn vilja meginþorra íbúanna, því að það liggur fyrir, að tveir langfjölmennustu hrepparnir af þessum fimm óska eindregið eftir, að þetta læknishérað verði stofnað.

Um nauðsynina á stofnun þessa héraðs skal ég fáu bæta við það, sem ég tók fram í upphafi þessa máls, en það eru fyrst og, fremst þeir gífurlegu erfiðleikar á að ná til læknis, sérstaklega fyrir íbúa Breiðavíkurhrepps. Bílvegur er að vísu yfir Fróðárheiði, en þrjá fjórðu hluta ársins er ekki hægt að komast á bílum þessa leið, og þá verða íbúar héraðsins að sækja á hestum norður yfir Fróðárheiði, sem er erfiður og snjóþungur fjallgarður. Um þetta farast Breiðvíkingum þannig orð í áskorun þeirri, er frá þeim kom, sem var tilefni þess, að ég flutti áminnzt frv. fyrir tæpu ári:

„Á almennum hreppsfundi, sem haldinn var á Arnarstapa 16. jan. 1943, var samþykkt að fara þess á leit við þingmann kjördæmisins, að hann beiti sér fyrir því á því þingi, sem nú situr, að stofnað verði nýtt læknishérað sunnan Snæfellsnesfjallgarðs og nái yfir Hnappadalssýslu og einnig Staðarsveit og Breiðavíkurhrepp í Snæfellsnessýslu.

Ástæðan fyrir þessari beiðni er sú, að mestan hluta vetrar er miklum erfiðleikum bundið að ná í lækni í Ólafsvík og í mörgum tilfellum alveg útilokað. Nútímakröfur hljóta að vera þær, að enginn þjóðfélagsþegn sé svo í sveit settur, að staðhættir varni honum þess að ná til læknis í lífsnauðsyn. Þessu ástandi höfum við orðið að lúta frá ómunatíð, og mælir engin sanngirni með því, að við slíkt verði búið áfram.

Ólafur Benediktsson, fundarstóri

Haraldur Jónsson, fundarskrifari.“

Af þessu bréfi virðist augljóst, að óskin um, að stofnað verði nýtt læknishérað á Snæfellsnesi sunnanverðu, sé á rökum reist. — E.t.v. kemur sú mótbára upp gegn því, að þarna verði stofnað nýtt læknishérað, að það yrði fámennt hérað. En svo mundi ekki verða. Í héraðinu, eins og ég hafði hugsað það, með þessum fimm hreppum sunnan fjalls, mundu verða tæplega 1000 manns. En samkv. heilbrigðisskýrslum eru 13 læknishéruð fámennari en það. Ef Kolbeinsstaðahreppi og Eyjahreppi er sleppt, þá mundi verða hátt á sjöunda hundrað manns í héraðinu, og þó væru til nokkur læknishéruð fámennari en það, svo að þetta fámenni héraðsins eru ekki rök, sem hægt er að fallast á. — Í sambandi við fjölmenni eða fámenni þessa héraðs má líka benda á það, að í þessu frv., sem hér liggur fyrir, er lagt til að stofna Bakkagerðislæknishérað, þar sem eru ekki nema um 300 íbúar. Það er að vísu að nafninu til talið, að um 350 manns mundu verða í því héraði að meðtöldum þeim 40–50 íbúum Loðmundarfjarðar, sem talað er um að hafa með í því héraði, en þó þannig, að þeir eigi að eiga tilkall til læknis á Seyðisfirði. Þarna yrðu því þannig strangt tekið 300 manns í þessu héraði, en í því héraði hins vegar, sem ég legg til, að stofnað verði þarna vestra, eru hátt á sjöunda hundrað manns. Ég legg til í brtt., að Miklaholtshreppur eigi eftir sem áður að eiga tilkall til héraðslæknisins í Stykkishólmshéraði, og ástæðan til þess er sú, að það getur, jafnvel um hásumar í bezta færi, staðið svo á, að Miklaholtshreppingar eigi eins auðvelt að sækja lækni til Stykkishólms eins og lækninn í sínu héraði, ef t.d. læknirinn í héraði þeirra yrði annars staðar.

Ég sé ekki ástæðu til að fresta því að samþ. skiptingu læknishéraðs þarna vestra vegna ónógs undirbúnings, þar sem málið hefur fengið undirbúning ríkisstj. og landlæknis, þó að hann hafi verið á annan veg en ég hefði óskað og gefi ekki rétta mynd af vilja héraðsbúa þar. Og þó að þessi brtt. við frv., sem ég hef borið hér fram, verði samþ., þá ætti það ekki að verða til þess að stofna frv. í háska. Alþ. er ekki svo fljótt að ljúka störfum að þessu sinni, því að vitanlegt má telja, þegar litið er til afgreiðslu skilnaðarmálsins og stjskrmálsins, að Alþ. muni nú standa í eina eða tvær vikur enn að þessu sinni. Það geta því ekki verið rök fyrir því að ganga á móti brtt., að frv. sé í háska stefnt með því að samþ. hana.