28.02.1945
Efri deild: 138. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í C-deild Alþingistíðinda. (2442)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Eiríkur Einarsson:

Það er nú orðin svo löng umr. um þetta mál, að þó að ég væri búinn að kveðja mér hljóðs, hefði ég í rauninni getað horfið frá því að taka til máls, ef einnig aðrir hefðu gert slíkt hið sama. En ég býst ekki við, að um það sé að ræða, svo að það er rétt ég segi þá fáein orð um það, sem ég tel helzt taka til minna kasta, enda þótt ég sé ekki frsm. meiri hluta n.

Hv. þm. S.-Þ. er nú búinn að ræða þetta mál í alllangri ræðu, — svo langri, að maður þarf helzt að krota það allt saman á minnisblað til að muna það, og getur því skeð, að eitthvað hafi fallið úr af því, sem hann hefur vikið til mín af fyrirspurnum, en hérna krotaði ég upp 2 eða 3 atriði, sem hann beindi til mín, og vildi ég því aðeins minnast á þau.

Hann minntist á orðin „opinberir sjóðir“, hvað væri í rauninni meint með þeim orðum. Það er vitanlega ekki mitt að gefa þá skýringu, en ég get hins vegar sagt honum, sem er í rauninni hvorki fræðandi fyrir hann né aðra, að þegar í 1. eða annars staðar er talað um „opinbera sjóði“, þá verða þau orð að skýrast að nokkru sitt á hvern veg, eftir því í hvaða sambandi er rætt um þá. Þegar það er í sambandi við ríkið og þess fyrirtæki og fjármuni, þá ætla ég, að ástæða sé til að einskorða „opinbera sjóði“ við þær sjóðeignir, sem tilheyra beinlínis ríkinu. Aftur ef talað er um „opinbera sjóði“ í sambandi við önnur víðtæk fjármál, svo að ástæða sé til, að það geti einnig gripið til sýslu- eða bæjarfélaga, þá mætti ætla, að orðin séu teygjanlegri og nái lengra, þegar um þau orðasambönd er að ræða. Ég tel sem sagt, að það sé dálítið eftir því, í hvaða aðstöðu til málefnisins orðin „opinberir sjóðir“ eru skráð hverju sinni. Af því að ég var spurður að þessu og ég tel alveg að ástæðulausu, því að ég get enga opinbera fræðslu veitt um það, þá vildi ég við fyrirspurninni segja þetta sem mína skoðun um notkun orðanna.

Ég tók eftir því, að hv. þm. S.-Þ. vék því að mér að einhverju leyti, hvaða skoðun ég hefði um kostnað við stór mannvirki, ef frv. yrði samþykkt, og mér virtist á honum að heyra, að það gæti orðið til mikilla óþæginda og kostnaðarauka. Ég fyrir mitt leyti get nú ekki fallizt á, að svo þurfi að verða, því að það, sem gerir mér kleift að vera með þessu frv. í aðalatriðum, er það, að ég tel markmið þess vera, að fræðimenn, sem til eru með þjóðinni á hverjum tíma í þessum starfsgreinum, sem þar koma til greina, geti notið sín sem bezt til samræmis og samanburðar um það, hvað bezt megi verða. Það kann svo að vera, að í þeim starfsgreinum, sem hér ræðir um, sé ekki svo fjölskrúðugu á að skipa í bili, — þar sé um tiltölulega fáa fræðimenn að ræða, — en þess er þá um leið að gæta, að þessari verklegu fræðslu fleygir fram nú á líðandi tímum, og m. a. tel ég ástæðu til að orða það, að nú eru erlendis Íslendingar við nám, að sumu leyti á frjálsum stöðum, sem eiga heimangengt hvenær sem verkast vill, og aðrir í hernumdu löndunum ýmsum, sem nema þessa fræðigrein, og ég þykist vita, að þegar sá álitlegi hópur verklærðra Íslendinga kemur heim, þá verði þar mikillar fræðslu að leita, og því rýmra, sem það svið verður og hefur fleiri fræðimönnum á að skipa, því eðlilegra tel ég, að þeir eigi kost á að láta ljós sitt skína og láta landsmönnum sína kunnáttu í té til samanburðar og leiðréttingar í nytsömu og fögru byggingarstarfi Íslands.

Ég vil í sambandi við þetta, sem ég hef nú sagt, taka það fram, að þar sem hv. þm. S.-Þ. telur, að nokkrum embættismönnum ríkisins og forstöðumönnum þessara starfsgreina sé mjög misboðið með þessu, þ. á m. húsameistara ríkisins, vegamálastjóra o. fl. (JJ: Vitamálastjóra.), þá get ég ómögulega fallizt á þetta. Þetta eru nú margreyndir og röskir embættismenn landsins, og ef þeir eru styrkir og öruggir í sinni starfsgrein, þá hygg ég, að þeir sem embættismenn eigi ekki að þurfa að fjúka um koll, þó að þetta frv. verði gert að l. Ég er náttúrlega ekki dómbær um þeirra hæfni, t. d. annan þessara manna, húsameistara ríkisins, hef ég ekkert haft saman við að sælda og er svo ófróður um byggingar, að ég get ekki nokkurn dóm á það lagt af eða á. Aftur hef ég sem fulltrúi sveitakjördæmis af skiljanlegum ástæðum mikið haft saman við vegamálastjóra að sælda, reynt hann í blíðu og stríðu, bæði með því að vera sömu skoðunar og hann, eftir því sem á hefur staðið, eða þá annarrar skoðunar, en samt sem áður reynt hann í því að vera vaskan og þrautseigan embættismann, og því betri, sem samvizkan er, og því öruggari, sem vitneskjan er um að vera hæfur til síns starfs, því öruggara er, að slíkir menn standi þetta af sér, því að þess er vel að gæta, og það er í þessu málefni meginatriðið frá mínu sjónarmiði, að sú samkeppni, sem heimilað er, að ráðh. megi láta fara fram, ef honum sýnist svo, er aðeins til að opna hið víða svið vaxandi þekkingar til samanburðar um þróun í þeim fræðigreinum til úrvals fyrir þá, sem eftir landslögum eiga fyrir framkvæmd þeirra mála að standa. Mér finnst þetta ekki nema gott og eðlilegt. Embættismenn ríkisins eiga svo, ef um ríkisfyrirtæki er að ræða, að vinna úr þessu víðtæka starfssviði með þeim hugmyndum og áætlunum, sem fram koma. Mér finnst ómögulegt annað en þessir góðu embættismenn eigi að vera þakklátir heldur en vanþakklátir fyrir að opna þessa víðsýni fyrir nýja fræðimenn, því að það er miklu frekar svo en það þrengi kosti þeirra. Ég skal svo láta útrætt um þetta atriði, og eins og ég tók fram í byrjun máls míns, þá hef ég enga framsögu af hendi n., þó að ég hafi þar sæti.

Ég vil aðeins víkja nokkrum orðum að þeim aðfinnslum, sem fram hafa komið á frv. Sumar get ég fallizt á, að séu réttmætar, en aðrar aftur vafasamar og óþarfar. Ég hef af veikum mætti viljað gera mitt til að koma á móts við menn, þar sem mér hefur helzt fundizt ástæða til, og meina ég þar með, að ég hef með framburði þeirra brtt., sem meiri hluti n. hefur gert á frv., viljað sýna, að ég vil taka eitthvað til greina af því, sem ég tel verulegu máli skipta. Fyrst og fremst er að gæta þess, að þeir, sem dómnefndina skipa, séu hæfir menn og fróðir og formaðurinn, sem skipaður er af hlutaðeigandi ráðh., sé sérfróður í sinni grein. Það er spor í áttina til að tryggja, að nm. séu sérfróðir, þótt að vísu sé ekki talað sérstaklega nema um formanninn. Þetta var eitt, sem haft var orð á til ásteytingar, að óskir komu fram um, að þar væri sérfróðum mönnum á að skipa.

Svo er það annað atriði, sem ég vildi, að fellt yrði inn í frv., þ. e. að úrskurður dómnefndar skuli vera rökstuddur, til þess að minni hætta sé á, að það, sem fundið hefur verið frv. til foráttu af þeim, sem á móti því mæla, þurfi síðar að koma til greina, sem sé að riss eða teikningar eða hugmyndaflug hlaupi síður með menn í gönur. Þeir skulu standa ábyrgð gerða sinna með að rökstyðja þær. Þetta er vissulega þó nokkur bindiliður á milli þeirra, sem vinna samkeppnisverkin, og þeirra, sem láta framkvæma þau, bæði rökstuðningur dómnefndar og svo hitt, að verðlaun skuli því aðeins veitt, að þessir frumdrættir séu hæfir til framkvæmda án mikilvægra breytinga. Ég sé ekki annað en þetta sé stórvægilegt atriði og nokkuð stórt spor stigið til að geðjast að sumu leyti réttmætum aðfinnslum og að sumu leyti ekki réttmætum, sem fram hafa komið við frv.

Ég skal svo, til að reyna að standa við orð mín að vera ekki mjög fjölorður um þetta, láta máli mínu lokið.