23.02.1944
Neðri deild: 17. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 156 í B-deild Alþingistíðinda. (245)

27. mál, skipun læknishéraða

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Herra forseti. — Það undrar mig, að hv. þm. Snæf. (GTh) skuli hafá þurft svo langan undirbúning til þess að bera fram þá brtt., sem hér liggur fyrir frá honum og hann ræddi nú um, eins og honum er mikið niðri fyrir í málinu. En mér skilst, að aðalástæðan til þess, að hann ber nú þessa brtt. fram, sé sú, að honum finnst, að flutningur hans á hinu fyrra máli hafi verið vefengdur sem réttlátur af landlækni, en það stafi af því, að landlæknir hafi lagt málið rangt fyrir héraðsbúa. En hv. þm. Snæf. fullyrðir, að hann sjálfur hafi lagt málið rétt fyrir þá. — Ég býst við, að landlæknir hafi lagt málið fyrir þá á þeim grundvelli, að þó að óskir meiri hluta héraðsbúa væru þær að fá lækni í nýtt læknishérað sunnan fjalls á Snæfellsnesi, þá mundu þeir engan lækni fá, — það hafi verið mergur málsins í því, hvernig landlæknir hefur lagt málið fyrir þá, hann hafi þekkt þau vandkvæði, sem eru á því að fá nú læknisþjónustu í dreifbýlishéruðin. Hins vegar býst ég við því, að hv. þm. Snæf., þegar hann lagði málið fyrir kjósendur sína, eða réttara sagt, þegar hann varð við óskum kjósenda sinna, hafi ekki verið að hampa þeirri röksemd sérstaklega. En hitt, hvort rangt hafi verið að segja, að meiri hl. héraðsbúanna óskaði ekki eftir breyt. í þessu efni, það varð landlæknir auðvitað að mynda sér skoðun um eftir umsögn oddvitanna. Hins vegar get ég ekki búizt við því, að neinn geti krafizt þess af landlækni, að hann fari að halda fundi í hverri sveit og óska atkv. um að fá stofnað embætti, sem landlæknir sjálfur veit, að nú sem stendur fæst enginn maður til þess að sækja um. Og það, að hann segir, að héraðsbúar verði verr settir með því að stofnað verði þarna nýtt læknishérað, er meint þannig, að með því móti verði íbúarnir í nýja læknishéraðinu að sæta öðrum kostum um gjald fyrir læknisþjónustu.

En þar sem hv. þm. Snæf. taldi, að það kæmi í bág við skoðun landlæknis, að hann leggur til, að Bakkafjarðarhérað sé stofnað, þótt fámennara sé en Suður-Snæfellsneshérað, þá er því að svara, að það er neyðarúrræði að stofna þetta fámenna hérað, en það var ekki annars kostur. Það var ekki boðlegt að ætla Borgfirðingum og Víkurbúum að sækja lækni að Eiðum. Enn er þess að gæta, að það fólk, sem þar er, er í næsta nágrenni. Þetta er lífvænleg sveit, og má ætla, að þarna sé farsæll staður.

hv. þm. Snæf. ber þessa till. fram, hygg ég stafi e.t.v. af því, að honum hefur vaxið ásmegin, þegar hv. þm. G.-K. bar fram sams konar till. í gær, og þeir e.t.v. ætlað að hafa samvinnu um þær. En hvernig sem fer um þá till., þá vildi ég ekki, að hún yrði til að bana till. um læknishérað í Bakkaflói, og vil beina þeirri ósk til hæstv. forseta, að hann taki ekki málið enn af dagskrá, svo að það verði ekki til þess að fæða af sér enn fleiri till. í svipaða átt.