28.02.1945
Efri deild: 138. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í C-deild Alþingistíðinda. (2463)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Frsm. minni hl. (Jónas Jónsson):

Út af lögleysu í sambandi við umr. um þetta mál, vil ég gera fyrirspurn um þingsköp. Hæstv. forseti hefur lýst yfir, að hann skeri niður umr. um þetta mál. Og ég vil vísa til þess, að í 37. gr. þingskapa er beint sagt, að það eigi að bera þetta undir atkv. d. Og út af því, að hv. 6. þm. Reykv. hefur ekki talað, en er stór aðili í málinu, og gert er ráð fyrir að breyta frv., þá skora ég á hæstv. forseta að bera undir úrskurð hv. þd., hvort skera skuli niður umr. Enn fremur vil ég benda hæstv. forseta á það, að það stendur í þessari sömu gr., með leyfi hæstv. forseta: „Nú hefur verið samþykktur takmarkaður umræðutími eða ákveðinn ræðutími hvers þingmanns, og skal þá forseti skipta umræðutímanum í heild sem jafnast á milli fylgismanna og andstæðinga máls þess, sem er til umræðu ...“ Út frá þessu krefst ég þess, að ég fái jafnan ræðutíma á móti þeim, sem hafa gagnstæða skoðun um málið, — en ég heimta atkvgr. um þetta atriði.