28.02.1945
Efri deild: 138. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 41 í C-deild Alþingistíðinda. (2470)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Ég mun fyrst ræða nokkuð um þingsköp. Ég vil eindregið halda fram, að 37. gr. þingskapa beri að skilja með þeim hætti, að forseti megi ekki skera niður umr. á þann veg, sem hann hefur ákveðið að gera, eftir að einungis annar aðilinn hefur látið uppi álit sitt, en þeir, sem eru á gagnstæðri skoðun, eigi þess ekki kost, heldur eigi hæstv. forseti að beita því valdi, sem honum er fengið með þessari gr., eftir 2. málsgr. 37. gr., sem er svo, með leyfi hæstv. forseta: „Nú hefur verið samþykktur takmarkaður umræðutími eða ákveðinn ræðutími hvers þingmanns, og skal þá forseti skipta umræðutímanum í heild sem jafnast á milli fylgismanna og andstæðinga máls þess, sem er til umræðu ...“ Ég vil halda fram, að í þessu ákvæði, sem auðvitað er ákvæði, sem hlýtur að gilda alls staðar þar, sem umr. eiga sér stað, hvort sem er á Alþ. eða fyrir dómstólum, felist það, að báðir aðilar eigi rétt á að láta uppi skoðun sína. Og heimild hæstv. forseta til að takmarka ræðutíma takmarkast af þessari meginreglu. Ég mun þess vegna, nema hæstv. forseti beinlínis svipti mig orðinu, taka mér þann tíma, sem ég tel nauðsynlegan til að ljúka máli mínu, en hef ekki hugsað mér að lengja hér umr. En þannig stendur á, að bæði hefur hv. þm. S.-Þ. margoft vikið að mér í þessum umr. og auk þess í hinum löngu þskj. sínum, sem hann hefur látið prenta sumpart eftir sjálfan sig og sumpart eftir merka menn úti í bæ, hefur hann farið mjög óvirðulegum orðum um embættismann, sem undir mig heyrir, og þótt ég sé ekki ábyrgur gagnvart Alþ. um þetta, þá tel ég mig ekki standa mig vel, ef ég léti þau ummæli eiga sér stað ómótmælt, sem fram hafa komið hjá hv. þm. S.-Þ. bæði í þskj. og í ræðu. Ég tel því, að ég eigi sanngirniskröfu og lagakröfu líka til þess að fá að láta uppi þær skýringar, sem ég þarf að gera í þessu máli. Treysti ég því, að hæstv. forseti líði mér það, meðan ég fer ekki út fyrir sæmileg takmörk í því efni.