28.02.1945
Efri deild: 138. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (2479)

198. mál, samkeppni um hugmyndir að mannvirkjum

Bjarni Benediktsson:

Hv. þm. hefur ekki, þrátt fyrir leiðbeiningar, athugað sig á, að hér er ekki af hálfu bæjarins að ræða um andstöðu gegn svona samkeppni, heldur hitt, að bærinn vill hafa sjálfræði um slíkt, hvað snertir eigin mál. Ég hef áður getið um það, að bæjarstjórnin hefur ákveðið að bjóða út mikilvægar byggingar, en vill sjálf ráða því, hvenær hún lætur gera það. Varðandi umrædda teikningu á húseign á Melunum, vil ég upplýsa, að þarna er um að ræða venjulegar svalir og ekki annað. Ég man að vísu ekki eftir því, en ég held, að það séu sams konar svalir og á húsum, sem hv. þm. S.-Þ. hefur staðið að (JJ: Ég hef aldrei ætlað að láta kenna úti.), og mætti því ósköp vel rifja upp, hvað hann hefur skaðað ríkið um margar millj. af þeim sökum, og má kannske rifja það betur upp við 3. umr. (JJ: Ég væri mjög til með það.) Þetta er náttúrlega ekki stórt atriði. (JJ: Jú, þetta er stórt atriði.) Þetta er ekki annað en það, sem tíðkast á mörgum byggingum, og svalirnar þurfa auðvitað að vera stærri, ef þær eru ætlaðar fyrir mörg hundruð börn, heldur en ef þær eru fyrir eina fjölskyldu, sem býr í húsinu. Þetta liggur í augum uppi og þarf ekki frekari skýringu.

Það er nú venja fyrir dómstólunum við stærri mál að byrja á upplestri skjala, og má segja, að hv. þm. S.-Þ. fari svipað að í dag, sérstaklega seinni partinn, með því að lesa þskj., en ég vil benda honum á, að hann fór ekki rétt með það, sem stendur í grg. frv., því að þar eru ekki talin upp nein nöfn. En ég get fallizt á það með hv. þm., að kommúnistar hafa auðvitað skaðað marga menn og þar á meðal starfsmenn bæjarins og eiga kannske eftir að skaða þá meir, en þeir hafa ekki bakað bæjarstarfsmönnunum sérstakt tjón með þessu frv. (JJ: Jú, jú.), enda er frv. ekki frá þeim einum komið, heldur úr allt annarri átt, og ummæli grg. frv. í þessu efni, þau, sem hann taldi sérstaklega beint að starfsmönnum ríkisins, fjalla alls ekki um þá. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa greinina:

„Tilbreytingarleysi í þessum efnum sljóvgar auk þess mjög dómgreind og fegurðartilfinningu alls almennings á hinu verklega sviði.“

Þarna er ekki um að ræða, að tilfinningar verkfræðinga eða húsameistara sljóvgist, heldur alls almennings. (GJ: Því verra!) Það má segja, að ásökunin sé þeim mun rótarlegri, ef menn vilja svo vera láta, en ásökuninni er ekki beint til húsameistara, heldur alls almennings, að hann láti þessi verk hafa áhrif á sig, og ef um ásökun er að ræða, þá er hún á hendur þeim húsameistara, sem teikninguna gerði af byggingunni, en ekki til starfsmanna bæjarins, heldur til þess húsameistara, sem hefur haft einokun á öllum teikningum í þágu ríkisins fram að þessu.