17.01.1945
Neðri deild: 107. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (2494)

253. mál, innheimta ýmissa gjalda 1945 með viðauka

Eysteinn Jónsson:

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er í sjálfu sér ekki mjög stórvægilegt, eins og hæstv. fjmrh. sagði, og hefði ég sennilega ekki séð ástæðu til að segja neitt um það á þessu stigi, ef hæstv. fjmrh. hefði ekki einmitt notað þetta tækifæri til að minnast örfáum orðum á fyrirætlanir stj. í heild sinni um endanlega afgr. fjármálanna á þessu Alþ. og horfur um það, hvernig takast mundi um fjármálastjórn á næsta ári.

Ég mun geyma mér að ræða um tekjuöflunarleiðir hæstv. ríkisstj. þangað til hér kemur til umr. aðalfrv., sem lagt hefur verið fram af þeirra hendi, sem sé frv. til l. um veltuskatt. Þó get ég ekki annað en látið þau orð falla nú, þegar auðséð er, að hæstv. ríkisstj. hefur tekið þann kostinn að tína saman það fé, sem hún ætlar að leggja á landsfólkið, aðallega með ýmiss konar neyzlutollum og gjöldum á almenning, sem lítið eða ekkert er jafnað niður eftir efnum og ástæðum, að það fer heldur háskalega í bága við það, sem a.m.k. meiri hl. þeirra flokka, sem standa að hæstv. ríkisstj., hafa látið uppi sem sína skattamálastefnu. En ég ætla sem sagt ekki að ræða um þetta, heldur læt það bíða þangað til þau stærri mál koma hér til meðferðar.

Nú hefur hæstv. fjmrh. lýst yfir því, að fram séu komin öll þau tekjuöflunarmál, sem von sé á frá hæstv. ríkisstj., og getur maður þá haft no~kurt yfirlit yfir þetta nú, en það hefur ekki verið unnt áður. Það er víst alveg óhætt að slá því föstu, að það verður aldrei betur sloppið á næsta ári en útgjöld ríkissjóðs verði 140 til 150 millj. kr., og virðist mér það mjög vel sloppið, miðað við þá afgr. á fjárl. og afgr. á útgjaldaliðunum, sem ráðið er eftir yfirlýsingu stjórnarflokkanna. Það er varla hægt að hugsa sér, að þeir tekjustofnar, sem hér voru í l., áður en hæstv. ríkisstj. beitti sér fyrir nýju frv., gefi meira, þó að allt gangi á sama hátt og verið hefur, en 100 til 110 millj. kr., þannig að ef ekkert er dregið úr gjöldum ríkisins frá því, sem fyrr hefur verið, mundi þurfa að afla 30 til 40 millj. kr. nýrra tekna til þess, að von væri um, að rekstur ríkissjóðs gæti orðið hallalaus á næsta ári, — og þó því aðeins, að ekkert beri út af um peningaflóðið frá því, sem verið hefur.

Nú hefur hæstv. ríkisstj. lagt fram nokkur frv., sem hæstv. ráðh. áætlar, að gefa muni í tekjur um 15 millj. kr., og það er því áreiðanlega ekki of lágt áætlað, þótt sagt sé, að a.m.k. vanti aðrar 15 millj., ef von ætti að vera um, að rekstur ríkisins yrði hallalaus. Það er því bersýnilegt á því, sem nú liggur fyrir, að hæstv. ríkisstj. ætlar sér að leggja út á næsta ár með þá afgr. fjármálanna, að tekjuhallarekstur er nær því alveg sýnilegur — og hann stórfelldur.

Hæstv. ráðh. sagði von á tekjum handa ríkissjóði, sem nokkuð mætti byggja á, af amerísku smjöri og sölu setuliðseigna. Ég veit ekki, hve þetta er mikið, en ég er þess fullviss, að þetta eru smáliðir, sem gera ekki betur en vega upp á móti þeim umframgreiðslum, sem verða óumflýjanlegar. Þá kvað hann vera 10 millj. kr. í sjóði, sem grípa mætti til, ef á lægi.

Ég verð að segja, að ég tel það ekki vænlegt, ef hæstv. ríkisstj. ætlar nú þegar að éta upp þessa upphæð, sem er nú til vara, og ég tel þetta fullkomlega játningu af hendi hæstv. ráðh. um, að hann búist við verulegum tekjuhalla.

Nú vil ég, að hæstv. ráðh. viti það, að ef ríkissjóður á að vera sæmilega stæður, þá verður hann að eiga miklu meira en 10 millj. kr. í sjóði til að svara greiðslum, áður en tekjur koma inn, —ella þarf að taka lán á miðju ári. Af því, sem nú er greint, er ljóst, að fyrirsjáanlegur er stór halli á fjárl. Á næsta ári er gert ráð fyrir að eyða þeim skildingum, sem ríkissjóður nú á, eða taka lán.

Ég ætla ekki á þessu stigi að stofna til umr. um þetta, en ég vildi aðeins geta þessa í sambandi við yfirlit hæstv. ráðh.