17.01.1945
Neðri deild: 107. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1201 í B-deild Alþingistíðinda. (2498)

253. mál, innheimta ýmissa gjalda 1945 með viðauka

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Það er nú ekki hægt fyrir okkur að fara miklu lengra út í það að ræða þessar tekjuöflunarleiðir að sinni, sem koma hér síðar til umr. — En hæstv. fjmrh. sagði, að það væri meining þeirra, að þessum nýja allsherjarveltuskatti yrði ekki velt yfir á verð varanna og það væri ákveðið, að hann yrði ekki lagður á nema einu sinni. Jú, það er nú svo. En það verður fróðlegt að sjá framan í hæstv. ríkisstj. næsta haust í sambandi við afgreiðslu fjárl. fyrir árið 1946, ef hún ætlar að halda óbreyttri fjármálastefnu þeirri, sem hún hefur nú, og afgreiða ný fjárl. í sömu stefnu og láta falla úr sögunni tekjuöflunarleiðir, sem hún nú með ærinni fyrirhöfn hefur orðið ásátt um. Við sjáum, hvað setur um það atriði. En jafnvel þótt það sé tilætlunin, mun það sýna sig, að þessi veltuskattur hlýtur að koma óbrotinn strax á alla landsmenn, sem sjálfir hafa haft með höndum félagssamtök sín á milli um kaup á vörum og þjónustu með sama hætti. Það mun einnig sýna sig, að það verður ekki hægt að framkvæma þau l. í heilt ár gagnvart ýmsum fyrirtækjum án þess að taka tillit til þess í vöruverði. En um þetta getum við rætt síðar.

En að ég kvaddi mér hljóðs, var aðallega til þess að gera aths. við það, sem hæstv. fjmrh. sagði um dýrtíðina. Ég geri ráð fyrir, að það hafi þykknað í hæstv. ráðh. út af því, sem ég sagði varðandi horfurnar um fjármálin í landinu, og að ég deildi nokkuð á hæstv. ríkisstj. fyrir að gera enga tilraun til þess að laga grundvöllinn þannig, að þessi mál væru viðráðanleg. Ég get skilið það, að hæstv. ráðh. sé þetta atriði dálítið viðkvæmt, því að hann hlýtur að sjá, að þau mál eru lítt eða ekki viðráðanleg á þeim grundvelli, sem þau nú hafa verið rekin á, þótt hins vegar hafi skort myndarskap hjá hv. stuðningsmönnum ríkisstj. og hæstv. ríkisstj. sjálfri til þess að ráðast í framkvæmdir til lagfæringar, heldur sé látið undan síga og flotið sofandi að feigðarósi í þeim efnum. En út af því, sem hæstv. fjmrh. hreytti að mér, þar sem hann sagði, að það væri undarlegt, að ég benti á það, hversu illa horfði með dýrtíðina, þar sem ég væri einn af aðalforustumönnum dýrtíðarinnar, vil ég segja, að mér. virðist það ekki viðeigandi af hæstv. ráðh. að fleygja fram slíkum slettum órökstuddum. Og mér þykir það koma úr hörðustu átt, að hæstv. ráðh. skuli beina að mér slíkum slettum. Ég hef gert margar tilraunir til þess að fá samtök um að stöðva dýrtíðina, — fyrst 1941 eftir dýrtíðarl., sem þá giltu. Þá óskaði ég eftir því, að reynt yrði að stöðva hækkun landbúnaðarafurða með því að byrja á niðurborgun innan lands. Ef það hefði orðið að ráði þá, þó að slík niðurborgun væri ekki að öllu leyti æskileg, þá hefði áreiðanlega mátt stöðva dýrtíðarfióðið með örlitlum hluta af þeim fjárhæðum, sem síðar hefur verið varið í því skyni. En það var ekki gert, og var það ekki mér um að kenna, heldur flokksbræðrum hæstv. fjmrh. Árið 1941 gerði ég tilraun til þess að gera verðfestingu um hlutfallið milli verðlags og kaupgjalds og að samningar yrðu teknir upp um að breyta því, ef þurfa þætti, og spurði, hvort menn vildu standa að festingu þess, ef því hlutfalli væri eitthvað breytt. En menn máttu þá ekki heyra neitt þess háttar nefnt, og menn, sem nú standa að hæstv. ríkisstj., komu þessu fyrir kattarnef. Árið 1942 var af hálfu Búnaðarþings og Framsfl. boðið fram að standa að lækkun kaupgjalds og afurðaverðs. Því tilboði var hafnað af þeim, sem töldu sig umbjóðendur fyrir launastéttir landsins. Þá var sett nokkru síðar 6 manna nefnd, sem reiknaði. út hlutfallið á milli kaupgjalds og afurðaverðs. Þegar hún komst að niðurstöðu, þá var það enn, sem Framsfl. stakk upp á því, að hlutfallsleg niður færsla ætti sér stað á kaupgjaldi og afurðaverði. Þegar það fékkst ekki, beitti Framsfl. sér fyrir því, ásamt mönnum úr öðrum flokkum, að samkomulag varð um, að forráðamenn landbúnaðarins buðu fram einhliða niðurfærslu á afurðum, en lögðu til, að kaupgjald lækkaði jafnframt. En því var ekki sinnt að lækka kaupið. Mér þykir því það koma úr hörðustu átt, að hæstv. fjmrh. skuli vera með slíkar slettur í sambandi við afstöðu mína fyrr og síðar til dýrtíðarmálanna. Því að ég held, að mér sé fullkomlega fært, samkvæmt fortíð minni, að ræða þau mál með fullum rökum. — Og jafnvel þótt mér hefði orðið eitthvað á í þeim málum, hefði ég rétt til þess að ræða stefnu hæstv. ríkisstj. nú, því að þau mál koma ekki því við, hvort hæstv. ríkisstj. stefnir nú rétt eða rangt.