13.09.1944
Efri deild: 42. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2499)

95. mál, loðdýrarækt

Þorsteinn Þorsteinsson:

Herra forseti. — Ég get verið fáorður um þetta frv., þar sem það kemur sennilega til þeirrar n., sem ég á sæti í. Ég vil bara vekja athygli á einu í þessu máli, sem getur orðið dálítið deiluatriði. Það er ákveðið, að hreppsn. í hverjum hreppi geti leyft loðdýraeldi í sinni sveit. Eins og menn vita, er það sérstaklega eitt loðdýr, minkurinn, sem getur orðið þar þyrnir í augum, og hagar víða þannig til, einkum þar sem varplönd eru og veiðiár. Í sumum sveitum er aftur á móti e. t. v. ekki einu sinni hænsnabú, og eins og gefur að skilja, geta þær sveitir farið miklu djarfara í að leyfa, að sett verði upp svona bú, en hinar, sem meira ættu í húfi, ef þær mættu nokkru um ráða. Kæmi því mjög til athugunar, hvort ekki ætti yfirleitt að leita atkvæða héraðsstjórna um slík loðdýraleyfi, áður en þau verða afgreidd. Ég tel undir þessum kringumstæðum, að þótt ekki væri nema um þetta eina dýr að ræða, þyrfti þar einnig að koma til leyfi héraðsstjórnar, áður en leyft væri að stofna slík bú. — Ég vildi aðeins beina þessu til deildarinnar.