13.09.1944
Efri deild: 42. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í C-deild Alþingistíðinda. (2500)

95. mál, loðdýrarækt

Gísli Jónsson:

Herra forseti. — Í þessu frv., sem komið er frá hæstv. ríkisstj., er sett nýmæli með 6. gr., að heimila ríkisstj. að reka loðdýrabú. Hæstv. landbrh. minntist á ástæðuna fyrir þessu, og er hún einnig tilgreind hér í aths. við frv. Það er sérstaklega tekið fram, að þetta sé gert til þess að tryggja sem bezt kynstofninn, og í aths. er lögð áherzla á það, að ekki hafi verið lögð nógu mikil rækt við minkarækt hér á landi og sá stofn því ekki nógu góður. Nú skilst mér, að fyrir þessar ástæður einar sé ekki nauðsynlegt að setja þessa grein inn í lögin. Í lögum frá 1938 er kveðið svo á, að ekki megi ala upp, hvort heldur er til sölu eða undaneldis, önnur dýr en þau, sem hafa verið metin af þeim manni, sem mest vit hefur á þessum málum, þ. e. loðdýraráðunautnum. Og það er einnig í lögum frá 1940, að slík dýr megi ekki flytja inn, nema þau séu af viðurkenndu kyni. Mér finnst því, að lögin nú setji skorður fyrir því, að alin séu upp önnur dýr en af allra beztu tegund, og því ekki ástæða til að samþykkja heimild handa ríkisstj. til að reka slík bú á kostnað ríkisins bara til þess að ná þeim árangri. Hins vegar kann að liggja til þess önnur ástæða, sem ekki kemur fram í frv., og get ég ekki sagt um, hver sú ástæða muni vera. Fyrr en færðar hafa verið fram gildari ástæður en fram koma í frv., get ég því fyrir mitt leyti ekki fallizt á að ljá málinu fylgi, nema þessi grein verði felld niður eða breytt á annan hátt.