17.01.1945
Neðri deild: 107. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 1203 í B-deild Alþingistíðinda. (2502)

253. mál, innheimta ýmissa gjalda 1945 með viðauka

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. — Mér þykja fullyrðingar hæstv. fjmrh. nokkuð undarlegar. Hann segir, að Framsfl. hafi beitt sér fyrir því að slíta í sundur kaupgjald og afurðaverð eftir gengisl. og það sé undirrót vaxtar dýrtíðarinnar og sá fl. beri því ábyrgð á því, sem skeð hefur í þeim málum. Ég hef tæpast heyrt ósvífnari röksemdafærslu. Ég veit ekki betur en Sjálfstfl. hafi verið fylgjandi því á sínum tíma, að breytt yrði því hlutfalli, sem var í gengisl. á milli þessa tvenns, og það af því, að allir vissu, að það hlutfall gat ekki haldizt. Það vissu allir, að það gat ekki haldizt vegna þess, hve framleiðslukostnaður í sveit hafði hækkað. Og hæstv. fjmrh. heldur því fram, að réttlát hlutföll hefði orðið að finna í staðinn. Heldur hann því þá fram, að verðlag á afurðum bænda hafi verið ranglátt eftir breyt.? — En ef vanrækt hefur verið að setja þarna fast hlutfall, þá hygg ég, að það hafi ekki aðeins verið vanrækt af Framsfl., heldur líka af hæstv. núv. fjmrh. og flokki hans, sem var þá mjög mikils ráðandi flokkur í þinginu og átti sæti í ríkisstj., engu síður en Framsfl. Hann átti því engu síður að vinna að því en Framsfl. að finna það hlutfall, sem festa skyldi í þessum málum. En það var ekki hægt að skilja orð hæstv. fjmrh. öðruvísi en svo, að eftir að skilið var sundur eða raskað því hlutfalli í þessu efni, sem í dýrtíðarl. var miðað við, hafi verð afurðanna verið sett of hátt, og þannig hafi verið sett ranglátt hlutfall á milli afurðaverðs og kaupgjalds, því að annars væri ekkert vit í því, sem hæstv. ráðh. sagði. En það hlutfall varð ekki til þess, sem síðar átti sér stað. Og 1941, þegar ég beitti mér fyrir festingunni, þá hefði flokkur hæstv. fjmrh. átt að koma með annað nýtt hlutfall, í stað þess að festa verðlagshlutföllin þar, sem þau voru, hann hefði átt að koma með till. um nýtt hlutfall. En það gerði sá flokkur ekki.

Að halda því fram, að Framsfl. hafi beitt sér sérstaklega fyrir uppbótafarganinu, er rangt. Ef till. Framsfl. hefði verið fylgt, hefðu ekki átt sér stað útflutningsuppbæturnar, sem hafa verið neyðarúrræði. Og niðurborgun á innlendum markaði hefur aldrei verið sérstakt áhugamál Framsfl., þótt hann hafi fylgt því fyrirkomulagi sem neyðarúrræði.

Það er þýðingarlaust fyrir hæstv. fjmrh. að reyna að draga athyglina frá því, hvernig núv. hæstv. ríkisstj. er að fara með þessi mál, með því að vera að tala um þessi atriði. Þau koma náttúrlega sáralítið við því máli, sem við hér höfum á dagskrá til umr. Núv. hæstv. ríkisstj. hefur nú tekið ábyrgð á fjármálunum í landinu og á því að sjá farborða þeim málefnum. Og það er gangur að henni og ekki neinum öðrum um þau mál. Og hún verður að gera grein fyrir því, hvaða leiðir hún ætlar að fara út úr þeim erfiðleikum, sem fram undan eru. Hún hefur nú gert það. Og leiðin er sýnilega sú að láta undan síga erfiðleikunum og fljóta sofandi að feigðarósi, finna engan grundvöll, sem geri málin viðráðanleg, heldur stofna til stórkostlegs tekjuhalla í fjármálum ríkisins í því mesta góðæri, sem yfir landið hefur komið.