23.02.1944
Neðri deild: 17. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í B-deild Alþingistíðinda. (251)

27. mál, skipun læknishéraða

Gunnar Thoroddsen:

Hæstv. forsrh. kvað það undra sig, að ég kæmi fram með þessa brtt. og svo virtist sem mér væri mikið niðri fyrir. Að mér sé mikið niðri fyrir, finnst mér ekki goðgá, þegar um er að ræða mál, sem snertir heilbrigði og jafnvel líf fólks, sem þm. er trúað fyrir að hugsa um, þegar svo virðist sem sjálf heilbrigðisstjórnin sýni í því allt of mikið tómlæti.

Á þingi fyrir ári flutti ég till., sem var samþ. í Sþ., að skora á stj. að gera ráðstafanir til þess að sjá þeim héruðum fyrir lækni, þar sem læknar féllu frá eða væru sjúkir, og að gerðar væru umbætur á heilbrigðislöggjöfinni. Hæstv. forsrh. sendir nú þinginu bréf landlæknis, þar sem hann sér engin ráð til þess að bæta úr læknaskorti í læknislausum héruðum úti um sveitir. Hann segir, að læknarnir vilji allir vera í Rvík eins og aðrir. Þetta eru ráðstafanirnar! Það eru nú á þriðja hundrað læknar á öllu landinu, en læknishéruðin 52. Það er því von, að mér verði mikið niðri fyrir, þegar vitað er, að það er svo margföld tala lækna hér á landi í samanburði við læknishéruðin. Mér virðist landlæknir ekki hafa sýnt þá röggsemi og skörungsskap af sér, sem hann hefði átt að gera samkv. embætti sínu og skyldu.

Mér skildist á hæstv. forsrh., að þessir fimm oddvitar, sem skutu á fundi með landlækni, hafi komizt að niðurstöðu sinni um sameiningu Hróarstungu- og Fljótsdalshéraða, einungis eftir að landlæknir hafði lagt málið þannig fyrir þá, að fyrst og fremst mundi það kosta þá 100 þús. kr. að koma upp læknisbústað og jafnvel, þá mundu þeir varla geta búizt við að fá lækni. Ég hygg, að hann hafi ekki gefið þeim rétta mynd af ástandinu. Tilætlun mín var sú, að þeir oddvitar, sem kallaðir voru á fundinn, hefðu tækifæri til að ræða málið við héraðsbúa. Það komu fram á leiðarþingum mjög sterkar raddir um, að vilji héraðsbúa hefði ekki verið tekinn til greina.

Hæstv. forsrh. sagði, að í Bakkafirði væri „lífvænlegt hérað og vaxandi.“ (Forsrh.: Það eru vonir um, að kauptúnið fari vaxandi.) Ég veit ekki, hvort það á að skilja orð hans þannig, að þau héruð, sem við flm. till. á þskj. 64 og 72 berum fyrir brjósti, séu ekki vaxandi. Ég vil benda á, að Stapi er vaxandi kauptún. Þar starfrækir Vikurfélagið iðnað. Auk þess eru þeir hreppar, sem ég legg til, að gerðir verði að læknishéraði, meira en tvisvar sinnum jafnfjölmennir og Bakkafjörður. Mér skilst einnig, að það séu sjö héruð fámennari en þetta læknishérað á Snæfellsnesi mundi verða.

Hv. 2. þm. N.-M. sagði, að það væru önnur héruð, sem ættu að koma á undan, og nefndi Súgandafjörð. Hann er þó fámennari. En ég veit það vel, að Súgfirðingar eiga erfitt um læknissókn. —Þá vil ég taka það skýrt fram, að hv. 2. þm. N.-M. var ekki að skýra frá afstöðu n., en aðeins sinni eigin afstöðu til málsins, því að það var samkomulag í n. að taka ekki afstöðu til málsins.

Hv. þm. vildi ekki hafa, að héraðið yrði nefnt þessu nafni. Þetta er samkv. þeirri sérvizku að búa til ný nöfn á læknishéruðin og kenna þau við þann stað, sem læknirinn situr á. Það er ekki búið að ákveða læknissetur þarna, og því er ekki hægt að gefa héraðinu nafn eftir nafni læknissetursins. Ég hef kallað þetta Suður-Snæfellsneshérað, til bráðabirgða, og yrði þá nafninu breytt síðar til samræmis við regluna, sem sett verður um þetta efni.

Hv. 1. þm. Rang. sagði, að ef hérað þetta yrði stofnað og enginn læknir fengist til að starfa þar, þá bæri engum lækni skylda til að gegna þar störfum. Þetta er ekki rétt. Meira að segja munu afskekkt héruð eiga skv. l. tilkall til tveggja næstu lækna, og mundi það t.d. gilda um Loðmundarfjörð.

Um vegasambandið er það að segja, að það mun eiga langt í land, að tryggur vetrarvegur komi yfir Fróðárheiði. Er því ekki rétt að fella málið á því atriði. Hins vegar er ágætt að eiga hv. þm. að, þegar til fjárframlaga til þessarar vegargerðar kemur.

Þá sagði hv. 2. þm. N.-M., að þróunin stefndi til Borgarness og íbúar héraðsins sæktu heldur lækni þangað en annað. Þá sagði og þessi sami hv. þm., að það ætti með þessu að fækka læknum í Borgarfirði. En þetta er ekki rétt, því að læknir verður áfram í Borgarnesi. Ef það svæði, sem hér um ræðir, kæmist inn á mjólkursamlagssvæðið, væri öðru máli að gegna en nú. Ef það yrði tengt með bættum samgöngum við Borgarnes, lægi málið öðruvísi fyrir. En nú er Borgarneslæknir ekki skyldur til að gegna kalli nema úr sínu héraði.