23.02.1944
Neðri deild: 17. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 160 í B-deild Alþingistíðinda. (252)

27. mál, skipun læknishéraða

Forsrh. (Björn Þórðarson):

Ég vil einungis gera athugasemd við þessar undarlegu aðdróttanir hv. þm. Snæf. um, að landlæknir hafi lagt málið fyrir á röngum grundvelli. Ég fullyrði, að landlæknir hefur lagt málið fyrir á raunhæfum grundvelli. Hann fullyrðir, að íbúar þessarar sveitar verði engu betur settir, þótt þetta hérað verði stofnað.

Þessi hv. þm. var að brigzla heilbrigðisstjórninni um vanrækslu, kvað hana liggja á liði sínu við að útvega lækna til héraðanna. Ég held satt að segja, að þessar getsakir séu sprottnar af vanþekkingu hv. þm. á þessu efni. Ég fullyrði, að í þessu efni hefur stjórnin gert allt, sem í hennar valdi stóð. Ef til vill væri rétt að lögbjóða ungum læknum að þjóna í héruðunum ákveðinn tíma, lengri en nú er ákveðinn. Vel má vera, að brátt reki að því, að gripið verði til þessa ráðs, til þess að fólk í dreifbýlinu eigi kost á að ná til læknis án mjög tilfinnanlegra erfiðleika.