28.11.1944
Neðri deild: 83. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í C-deild Alþingistíðinda. (2520)

119. mál, áburðarverksmiðja

Bjarni Ásgeirsson:

Herra forseti. Það er rétt eftir mér haft, að það liggur ekki ljóst fyrir af þeim gögnum, sem frv. fylgja, hvort þessi áburðarverksmiðja sé fjárhagslega traust fyrirtæki eða ekki, en með því að athuga niðurstöðu Rosenblooms kemur í ljós, að það verð, sem reiknað er með í þessu frv., er ákaflega langt fyrir neðan það verð, sem nú er á erlendum áburði, og þó er rekstrarkostnaður á hinni innlendu framleiðslu byggður á þeirri dýrtíð, sem nú ríkir í landinu, bæði hvað snertir mannafla o. fl. Og eins og ég sagði áðan, er raforkan, sem er hæsti kostnaðarliðurinn í þessari framleiðslu, reiknuð miklu hærra verði en það, sem sérfræðingar okkar telja, að hægt verði að nota við þessa framleiðslu. Af þessu dreg ég þá ályktun, að þetta sé mjög álitlegt fyrirtæki, og liggja fyrir miklar líkur og jafnvel sannanir um það, að það verði samkeppnisfært við erlenda áburðarframleiðslu. Af þessu sé ég ekki, að eftir neinu sé að bíða með að undirbúningur verði hafinn um byggingu verksmiðjunnar, og er ég þannig alveg á sama máli og hv. þm. A-Húnv. virðist hafa verið árið 1942, en þá flutti hann hér ályktun, sem ég leyfi mér hér með að lesa upp með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að annast um, að tafarlaust verði hafizt handa um byggingu sements- og áburðarverksmiðju, ef rannsókn sú, sem framkvæmd hefur verið að tilhlutun ríkisstjórnarinnar, leiðir í ljós, að tiltækilegt sé að ráðast í þessar framkvæmdir.“

Með þessu er fyllilega sannað, að hv. þm. V-Húnv. hefur talið álitlegt að ráðast í þessar framkvæmdir. Nú virðist hann hins vegar líta öðruvísi á þetta og telur, að mjög óvíst sé, að áburðarverksmiðja geti borið sig hér á landi, af því að hún yrði rekin í smærri stíl heldur en erlendis. Það er að vísu rétt, að undir vissum kringumstæðum er hægt að framleiða vöru ódýrara, eftir því sem framleiðslan er rekin í stærri stíl, en allt fyrir þetta sagði hann í grg. fyrir áðurnefndri þáltill., að smááburðarverksmiðja gæti borið sig hér á landi. Ég vil líka benda hv. þm. A-Húnv. á það, að það er alls ekki útilokað, að við getum flutt út þessa áburðartegund og framleitt hana í stærri stíl en við sjálfir þörfnumst, þar sem vitað er, að Norðmenn voru fyrir stríð einn af stærstu köfnunarefnisframleiðendum heims og fluttu út köfnunarefni í stórum stíl, eingöngu vegna þess, að þeir hafa ódýra raforku, en hún er, eins og hér á landi, einn aðalliðurinn í framleiðslunni. — Ég hygg, að það sé ekki alls kostar rétt, er hv. þm. A-Húnv. sagði, að Norðmenn hefðu gefizt upp á sinni köfnunarefnisframleiðslu og hafi orðið að fela öðrum að stækka verksmiðjurnar. Það er að vísu rétt, að þýzku áburðarhringirnir urðu stór þátttakandi í norskri áburðarframleiðslu, en orsökin til þess var sú, að þá voru fundnar upp nýjar og betri aðferðir við framleiðsluna, sem þýzku áburðarhringirnir höfðu vald yfir, og með því að innleiða þær í hin norsku fyrirtæki og leggja mikið fé í þær framkvæmdir, voru verksmiðjurnar stækkaðar, unnt að auka afköst þeirra og tryggja aðstöðuna. — Ég verð því að segja það, að mér finnst ekkert benda til þess, að við Íslendingar getum ekki framleitt þessa áburðartegund til útflutnings alveg eins og Norðmenn, en til þess að komast inn á þá braut, er þörf að hefjast handa um undirbúning nú þegar; hins vegar tel ég rétt að byrja smátt og miða aðeins við framleiðsluþörf okkar Íslendinga. Það má segja, að þessi framleiðsla sé ein af þeim fáu iðngreinum Íslendinga, sem við getum keppt um við aðrar þjóðir, jafnvel á erlendum markaði, með það fyrir augum, hve hráefnin eru hverfandi lítill kostnaðarliður við þessa framleiðslu.

Ég er sammála hv. þm. A-Húnv. um hina miklu nauðsyn á að koma upp raforkustöðvum út um land allt, eftir því sem kostur er, en ég er ekki honum sammála um, að það þurfi að rekast á þetta mál. Bæði raforkustöðvar og áburðarverksmiðjur geta komið um leið og jafnvel stutt hvort annað. Ég hygg því, að eigi sé rétt, að það muni á nokkurn hátt tefja fyrir raforkumálunum og því ekki ástæða til þess að draga málið á langinn af þeim sökum. Ágreiningurinn liggur í því, að hv. frsm. hefur ekki sannfærzt um, að þetta sé arðvænlegt fyrirtæki, en við hv. þm. Skagf. teljum það aftur á móti arðvænlegt og leggjum til, að frv. verði samþ. óbreytt.