23.02.1944
Neðri deild: 17. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

27. mál, skipun læknishéraða

Frsm. meiri hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti. — Hv. þm. Snæf. er stöðugt að dylgja um, að landlæknir hafi rangflutt málið við oddvita hreppanna á sunnanverðu Snæfellsnesi, og haldi hann það í alvöru, finnst mér, að hann ætti að taka boði landlæknis, er bauð að fara með honum á fundi í héraðinu og ræða við fólkið og fá að vita, hvað það vildi, en um það ber þeim á milli, — og sjá svo, hvor hefði á réttu að standa að því loknu. Skyldi fresta málinu á meðan. Nú vil ég leggja til, að báðar till. verði felldar og vilji fólksins rannsakaður og framtíðarskipulag heilbrigðismálanna sett í mþn., sem rannsaki málið og leggi það síðan fyrir Alþingi.

Gunnar Thoroddsen: Hæstv. forsrh: talaði um brigzlyrði frá minni hendi um heilbrigðisstjórnina. Hann má kalla það svo, ef hann vill. En ég vil aðeins endurtaka það, að ég skil ekki, að slíkt ástand þurfi að vera né sé viðunandi, meðan slíkur fjöldi lækna er hér á landi. Þeir eru nú á þriðja hundrað, en læknishéruðin um 50. Ég býst við, að of langt væri gengið með því að skylda lækna til að vera í læknishéruðum lengur en 6 mánuði, áður en þeir setjast að hér í Reykjavík. Ég held því fram, að hægt sé að gera úrbót í þessu efni, það sé bara ekki gert, sem hægt er, af hálfu stjórnarinnar.

Um ferðartilboðið er það að segja, að óneitanlega væri skemmtilegt að fara jafnskemmtilega ferð með jafnskemmtilegum mönnum. En ég veit, að yfirgnæfandi meiri hluti manna í héraðinu er á mínu máli og vill fá læknissetur þarna. Þetta hefur komið sérstaklega fram á leiðarþingum, sem haldin hafa verið þar í sumar, og tel ég mig hafa eins mikla þekkingu í þessu efni og bæði hv. 2. þm. N.-M. og landlækni.