28.11.1944
Neðri deild: 83. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 71 í C-deild Alþingistíðinda. (2530)

119. mál, áburðarverksmiðja

Barði Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað að taka til máls, en hv. þm. V.-Sk. gaf mér tilefni til þess, því að hv. þm. A.-Húnv. er dauður og getur ekki svarað fyrir sig.

Mér virðist undarlegt, hve mikla áherzlu hv. þm. V.-Sk. leggur á samanburð á verksmiðjum fyrir landbúnaðinn annars vegar og sjávarútveginn hins vegar. Hann hefur nú þrítekið þetta í ræðu sinni. Frá upphafi hefur sjávarútvegurinn verið annar höfuðatvinnuvegur landsins, og er ekki útlit fyrir, að á þessu verði breyting. Það er lífsskilyrði að auka verksmiðjur fyrir sjávarútveginn, en við höfum enga áburðarverksmiðju átt í 1000 ár og skrimtum þó. Þegar ég fór að athuga 1. gr. frv., virtist mér næsta hæpið, að áburðarverksmiðja mundi bera sig hér. Mér sýnist, að þeir, sem sömdu frv., hafi ekki haft mikinn áhuga á að berjast fyrir hag landbúnaðarins.

Tillagan um stofnun áburðarverksmiðju nýtur nokkurra vinsælda meðal bænda, því að oft hefur verið skortur á áburði hérlendis. Það hefur gert sitt til að auka vinsældir till. Sams konar verksmiðjur og þær, sem framleiða áburð, framleiða nú sprengiefni. Meðan stríðið varir, færast þessar verksmiðjur í aukana. Í U.S.A. er orðin gífurleg aukning í þessu efni. Líklegt er, að þessar verksmiðjur taki að framleiða áburð að stríðinu loknu, og líklega getur það haft mikil áhrif á verðlag áburðar til lækkunar. Tollar og höft hafa að undanförnu mjög torveldað viðskipti milli þjóða, en það verður varla svo eftir stríð. Ég býst við, að flestir séu þeirrar skoðunar, að þessu stríði sé nú að linna. Hvers vegna ekki að bíða þá í 1–2 ár með stofnun áburðarverksmiðjunnar og sjá, hvort ekki verða veðrabrigði í lofti, í stað þess að ráðast í byggingu hennar með því verðlagi, sem nú er? Það er sannarlega erfitt að koma auga á það, að tjón gæti orðið af þeim drætti.