05.02.1945
Efri deild: 118. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 77 í C-deild Alþingistíðinda. (2551)

119. mál, áburðarverksmiðja

Frsm. meiri hl. (Eiríkur Einarsson):

Landbn. þessarar d. tókst ekki að verða sammála um afgreiðslu frv. Meiri hl. n., 3 nm., hefur orðið ásáttur um að mæla með því, að frv. verði afgr. með rökst. dagskrá, eins og greinir á þskj. 965. En minni hl. n., 2 nm., mælti með að samþ. frv. óbreytt. Af hálfu okkar, sem óskum eftir afgreiðslu með rökst. dagskrá, mætti margt eða fátt um þetta mál segja, eftir því sem ástæða þykir til. Þetta er yfirgripsmikið mál og þýðingarmikið, að vel takist til um það. Ég sé ekki ástæðu til að fara um það nema fáum orðum, því að meginatriði þau, sem mæla með samþ. dagskrártill., eru tekin fram í nál. Þeir, sem hafa mjög mikinn áhuga fyrir þessu máli og telja það afdrifaríkt fyrir íslenzkan landbúnað, álíta, að flýta þurfi öllum viðbúnaði eins og hægt er og að það verði bezt gert með því að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir. En ég sé ekki, að það sé nokkur trygging fyrir því, að svo verði með þessari lagasetningu. Öðru nær, því að það er vitað, að ríkisstj. og sérstaklega landbrh. líta svo á, að frekari undirbúnings sé þörf eftir þeirri reglu, að vel eigi að vanda það, sem lengi á að standa. Úr því að það liggur skýlaust fyrir, að frekari undirbúnings sé þörf, svo að málið komist á traustan grundvöll, áður en til framkvæmda kemur, þá yrði þessi lagasetning nú aðeins nýmæli, sem gæti orðið málinu fjötur um fót, þegar til framkv. kæmi. Þess vegna er óhyggilegt að hafa slíkan flýti á þessari lagasetningu.

Eins og getið er um í nál. okkar meiri hl., þá hefur nýbyggingarráð til meðferðar öll helztu stórmál, sem grípa inn í flest framkvæmdamál landsmanna og þar á meðal auðvitað landbúnaðarins. Og þar sem ekki verður betur séð en áburðarverksmiðja ríkisins sé einn þáttur í hinni miklu nýsköpun, svo að erfitt er að greina hana frá öðrum verkefnum, sem ráðið hefur til úrlausnar, þá virðist ekki nema eðlilegt, að nýbyggingarráði sé falið að taka þetta mál til meðferðar ásamt ríkisstj., með hliðsjón af öðrum stórvægilegum málefnum í þágu landbúnaðarins, sem það hefur til athugunar. Ég sé ekki betur en að það sé miklu eðlilegra en að slíta þetta mál frá með lagasetningu nú.

Ég mun ekki fara verulega út í þá sálma hér, hvort ýmis atriði frv. séu þannig undirbúin, að forsvaranlegt sé að setja lög um málið á þessu stigi þess. Um vinnsluna sjálfa sýnist mönnum sitt hvað, hvort stefnt sé í rétta átt. Og þetta mál er of mikilvægt fyrir íslenzkan landbúnað, að það nái nokkurri átt að gera það að kappsmáli, með því móti væri það gert að fordildarmáli, í stað þess að það er fyrst og fremst framkvæmdarmál. Og fyrst unnið er að því að undirbúa málið á sem vandlegastan hátt, þá skiptir minnstu máli, hvort það er mánaðardeginum fyrr eða seinna, sem samþ. eru l. um það, þar sem framgangur málsins sjálfs er fyrst og fremst látinn sitja í fyrirrúmi.

Ég vil aðeins taka það fram, að eins og frv. er nú á þskj. 589, þá sýnist það að ýmsu leyti losaralega undirbúið. Í 5. gr. frv. segir, að fyrsta stjórn verksmiðjunnar ákveði, hvar hún skuli reist. En seinast í frv. er bráðabirgðaákvæði, þar sem segir, að ríkisstj. skuli láta gera nákvæmar áætlanir um stofnkostnað og reksturskostnað fyrirtækisins, og að loknum þessum undirbúningi sé verksmiðjustjórnin kosin, og á hún að sjá um framkvæmd verksins. Verksmiðjustjórnin á að ákveða staðinn, en áður en hún er kosin, á að gera áætlun um reksturskostnað og stofnkostnað verksmiðjunnar. Ég fæ ekki betur séð en ef sú áætlun ætti að vera nokkuð nálægt hinu sanna, þá þyrfti að vera búið að ákveða verksmiðjunni samastað, áður en sú áætlun er samin, en það er ekki ætlunin samkv. ákvæði frv. Þetta kann mönnum e. t. v. að finnast aukaatriði, en mér finnst þetta koma hvað öðru við og finnst lauslega um þetta búið og frágangur ekki gaumgæfilegur. Ég vildi aðeins nefna þetta sem dæmi.

Ég vil drepa á það, að það er margra manna von, að heimsstyrjöldin fari nú að styttast, svo að við getum farið að hafa samneyti við okkar gömlu og góðu viðskiptalönd, og þá þarf að vera búið að ljúka öllu undirbúningsstarfi.

Það hafa heyrzt raddir um það, að eins og málið liggi nú fyrir verði framleiðslan svo dýr, að erfitt sé fyrir okkur að standast samkeppni. En það er grundvallaratriði, að slíkt stórfyrirtæki, eins og verksmiðjan verður, sé fyrir fram undirbúið svo, að tryggt sé, að reksturinn verði samkeppnisfær. Þarna á að vinna gæði úr skauti íslenzkrar náttúru, sem eiga að skapa möguleika til stóraukinnar ræktunar, en það má ekki kaupa þau gæði það dýru verði, að sökum kostnaðar verði fyrirtækið þjóðinni til böls. Þetta er ákaflega stórvægilegt. Og þar sem ég er viss um það, að mjög almennur vilji er fyrir því, að áburðarverksmiðja verði reist hér á landi, þá treysti ég því fullkomlega, að ríkisstj. muni beita sér fyrir því með fyllstu kostgæfni og alúð að hraða rannsókn og framgangi málsins, en hraðinn sé þó það í hófi, að kostað sé jafnan kapps um að vanda undirbúninginn.

Sem sagt, ég get að þessu leyti lokið orðum mínum með því að segja, að þó að sumir álíti, að frv. sé sæmilegt til samþ. og trygging fyrir framgang málsins, þá sé ég ekki, að það geti á nokkurn hátt flýtt fyrir málinu. Það er aðeins í því heimild til ríkisstjórnarinnar um að láta framkvæma áframhaldandi rannsókn. Og ég þykist vita, að ríkisstjórnin ætli að gera þetta, hvort sem lög eru til um það eða ekki. Það sér hver maður, að það gerir hvorki af né á, hve fljótt eru samþ. l. um þessa verksmiðju, ef unnið er að því að flýta alhliða niðurstöðum rannsóknarinnar, og það svo, að þær verði sem réttastar. Dagskrártill. okkar er flutt með það fyrir augum, og vona ég, að hún verði samþ., eins og hún er á þskj. 965.