05.02.1945
Efri deild: 118. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í C-deild Alþingistíðinda. (2553)

119. mál, áburðarverksmiðja

Fjmrh. (Pétur Magnússon):

Herra forseti. Það er alveg rétt, sem hv. frsm. minni hl. landbn. sagði, að eins og þetta mál liggur fyrir, er ekki ástæða til þess að hafa um það langar umr., þar eð ekki er mikill ágreiningur um afgreiðslu þess.

Ég vil þó láta í ljós þá skoðun mína, að mér finnst sú aðferð viðfelldnari, sem hv. meiri hl. landbn. stingur upp á, að vísa málinu til nýbyggingarráðs til frekari athugunar. Mér finnst þessi aðferð viðfelldnari, sérstaklega af því, að það sýnist eðlilegra að láta fara fram þessa athugun, áður en löggjöfin er sett. Hitt er svo óviðfelldið, að setja l. fyrst og láta síðan halda áfram rannsókn á því, hvort verk þetta sé í raun og veru framkvæmanlegt eða ekki. Ég fæ ekki séð, að það þurfi að tefja málið, þótt nýbyggingarráð framkvæmi þessa athugun, og geri ég ráð fyrir, að það fái færa menn til þess að annast hana og gangi ríkt eftir því, að hún fari fram eins fljótt og auðið er. Hitt held ég, að allir séu sammála um, að eins og málið liggur fyrir nú, væri ekkert vit í því að fara að gera ráðstafanir til þess að koma upp verksmiðjunni, þar sem vafalaust er þörf á frekari rannsóknum, áður en í það mjög kostnaðarsama fyrirtæki væri ráðizt.

Það hefur verið mikið um það talað, að áburðarverksmiðja ætti að geta orðið lyftistöng fyrir íslenzkan landbúnað, en því má ekki gleyma, að til þess verður hún að uppfylla tvö skilyrði. Í fyrsta lagi verður hún að geta framleitt áburð, sem væri að gæðum ekki lakari en sá áburður, sem inn í landið hefur verið fluttur frá útlöndum; í öðru lagi verður hann að vera samkeppnisfær um verðlag á hinum innflutta áburði. Eins og málið horfir enn þá við, er ekki unnt að segja neitt um það með fullri vissu, hvort þessum tveim skilyrðum yrði fullnægt. Hvað gæði þessa áburðar snertir, hefur áburðurinn aldrei verið reyndur hér á landi, og meira en það, hann hefur aldrei verið reyndur á Norðurlöndum. Nú segja þeir menn, sem betri skilyrði ættu að hafa til þess að dæma um þetta, að enda þótt reynsla væri fengin um notkun þessa áburðar annars staðar undir öðrum skilyrðum, þá sé ekki hægt að treysta því með fullri vissu, hvort útkoman yrði sú sama hér á landi. Mér skilst því, að það sé með öllu óhjákvæmilegt, að tilraunir fari fram um notkun þessa áburðar, ammoníumnítrats, hér á landi, áður en reist yrði verksmiðja til þess að framleiða áburðinn, og ég geri ráð fyrir því, að ef málinu verður vísað til nýbyggingarráðs, þá verði það fyrsta, sem það geri, að gangast fyrir því, að þetta efni verði reynt hér nú þegar á næsta sumri. Ég er hins vegar engan veginn fær til þess að dæma um það, hvort reynsla eins sumars væri nægileg til þess að fá úr því skorið, hvort þessi áburðartegund væri fullnægjandi hér til frambúðar. Það eru uppi skiptar skoðanir um það, hvort nota ætti fleiri tegundir af áburði eða hvort köfnunarefnisáburður er fullnægjandi, og er ég ekki fær um að dæma um það, en þótt það lægi ekki fyrir nema eins árs reynsla um þann áburð, þá væri hún þó einhvers virði og við værum sönnu nær eftir reynslu eins sumars en ef engin reynsla væri fengin um hann. En þetta er að sjálfsögðu atriði, sem mér fróðari menn verða að dæma um, og fróðari menn en nokkrir af okkur erum um þessa hluti, sem hér eru inni.

Um verð á þessum áburði, að svo miklu leyti sem upplýsingar liggja fyrir um, er það að segja, að mér skilst nú, að gengið sé út frá, að það verði aðeins hærra en verð á erlendum áburði, eftir skýrslum, sem hv. frsm. minni hl. þekkir frá Rannsóknaráði ríkisins. Mér skilst, að gengið sé út frá, að þessi áburður muni kosta kr. 2.520.97 pr. smálest, en að sami áburður muni kosta innfluttur kr. 2.314.00 pr. smálest, miðað við flutningsgjöld s.l. vors, og er þetta ekki teljandi verðmunur og þarf ekki að útiloka, að það gæti borgað sig að framleiða áburðinn hér á landi, en þetta er að sjálfsögðu atriði, sem þarf að athuga betur.

Enn fremur þekkja hv. þm., sem á annað borð hafa haft þessi gögn til athugunar, að verið er að athuga fleiri möguleika en þann, sem hér um ræðir, og í áætlunarskýrslu alkunns verkfræðings, sem byggt hefur verið á, er bent á það, að sjálfsagt sé að athuga sérhverja leið, sem fær yrði, til þess að koma þessu á sem réttastan rekspöl, ef það verður ofan á að ráðast í stofnun þessa fyrirtækis.

Mín skoðun er sú, að hvort sem till. hv. meiri hl. eða hv. minni hl. landbn. yrðu samþ., mundi aðferðin, sem höfð yrði á eftir, vitanlega verða hin sama. Ef frv. fær lagasamþ., mun ríkisstj. í öllum tilfellum láta fara fram nauðsynlega athugun, áður en hún mundi hefjast handa um undirbúning á byggingu áburðarverksmiðju. Það er út af fyrir sig ekki óhugsandi, að þetta geti orðið á þessu ári, því að heimild er nú í fjárl. í þessu skyni, eins og hv. frsm. minni hl. minntist á. En án tillits til fjárframlaga er það alveg vafalaust, að ríkisstj. mundi láta fara fram fullkomnari athugun á málinu en hingað til hefur farið fram, áður en hún mundi hefjast handa um framkvæmdir.

Mismunurinn á till. meiri og minni hl. landbn. er ekki annar en sá, að í öðru tilfellinu á ríkisstj. að sjá um rannsókn og athuganir á málinu, en í hinu tilfellinu á nýbyggingarráð að hafa þær á hendi. En ég verð að segja það, að úr því að nýbyggingarráð hefur verið stofnað, sýnist mér mjög eðlilegt, að það fái til athugunar mál slíkt sem þetta, þar sem um er að ræða svo stórt mannvirki, sem ætlazt er til, að komið verði í framkvæmd á kostnað hins opinbera. Þótt þetta skipti ekki efnislega miklu máli, finnst mér eðlilegra að fara þá leið, sem hv. meiri hl. hefur lagt til, og mun ég því greiða atkv. með rökst. dagskránni.