05.02.1945
Efri deild: 118. fundur, 63. löggjafarþing.
Sjá dálk 83 í C-deild Alþingistíðinda. (2554)

119. mál, áburðarverksmiðja

Jónas Jónsson:

Herra forseti. Ég hef ekki sannfærzt við rök hv. 1. þm. N.-M. og hæstv. fjmrh. um, að það skipti svo miklu máli, hvort það frv., sem hér liggur fyrir, verði drepið eða samþ. og ætla að víkja að því nokkrum orðum.

Það er vitanlegt, að því aðeins, að hér sé nægilega mikið af tiltölulega ódýrum tilbúnum áburði, verður hægt að rækta hér í stórum stíl landsvæði, þar sem nú eru auðnir, sem er nauðsynlegt vegna heilsu þjóðarinnar. Ég held, að það megi líkja vel undirbúinni verksmiðju, sem vinnur köfnunarefnisáburð úr vatni og lofti aðallega, við fiskimið okkar. Við skulum taka sem dæmi, að hv. Alþ. samþ. að banna alla veiði á stórum skipum í Faxaflóa, þótt það væri skaði fyrir útgerðina hér á landi um stundarsakir. Hvers vegna mundum við gera þetta? Af því að vissa er fyrir því, að sá fiskur, sem sjávarútvegur okkar byggist á, gengur til þurrðar, ef hvergi er fórnað, og það að íslenzkir útvegsmenn leggja á sig þá fórn að friða Faxaflóa, er eingöngu til þess að tryggja það í framtíðinni, að hér verði mikill fiskur við ströndina á ókomnum árum. Áburðarverksmiðjan er alveg hliðstæð og þar er sama undirstaðan undir það, að hér verði mikil ræktun. Án þess að ég vilji hafa um það mín orð, þá gefa skýrslur frá Árna Friðrikssyni fiskifræðingi nokkra hugmynd um þetta, og getur hann ekki búizt við öðru en að fiskimið okkar verði fátækari með hverju árinu, sem líður, og að svo geti farið, að hin íslenzka þjóð verði að snúa sér að jarðyrkju, af því að það verði þá álitlegra til lífsframfæris fyrir þjóðina. Nú er sá munurinn á þessari aðferð, að hér er verið að ganga frá frv., sem slær föstu, að reist verði áburðarverksmiðja, og er gert ráð fyrir, að ríkissjóður leggi fé til hliðar í þessum efnum og að það sé ekki afturkræft. Það, sem þetta frv. miðar að með því að byrja á að leggja til hliðar fjárframlög til áburðarverksmiðju, sem gert er ráð fyrir, að verði ekki afturkræft, er að undirbúa jarðveginn og tryggja landbúnaðinn í framtíðinni, því að það eru beinlínis engin takmörk fyrir því, hvað hægt er að framleiða tilbúinn áburð ódýrt.

Ég vil t. d. taka það sem dæmi, að mikið hefur verið talað um, að við höfum of lítið af sumum landbúnaðarafurðum, t. d. smjöri, sem orsakast m. a. af of litlum áburði, og er öllum kunnugt um, að svo má heita, að þetta land sé smjörlaust. Ef við tökum land eins og Kanada fyrir stríð, þá var þar bannað með l. að framleiða smjörlíki og borðaði þar enginn annað en smjör, sem var alls ekki dýrt. Ég álít þetta svo þýðingarmikið atriði, úr því verið er að reyna að bæta mataræði hjá almenningi, og er það hin mesta fjarstæða, að t. d. smjör skuli vera á því verði, að undir venjulegum kringumstæðum mundu stærstu stéttir landsins ekki hafa haft ráð á að neyta þess. Og í þessu sambandi vil ég því taka það fram, að eitt af skilyrðunum til þess, að við getum haft nægilega mjólk og smjör handa öllum landsmönnum, er það, að þetta frv. verði samþ. eins og það liggur hér fyrir.

Ég er ekki fær um að rökstyðja hið tekniska gildi vissra áburðartegunda, en ætla að minnast á tilraunir, sem skólastjóri garðyrkjuskólans á Reykjum gerði í sumar á áveitulandi við Hvítá. Hann notaði við þessar tilraunir venjulegan erlendan áburð í 10 tilteknum blöndum. Af sumum þeirra varð árangurinn lítill, en þar, sem hann varð mestur, bar uppskeran sjöfaldan ávöxt. Þetta dæmi sýnir greinilega, hversu mikla möguleika landið hefur í sambandi við notkun tilbúins áburðar. Þetta er sú framleiðsluvara, sem við ættum að geta haft hér á landi mjög ódýra og til þess að ýta undir ræktunina í bæjum og sveitum, en öll slík ræktun er trygging fyrir aukinni hollri fæðu landsmanna.

Ég álít því, að það hafi verið óhappaverk, þegar hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar lögðu til að fella niður framlög til verksmiðjunnar.

Ég skal ekki fara út í deilur um það atriði, hvort þessi tiltekna áburðarframleiðsla væri heppileg eða ekki, en geri ráð fyrir, að það mál hafi verið rannsakað og verði athugað enn betur, sem væri alveg óhjákvæmilegt, þar sem hæpið er, hvort unnt yrði að koma verksmiðjunni upp nú, því að hvorki er nægilegt rafmagn til þess í Reykjavík né á Akureyri. En það, sem við getum gert núna, er að draga saman fé, skapa tiltrú á þessari verksmiðju og halda áfram öllum skynsamlegum athugunum á því, hvernig þessum málum er háttað, en ég álít, að það verði á sínum tíma að leggja það undir dóm reyndra manna, hvaða tegund tilbúins áburðar yrði hér heppilegust til framleiðslu. Það, sem við þurfum við þessa framleiðslu, er skeljasandur, loft, vatn og rafmagn, sem við höfum nóg af. En það er hins vegar einn þáttur í þessu efni, sem getur orkað tvímælis, og hann er sá, hvort framleiðslukostnaður okkar við þetta fyrirtæki sé þannig, að við getum keppt við aðrar þjóðir í því efni, en við höfum ekki getað keppt við neina aðra þjóð um framleiðslukostnað. Tökum til dæmis, að við tökum á leigu ensk skip til þess að flytja út fisk okkar. Þau eru eftirsóknarverð fyrir okkur, af því að útgerðarkostnaður okkar eigin skipa er miklu dýrari en erlendu skipanna. Það hljóta því allir að sjá, að við getum ekki til lengdar lifað í okkar Paradís, meðan tilkostnaðurinn við okkar eigin framleiðslu er allur annar en meðal annarra þjóða. Við getum kannske beðið, meðan við erum að eyða því, sem til er, en niðurstaðan verður sú, að eftir stutta stund þýðir ekkert fyrir okkur að selja dýrari fisk eða dýrari áburð eða hvaða vöru sem er, samanborið við aðrar þjóðir.

Ég álít, þótt ég sé óánægður með, að felld hefur verið niður sú fjárhæð, sem fyrrverandi ríkisstj. ætlaði að verja í þessum tilgangi á skynsamlegan hátt og hún ætlaðist til, að yrði óafturkræf, þá sé samt fullkomin ástæða til þess að halda þessu máli áfram og álít, að við getum slegið föstu, að við eigum að framleiða innlendan áburð, enda þótt hæstv. ráðh. hafi hins vegar sagt, að við ættum ekki að framleiða þessa vöru hér, nema því aðeins, að við gætum orðið samkeppnisfærir um verðlag hennar í samanburði við erlendan áburð. Þessi verksmiðja er frá mínu sjónarmiði höfuðnauðsyn, ekki aðeins fyrir landbúnaðinn, heldur fyrir alla þjóðina, og við eigum að skoða hana sem alveg sérstakt atriði í þjóðarbúskap okkar.

Ég vil að lokum beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjmrh., hvernig hann hugsar sér fjárhagsframkvæmdir þessa máls, en hann hefur ráðlagt að fella niður bein fjárframlög í þessu skyni.

Ef menn hafa trú á, að takast megi að skapa þjóðinni lífvænlega framtíð, verðum við að koma þessu máli í framkvæmd. Þetta er ein af undirstöðum framtíðarlífs þjóðarinnar, og við eigum að vera menn til að skapa þessa undirstöðu.